Menu
RSS

Hvað mælir gegn afnámi verðtryggingar? Featured

Vísitalan, verðbólgan og verðtryggingin sem hengir þetta saman er mönnum sífellt áhyggjuefni. Allir málsmetandi menn segja að það sé þjóðþrifamál að halda þeim skepnum í skefjum, ella lendi hér allt á heljarþröm og þjóðfélagið fari í upplausn. Vissulega vill það ekki nokkur maður. Gallinn er hins vegar sá að allt þetta hagfræðital og myndlíkingar er vægast sagt ógagnsætt og torskilið fyrir venjulegt fólk og vesalings frétta- og blaðamennirnir virðast ekki þora að afhjúpa fávisku sína í þessum efnum með þeim afleiðingum að álitsgjafar komast upp með að vaða elginn árum og áratugum saman. Vísitalan, verðtryggingin og allt sem henni er bundið er orðið einhvers konar andlitslaust vald, kafkaískt völundarhús, ófreskja sem enginn kann skil á en allir vilja leggja að velli, enda veltur það á henni hvort endar ná saman hjá fólki, því skuldir fólks fylgja henni dyggilega, en launin hins vegar ekki.

Hvað mælir gegn afnámi verðtryggingar?

SAT einhvern tímann um daginn fyrir framan imbakassann og horfði á fréttirnar með hálfum huga. Það var þetta venjulega: stríð hér, jarðskjálfti þar, auðmjúkt viðtal við ráðherra, viðtal við annan ráðherra og svo framvegis, allt eitthvað frekar sovéskt. Skyndilega birtist svo á skjánum glaðbeittur ungur fréttamaður með þau merku tíðindi að sennilega myndi vísitalan hækka minna en óttast var vegna þess að undanfarið hefðu Íslendingar verið óvenjuduglegir að dæla sjálfir bensíni á bílana sína. Þar af leiðandi myndu skuldir heimilanna í landinu ekki aukast eins mikið og áður hafði verið talið. Þetta þóttu mér nokkuð góðar fréttir, en fór svo af veikum mætti að hugsa um þau lögmál sem þessi frægu heimili í landinu verða að lúta, en hafa ekkert um að segja.


Hluthafinn eða viðskiptavinurinn?

Hún er áhugaverð, þróunin sem virðist vera að eiga sér stað í banka- og peningamálum landsmanna. Eftir fréttaflutning af svívirðilega háum gróðatölum bankanna virðast þeir nú smátt og smátt vera að láta undan þrýstingi langskuldugra landsmanna og lækka vexti lítillega, færast örlítið nær því sem gengur og gerist í helstu viðskiptalöndum okkar, eins og sagt er á klisjumáli viðskiptanna. Undanfarið hafa þeir einkum verið að þjóna hluthöfum sínum, en kannski eru þeir smátt og smátt að átta sig á því að við kúnninn skiptir líka máli.

Lénsskipulag nútímans

Vísitalan, verðbólgan og verðtryggingin sem hengir þetta saman er mönnum sífellt áhyggjuefni. Allir málsmetandi menn segja að það sé þjóðþrifamál að halda þeim skepnum í skefjum, ella lendi hér allt á heljarþröm og þjóðfélagið fari í upplausn. Vissulega vill það ekki nokkur maður. Gallinn er hins vegar sá að allt þetta hagfræðital og myndlíkingar er vægast sagt ógagnsætt og torskilið fyrir venjulegt fólk og vesalings frétta- og blaðamennirnir virðast ekki þora að afhjúpa fávisku sína í þessum efnum með þeim afleiðingum að álitsgjafar komast upp með að vaða elginn árum og áratugum saman. Vísitalan, verðtryggingin og allt sem henni er bundið er orðið einhvers konar andlitslaust vald, kafkaískt völundarhús, ófreskja sem enginn kann skil á en allir vilja leggja að velli, enda veltur það á henni hvort endar ná saman hjá fólki, því skuldir fólks fylgja henni dyggilega, en launin hins vegar ekki.

Hvað er svona sérstakt hér?

Ef ég hef skilið rétt eigum við Íslendingar ekki einungis heimsmet í vaxtaokri, heldur virðumst við vera eina vestræna þjóðin sem bindur lán við vísitölu, raunar ásamt Rúmeníu minnir mig. Þetta hefur m.a. haft þær afleiðingar að bankar og lánastofnanir geta blóðmjólkað lántakendur, fullkomlega löglega og skilað stjarnfræðilegum arði, fært fé frá skuldugu fólki til fjármagnseigenda og viðhaldið þannig nokkurs konar nútímalegu lénsskipulagi. Guma síðan af öllu saman á hluthafafundum og í fjölmiðlum í stað þess að skammast sín ofan í tær gagnvart viðskiptavinunum.

Hvers vegna verðtrygging?

Allt eru þetta mannanna verk, kerfi sem menn hafa komið sér upp og þverpólitísk samstaða virðist vera um hérlendis. Kerfið er nánast farið að lúta eigin lögmálum án þess að neinn viti hvers vegna, menn berjast hetjulega við rauð strik, líkt og Don Kíkóti við vindmyllurnar forðum, en það hvarflar að því er virðist ekki að nokkrum manni að spyrja: Nú, þegar umhverfi fjármála og bankastarfsemi er farið að lúta sömu lögmálum og almennt gerist hjá vestrænum þjóðum, hvers vegna er séríslenska verðtryggingin þá ekki afnumin? Hvers vegna ekki að hugsa þetta frá grunni? Hvaða glóra er í því að lán almennt hækki vegna þess að neyslufíknin ber hluta þjóðarinnar ofurliði, eða forseta stórveldis langar að sýna vald sitt? Hverjir hafa hag af því að viðhalda þessu kerfi hérlendis? Bankar og fjármálafyrirtæki, augljóslega, enda eru þeir þar með allt sitt á þurru, bæði með lögbundin belti og axlabönd í þessu efni. En hvað um stjórnmálamenn? Hvernig væri að þeir tækju kosti og galla afnáms verðtryggingar á dagskrá og ræddu það í ljósi breyttra aðstæðna á fjármálamarkaði og nútímavæðingar hans almennt?
Ruslahaugar mannkynssögunnar eru yfirfullir af alls kyns hugmyndakerfum sem trénuðu og lognuðust út af vegna þess að þau urðu ógagnsæ, andlitslaus og fóru að lúta eigin lögmálum, eða vegna þess að skyndilega rann upp fyrir fólki hversu svívirðilega óréttlát þau voru. Og þá hefur nú stundum hvesst.

Friðrik Rafnsson fjallar um verðtryggingu
Höfundur er bókmenntafræðingur.

Greinin birtist í Morgunblaðinu, Fimmtudaginn 2. september, 2004 - Aðsent efni

Last modified onThursday, 28 February 2013 22:03
back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna