Menu
RSS

Verðtryggingin er vond Featured

Segja má að Valgeir Sigurðsson hafi fyrir mörgum árum gert sér grein fyrir mikilvægi samtakamáttar fólksins gegn kerfinu sem ver verðtrygginguna þar sem hann segir í niðurlagi þessarar greinar "Tökum höndum saman! Bindumst samtökum! Hrindum af okkur því heimskulega ranglæti - þeirri niðurlægjandi ósvinnu í garð almennings - að verðtryggja aðeins skuldir manna, en ekki aðra þætti sem skipta sköpum fyrir afkomu fólks". Nú hafa þau samtök verið stofnuð og þykir við hæfi að birta grein Valgeirs á nýjan leik þrátt fyrir að hún hafi upphaflega birtst fyrir sex árum síðan.

Valgeir Sigurðsson fjallar um verðtrygginguna: "En svo var gripið til þess fáheyrða óþokkabragðs, sem á sér líklega ekki neina hliðstæðu meðal siðaðra þjóða, að klippa verðtrygginguna af launum manna, en láta hana haldast á skuldunum."

"VERÐTRYGGING lána er óeðlileg hvernig sem á hana er litið. Hún er séríslenskt fyrirbæri og eingöngu gerð til að tryggja hagsmuni fjármagnseigenda á kostnað almennings. Hún er stöðug ógnun við fjárhagslegt öryggi heimilanna í landinu, enda hafa þau í þúsundatali orðið gjaldþrota síðan Ólafslögin illræmdu voru samþykkt á Alþingi hinn 10. apríl 1979."

 

Þannig hefst ágæt grein, sem Sigurður T. Sigurðsson, fyrrv. formaður Hlífar í Hafnarfirði, skrifaði og birtist í Fréttablaðinu 8. apríl 2005. Hér talar sá sem veit, enda munu ekki aðrir vera dómbærari um þetta efni en forystumenn launþega og þeir sem staðið hafa við hlið alls almennings í landinu um áratuga skeið. Auðvitað er það rétt hjá Sigurði, að upphaf ófarnaðarins er samþykkt Ólafslaganna svonefndu á sínum tíma, en hins ber þó að geta, að í upphafi var ráð fyrir því gert, að verðtryggingin næði til fleiri þátta en skulda. Meira að segja skyldu "elli- og örorkulaun og aðrar hliðstæðar tryggingabætur" njóta verðtryggingar. (Sjá m.a. Lagasafn I. bindi 1983, dálkur 193.)


En svo var gripið til þess fáheyrða óþokkabragðs, sem á sér líklega ekki neina hliðstæðu meðal siðaðra þjóða, að klippa verðtrygginguna af launum manna, en láta hana haldast á skuldunum. Og það í bullandi verðbólgu. Sagt hefur verið í mín eyru, að þessi verknaður sé voðalegasti fjármálaglæpur, sem framinn hafi verið á Íslandi alla tuttugustu öldina, og er þá ekki lítið sagt. Og víst er um hitt, að enn eru ógróin mörg þau sár sem þá voru veitt fjölskyldum í landinu, sem ekkert höfðu til saka unnið.

Þótt ótrúlegt sé, eru enn til menn á Íslandi, sem mæla opinberlega bót þeirri óhæfu sem verðtryggingin er, eins og hún er og hefur verið framkvæmd. Þeir eru annað slagið að reka upp gól í blöðunum og segja, að verðtryggingin sé ekkert vond, - hún sé bara góð!!! Þannig leyfa sér jafnvel að skrifa menn sem krefjast þess að vera kallaðir sérfræðingar á þessu sviði og taka laun af almannafé sem slíkir. En almenningur í landinu veit betur en þeir. Íslenzka þjóðin veit betur.

En þótt auðvitað sé gott að vita vel, þá er það ekki nóg. Við verðum líka að vinna. Ég skrifaði grein um þetta efni í félagsrit okkar gamla fólksins, það heitir Listin að lifa, og grein mín birtist í október-heftinu 2003. Ég kallaði hana "Burt með verðtrygginguna". Ég fékk ákaflega mikil viðbrögð við þessari ritsmíð minni, og maður - sem ég þekki raunar ekki neitt - skrifaði góða grein í Dagblaðið, þar sem hann tók undir sjónarmið mín.

En ekkert af þessu er nóg. Við verðum einnig að bindast samtökum. Það hlýtur að vera hægt að mynda grasrótarhreyfingu af fleiri tilefnum en bandvitlausri einkavæðingu, þar sem menn vilja ólmir kaupa það sem þeir áttu fyrir. (Sbr. sporðaköstin í Agnesi Bragadóttur á sínum tíma.)

Nú er óvenjugott lag til þess að vinna gegn verðtryggingarbrjálæðinu. Nú eru loksins farnar að heyrast raddir innan úr stjórnmálaflokkunum þess efnis, að verðtryggingu lána beri að afnema, eða a.m.k. setja henni takmörk. (Einhver nefndi að banna hana á lánum til 20 ára - sem er auðvitað í áttina, en þó hvergi nærri nóg.) Svo mætti kannski líka minna á, að það styttist óðum í næstu kosningar til Alþingis, og þótt hæstvirtir landsfeður vorir séu að vísu þekktari fyrir annað en að taka tillit til þegna sinna, þá hefur hræðslan þó stundum gripið þá, þegar þeir óttast um atkvæðin sín. Og hræðslugæði eru oft skárri en engin gæði. Þetta lag verðum við að nýta okkur. Tökum höndum saman! Bindumst samtökum! Hrindum af okkur því heimskulega ranglæti - þeirri niðurlægjandi ósvinnu í garð almennings - að verðtryggja aðeins skuldir manna, en ekki aðra þætti sem skipta sköpum fyrir afkomu fólks.

 


Valgeir Sigurðsson

Höfundur er rithöfundur.

Greinin birtist Laugardaginn 19. nóvember, 2005 í Morgunblaðinu - Aðsent efni

Last modified onThursday, 28 February 2013 22:03
back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna