Menu
RSS

Sameiginlegir hagsmunir Featured

Grein eftir Friðrik Ó Friðriksson formann HH 2010-2011. Greinin birtist einnig í mbl. 30. mars. 2011

Það eru sameiginlegir hagsmunir heimila, atvinnulífs, fjármálafyrirtækja og hins opinbera að hjól hagkerfisins fari að snúast að nýju.  Því miður virðast stjórnvöld enn firra sig ábyrgð á grafalvarlegri stöðu heimilanna í landinu og áhrifum hennar á hagkerfið í heild.  Horft er fram hjá þeirri staðreynd að skuldir heimila fjórfölduðust árin 2000-10 og nú eru um 59.000 heimili í fjárhagslega afar þröngri stöðu.

Hratt hefur gengið á allan sparnað heimilanna sl. ár.  Mikil hætta er á að þúsundir heimila missi tökin á fjárskuldbindingum sínum innan skamms og neyðist til að undirgangast greiðsluerfiðleikaúrræði eða gjaldþrot.  Opinber hagsmunagæsla virðist ekki lengur snúast um almannahag, heldur styrk þanins fjármálakerfis, opinbera sjóði og meingallað lífeyriskerfi, á kostnað almennings.

Á árunum 2002-08 voru greiddir árlega um 30 ma. kr. af skattfé í lífeyrissjóði opinberra starfsmanna.  Þeir njóta baktryggingar launagreiðanda, þegar þeir ná ekki að uppfylla 3,5% lámarkskröfu um raunávöxtun.  Kerfið í heild er nú í um 800 ma. kr. halla gagnvart tryggingafræðilegri skuldbindingu við sjóðsfélaga.  Þrátt fyrir gríðarlegar inngreiðslur af skattfé í sjóði opinberra starfsmanna, sem endurspeglar um 22% vinnuafls, er sá hluti kerfisins nú í um 500 ma. kr. halla.  Verðtrygging og há ávöxtunarkrafa sjóðanna leiðir til vaxandi misvægis eigna og skuldbindinga sjóðanna, sem kallar nú á harkalegar skattahækkanir og niðurskurð opinberrar þjónustu á öllum sviðum.  Á grunni verðtryggingar fara opinberir starfsmenn fram á um 32% raunhækkun lífeyriseignar frá 1.1.2008, en almenni hluti lífeyriskerfisins þarf að taka á sig 10-25% skerðingu.  Samtímis taka lánþegar verðtryggðra lána á sig um 126 ma. kr. skuldaaukningu, sem færist til eigna inn í lífeyriskerfið.  Hvorki atvinnulíf né heimili landsins hafa ráð á þessu lífeyriskerfi, sem hefur leitt af sér óbærilegan fjármagnskostnað og skuldir, sem munu lama hagkerfið að óbreyttu innan skamms.

Í lok febrúar sl. voru 14.873 manns án atvinnu í landinu, þegar með eru taldir þeir sem hafa flust burt af landinu og skráð sig í nám vegna samdráttar.  Því er haldið fram að atvinnuleysi hafi aldrei verið jafn mikið á landinu og það hafi hvergi í veröldinni aukist jafn mikið á skömmum tíma og hérlendis.  Staðan er fordæmalaus, þrátt fyrir að við ýtum vandanum stöðugt á undan okkur með verðtryggðum jafngreiðslulánum og gríðarlegri kreditkortaneyslu.

Skuldir fyrirtækja í landinu áttfölduðust árin 2000-10 og nú eru um 50% allra fyrirtækja í fjárhagslegri endurskipulagningu, þar sem þau eru að færa um 6000 ma. kr. tap milli ára og munu ekki greiða skatta á meðan.  Hvaðan eiga skatttekjur að koma næstu ár?  Fyrirtækin ásamt hinu opinbera fleyta auknum kostnaði og álögum út í verðlagið, sem í senn hækkar skuldir vegna verðtryggingar og skerðir ráðstöfunartekjur heimilanna.  Við það minnkar bæði neysla og fjárfesting heimilanna, sem veikir allt rekstrarumhverfi fyrirtækja til muna og skilar sífellt minni veltusköttum til hins opinbera, sem þarf þá að hækka álögur og skera frekar niður.  Hvernig eiga heimilin að afla tekna þegar ekki er lengur hægt að fá dagvist fyrir börnin eða meðhöndlun sára sinna?  Hvar ætla lífeyrissjóðirnir að ávaxta sína 130 ma. kr. við þessi skilyrði?  Hvernig lögum við til í stjórnsýslunni þegar hún hefur beina hagsmuni af óbreyttu kerfi?  Á meðan heimili og fyrirtæki reka sig viku fyrir viku tikkar tímaskyn hins opinbera á milli árlegra fjárlaga og stjórnvöld beinlínis neita að birta spá um þróun á stöðu heimilanna komandi ár af ótta við of mikinn pólitískan þrýsting.  Eru samtök atvinnulífs og launþega líkleg til að breyta sínu valdakerfi sem felst í lífeyrissjóðakerfinu í dag ótilneydd?  Gæta samtök launþega raunverulega hagsmuna launafólks, eða eru þau að verja eigið valdakerfi, bundið í lífeyrissjóðunum?  Þeirra áhersla á kaupmátt og mánaðarlega greiðslubyrði hefur gert fólk ónæmt fyrir margföldun skulda, sem samtímis hefur þýtt verulega bókfærða eignauppbyggingu sjóðanna.

Heimilunum er nú gert að standa skil á glórulausum skuldakröfum. Lagaleg óvissa ríkir enn um forsendur endurreikninga gengistryggðra lána og réttmæti afturvirkra breytinga á kjörum neytendalána. Forsendur verðbólgu, byggðri á víðtækri svikastarfsemi fjármálafyrirtækja og alvarlegum hagstjórnarmistökum verður að teljast á tæpum grunni byggð, þó mælingar vísitölubreytinga fari eftir bókinni.  Það er ljóst að hið opinbera jók tekjur sínar verulega í skugga óábyrgra útlána fjármálafyrirtækja og hafði því beinna hagsmuna að gæta af kerfisbundinni og gríðarlegri skuldsetningu heimila og fyrirtækja.  Er slík hagsmunagæsla ásættanleg?

Leiðrétta verður verð- og gengistryggð veðlán heimilanna skv. tillögu Hagsmunasamtaka heimilanna og skapa þannig hagkerfinu og samfélaginu tíma og sátt til að takast á við nauðsynlegar endurbætur á gölluðum grunnkerfum.  Ég hvet fólk til að kynna sér aðgerðaramma samtakanna til að skapa skilyrði til viðsnúnings og endurreisnar á www.heimilin.is.

Friðrik Ó. Friðriksson

Last modified onThursday, 28 February 2013 22:03
back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna