Menu
RSS

73.000 heimili eignalaus 2011 Featured

Í kjölfar dóms Hæstaréttar í Lýsingarmálinu, brást ríkistjórnin skjótt við og tilkynnti að lög yrðu sett er miða uppgjör erlendra lána við lægstu óverðtryggðu vexti Seðlabanka Íslands (SÍ).  Með því eiga erlend lán heimila að lækka um 30%-40% segir Efnahags- og viðskiptaráðherra og telur þetta einu réttu leiðina og sanngjarna niðurstöðu.  Ekki kom fram hjá ráðherra út frá hvaða sjónarmiði hann taldi þetta sanngjarnt, en leiða má að því líkum að þetta sé sanngjarnt gagnvart fjármálakerfinu frekar en heimilum. Ekki einungis hafa gengistryggð lán hækkað sem nú á að leiðrétta aðeins að hluta, heldur hafa verðtryggð lán heimila hækkað á sama tíma og fasteignaverð heimila hefur lækkað.  Eigið fé heimila hefur því rýrnað verulega í kjölfar bankahrunsins og stefnir í að það verði neikvætt þrátt fyrir leiðréttingu á erlendum lánum uppá 30-40%.  Við hrun bankana lætur nærri að eignarýrnun heimila sé um 1.000 milljarðar.  

Núverandi ríkistjórn boðar ekki almennar aðgerðir til að mæta erfiðleikum þúsundir heimila, heldur sértækar.  Ríkistjórnin er föst í aðgerðum eða aðgerðaleysi sínu við að ráða framúr þeim stóra vanda sem blasir við heimilunum í landinu.  Ríkistjórn Íslands mun vanvirða íslensk heimili með að senda þúsundir heimila í gegnum sértæka skuldaaðlögun þar sem ætlunin að skammta heimilunum framfærsluna.  Heimilin áttu ekki sök á efnahagshruninu heldur eru þolendur. Gera verður greinarmun á því hvort heimilin skuldsettu sig viljug umfram greiðslugetu sína eða hvort staða þeirra er til komin vegna aðstæðna sem þau höfðu hvorki stjórn né sök á.

Erlend lán hækka 50% - 100%
Frá byrjun árs 2008 fram til september 2010 hefur gengið krónunnar lækkað um 67% skv. gengisvístölu.  Um 2/3 hluti erlendra lána heimila er í þremur myntum; jenum (JPY), svissneskum frönkum (CHF) og evrum (EUR).   Meðalhækkun þessara þriggja mynta er 98% yfir tímabilið.  Vísitala neysluverðs hækkaði um 28% á sama tímabili.  Samkvæmt heimildum Seðlabanka Íslands námu heildarskuldir heimila um 1.890 milljörðum við fjármálastofnanir en þar af eru 1.100 milljarðar í  verðtryggðum húsnæðislánum og 350 milljarðar í gengistryggðum lánum.

Lán heimila hækka um 415 milljarða !
Vegna aukinnar verðbólgu í kjölfar hrunsins  hafa verðtryggð húsnæðislán  hækkað um 245 milljarðar frá 2008.  Það væri ósanngjarnt að segja að öll þessi hækkun sé út af hruninu einu og sér, því undirliggjandi verðbólga í gegnum tíðina hefur verið í kringum 4,8% (sjá mynd á næstu síðu). Meðal verðbólga árana 2001 – 2007 var 4,8% og segja má að verðtryggðar skuldir heimila hafi aukist um 130 milljarða  umfram meðalverðbólgu sem má rekja beint til hrunsins.  

Erlendu lán heimila voru eins og áður sagði um 350 milljarðar í lok 2008.  Eru þetta bílalán, húsnæðislán og önnur lán sem heimili hafa tekið.  Gengislækkun krónunnar hefur valdið því að erlend lán heimila hafa hækkað um 170 milljarða eða nær tvöfaldast vegna hrunsins.  Lán heimila hafa hækkað um alls 415 milljarða á tímabilinu

Hrein eign heimila minnkar verulega
Á sama tíma og skuldir heimila hafa hækkað verulega, hefur fasteignaverð lækkað um 13% frá byrjun árs 2008.  Samkvæmt mati þjóðskrár Íslands sem gefur út fasteignamat, mun verð íbúðarhúsnæðis lækka enn frekar fram til loka 2011 eða um 10%.  

Í byrjun árs 2008 nam heildarverðmæti íbúðareigna samkvæmt þjóðaskrá Íslands um 2.430 milljörðum. Skuldir í verðtryggðum- og erlendum lánum var samtals um 1.030 milljarðar árið 2008.  Um 100.000 heimili voru skráð fyrir íbúðareign og þar af skulduðu 27.000 heimili ekkert í eigin húsnæði.  

Verðmæti fasteigna stendur nú í um 2.060 milljörðum (var 2430 ma.kr.) og hefur lækkað um 370 milljarða á  sama tíma og skuldir hafa hækkað um 417 milljarða.  Aðrar peningalegar eignir hafa einnig lækkað við bankahrunið, og töpuðu 56.000 einstaklingar 183 milljörðum í hlutabréfum fjármálafyrirtækja og annarra fyrirtækja sem skráð voru í Kauphöll Íslands.  Þá eru ótaldar aðrar eignir sem lækkað hafa í verði eða tapast vegna hrunsins.

Viðsnúningar heimila hvað þessa liði varðar er verulegur til hins verra, bæði á eigna- og skuldahlið.  Lætur nærri að viðsnúningur heimila sé því um 1.000 milljarða.  Hafa ber í huga að eignir heimila eru fleiri en fasteignir; eins og aðrar peningalegar eignir sem ekki eru skráðar í kauphöll, ökutæki, innistæður í innlendur og erlendum bönkum ofl.   

Í samantekt sem Fjármálaráðuneytið lét gera um skuldastöðu heimila 2009, er fjöldi heimila sem skuldar um 73.000 en 17.500 heimili sem ekkert skulda.  Dreifing skulda er misjöfn eftir aldurshópum, yngri fjölskyldur skulda meira en eldri fjölskyldur.  Yngri fjölskyldur hafa því farið verst úr bankahruninu.   Þau 73.000 heimili sem skulda eru að taka á sig um 400 milljarða hækkun á verðtryggðum og gengistryggðum lánum sem er aukning uppá 5 – 6 milljónir á hvert heimili sem skuldar.    

Eiginfjárhlutfall þessara 73.000 fjölskyldna var 54% í byrjun 2008, lækkaði 40% í árslok 2008 og lauslega áætlað, verður eigin fé þessara heimila í fasteignum uppurið 2011 miðað við spá um verðbólgu og fasteignaverð á næsta ári. 

Er birgðunum af hruninu réttlátlega dreift ?

Mikið hefur þurft til, til að koma fram leiðréttingu á erlendum lánum heimila. Skaðinn er ekki síður í hækkun á verðtryggðum skuldum heimilanna vegna bankahrunsins.   Leiðrétting eða lækkun á erlendum bíla og fasteignalánum dugar skammt til laga þessa alvarlegu stöðu sem heimili eru komin í og verða komin í árið 2011.  

Það verður ekki sé að  30% - 40% leiðrétting á erlendum lánum einum og sér bjargi miklu um stöðu heimila almennt eins og staðan er og hvert stefnir. Þaðan af síður að sú leiðrétting sem Efnahags og viðskiptaráðherra boðar og ætlar að binda í lög.  Tjón heimilanna er hækkun skulda uppá 400 milljarða.  Verði ný lög sett um leiðréttingu eða lækkun höfuðstóls erlendra lána, leiðréttir það aðeins 1/4 af skaðanum vegna hrunsins.  Stór hluti heimila í landinu verða eftir sem áður í skuldafjötrum vegna afleiðinga hrunsins.  Þaðan af síður er það réttlát skipting birgðanna af hruninu, að þau beri 75% af heildarskaðanum.  Það verður engin sátt um þetta í þjóðfélaginu.

Það er ekki sanngjörn og er heldur ekki eðlileg lausn þessa vandamáls að senda fjölskyldur sem nú eru að missa húsnæði sitt vegna hækkana á verðtryggðum– eða erlendum lánum vegna hrunsins, í sértæka skuldameðferð þar sem framfærsla þeirra verður skömmtuð næstu árin.  Þessar sértæku  aðgerðir eru aðeins kropp í heildarstærð vandamálsins og í raun vanvirða við íslenskar fjölskyldur sem sköpuðu sér ekki þessar aðstæður.  Fram hefur komið að 15.000 - 20.000 heimili séu í miklum erfiðleikum og allt að 40.000 heimili í erfiðleikum með greiðslugetu sína.  

Hvert það heimili sem tekið hefur íbúðarlán og orðið fyrir hækkunum vegna hrunsins, á rétt  á leiðréttingu lána sinna vegna þessa tjóns sem hlotist hefur af efnahagshruninu, og gildir þar einu hvort eigið fé sé enn til staðar í íbúðarhúsnæði eða ekki eða hver staða heimilis er.  Annars verður heimilum í landinu mismunað. það þarf að leiðrétta bæði verðtryggð- og erlend lán með almennum aðgerðum en ekki sértækum úrræðum, til að koma í veg fyrir enn stærra tjón.   

Agnar Jón Ágústsson

Last modified onThursday, 28 February 2013 22:03
More in this category: « Íslensk alþýða Neytendabylting »
back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna