Menu
RSS

Fjárhagsleg helför á Íslandi Featured

Eftirfarandi grein var lesin á Austurvelli 27. febrúar af Theódór Norðkvist fyrir Hagsmunasamtök heimilanna (hann er þó ekki höfundur greinarinnar). Í ljósi þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin er nú að bjóða okkur upp á er spurning hvort við séum í raun á þeirri braut sem hér er lýst (tekið er sérstaklega fram í yfirlýsingu að þetta séu lokaorð stjórnvalda hvað varðar aðgerðir fyrir heimilin). Við bjóðum lesendum að dæma um það sjálfir hvort það sem hér er lýst sé nærri því sem raunverulega er að gerast og setja inn athugasemdir við greinina.

Fjárhagsleg helför á Íslandi
Alþjóðlegur minningadagur helfararinnar, 27. janúar 2010, er nýliðinn. Á þessum degi 1945 frelsaði her Sóvétmanna 7.000 manns úr útrýmingar- og fangabúðum í Auschwitz-Birkenau í Póllandi. Var allt fólkið skelfilega illa á sig komið. Þetta var hryllingur.

Hins vegar ber að líta aðeins lengra aftur í söguna. Hitler hafði náð að semja við marga framleiðendur um að nýta gyðinga sem vinnuafl og markmið með að koma þeim fyrir í Auschwitz var m.a. að þar voru miklar kolanámur sem ætlunin var að nýta. Lestirnar streymdu ört til Auschwitz og það var yfirflæði af fólki. Af þeim sökum töldu Þjóðverjar sig þurfa að hraða aftökum umtalsvert.

Enn þann dag í dag er að koma fram fólk sem vann fyrir Þjóðverja á einn eða annan hátt sem segir að þetta hefði þurft að gera, þetta voru reglurnar og þeim bar að fylgja þeim eftir. Á þessum tíma þótti þetta sjálfsagt og hvar sem finna mátti embættismann, lögmann eða fræðimenn voru flestir sammála um á þessum tíma að ekkert væri sjálfsagðara en að nota fólk sem þræla, taka það af lífi og nýta af því hárið til vefnaðar. Samhliða viðamiklum ofbeldisaðgerðum voru húseignir og lausamunir þessa fólks tekið af því og afsalað öðrum til eignar samkvæmt ákvæðum þágildandi laga og reglna. Fyrirfundust fjölmargir lögmenn, embættismenn og fólk úr röðum almennings til að réttlæta þessar gjörðir allar sem sprottnar voru af hinu illa, ekki af hinu góða.

Enn þann dag í dag fyrirfinnast einstaklingar og heilu hóparnir sem stilla saman strengi til að berjast fyrir eigin tilvist á kostnað annarra. Með fullri virðingu fyrir þeim hörmungum sem gyðingar urðu fyrir og aðrir, sem hafa orðið fyrir barðinu á harðstjórn, er hér í þessari samantekt leitast við að lýsa atburðum sem nú eiga sér stað á Íslandi og gætu vissulega orðið að veruleika illu heilli.

Viðskiptaráðuneytið, Dómsmála- og mannréttindaráðuneytið, Félagsmálaráðuneytið, lögmannastéttin, stjórnmálastéttin, bankastarfsmenn í efri lögum banka, fjölmargir embættismenn og margir fulltrúar Seðlabanka Íslands telja nú sjálfsagt mál að nauðungarsölur fari fram, eigið fé sé tekið af heimilum landsmanna og fjöldi manns hnepptur í þrældóm fyrir mistök þeirra sjálfra. Þetta gerði Hitler þegar greiða þurfti fyrir skuldir á sínum tíma, einnig Pol Pot og margir fleiri. Á Íslandi er þessu ekki ólíkt farið þegar er litið lengra aftur og horft framhjá snoppufríðri markaðssetningu ríkisbanka á Íslandi í dag. Þetta virðist ekkert sjálfsagðara enda gerð nú ríkari eiginfjarkrafa til banka á Íslandi umfram lagaskyldu þeirra, varðstaðan er því skýr. Háu hlutfalli í eiginfjárhlutfalli skal ná og skiptir litlu hvort fjárhagslegar aftökur fari fram eða ekki. Sett verða lög þessu til tryggingar og almenningur látinn gjalda fyrir það sem aðrir gerðu.

Boðin eru lán sem eru yfir markaðsvirði eigna og auglýst sem kostakjör (t.d. 110% leiðin með hávöxtum). Þetta er leið inní gasklefa og ef á því er ekki tekið og heimili hneppt í þrældóm er fjárhagsleg aftaka m.a. í gegnum úrelta nauðungarsölulöggjöf eina úrræðið. Fjölmargir hafa þegar verið leiddir inn í hinn meinta sturtuklefa núverandi skuldaúrræða og telja að þar séu heimilin hólpin til lengri framtíðar. Samið er við sömu aðila um þessi kjör og hafa þegar eytt öllu þeirra eigið fé með kæruleysislegum rekstri banka og sparisjóða á Íslandi á síðustu árum. Nicolae Ceausescu var tekinn af lífi ásamt konu sinni í Rúmeníu árið 1989. Tóku þá við landinu fyrrum aðstoðarmenn hans, embættismenn og ráðgjafar. Landið býr enn við sára fátækt þrátt fyrir að það hafi verið nánast skuldlaust þegar Ceausescu var tekinn af lífi. Almenningur færði kvölurum sínum völdin. Það er ekki einsdæmi í veraldarsögunni og það getur gerst hvar sem er, hvenær sem er.

Fjárhagslegur þrældómur er framundan á Íslandi ef ekki verður brugðist við nú strax. Afurðin er fjárhagsleg aftaka og tilsvarandi eftirtekja, þ.e. húsnæði heimila. Síðan fer húsnæðið í endursölu hjá banka og í frekari vefnað fjármálastofnanna. Í því efni skiptir engu með trúarbrögð, kynþátt eða starfsgrein enda verið að móta sauðsvartan almúga næstu ára og áratuga. Þeir sem sleppa munu leggjast við fætur sigurvegarans og þakka Guði sínum fyrir að fá að lifa af undir verndarvæng hans. Þetta sér maður varla á vesturlöndum nema þá helst á hundasýningum á Íslandi þar sem kjölturakkar og jafnvel hinir fegurstu Schefferhundar leggjast að fótum eigenda sinna enda oftar en ekki þrautþjálfaðir og vel aldir.

Að einhverjum áratugum liðnum verður starfsfólk banka spurt hvers vegna. Segir það síðar sögu sína sem yrði líklega á þá leið að þetta hafi nú allt þótt hið eðlilegasta mál og verið lögum samkvæmt. Dagsskipunin hafi verið fjárhagsleg aftaka og hún var framkvæmd að skipan yfirboðara í samræmi við lög og starfsreglur. Sama má lesa úr sögum fjölmargra þýskra hermanna sem skutu gyðinga við fjöldagrafir. Var þetta fólk dæmt til dauða fyrir það eitt að vera til og trúa á önnur lögmál guðfræðinnar fyrir aðeins 65 árum síðan. Þessum hermönnum þótti þetta sjálfsagt mál á þessum tíma og þurfti heimstyrjöld til að þeir og fjölmargir aðrir áttuðu sig á að þetta hafi allt verið rangt.

Sagan endurtekur sig og ef almenningur brýst ekki fram. Munu allir þessir aðilar, sem telja fjárhagslegar aftökur hina mestu nauðsyn og þjóðþrifaverk, taka bóndann fjárhagslega af lífi, sjómanninn, lögreglumanninn, verkamanninn, smiðinn, múrarann, jafnvel útgerðarmanninn, nágranna þinn, bróður og systur, afa og ömmu. Þeir sem flýja land nú hið fyrsta gætu bjargað lífi sínu fjárhagslega en þá yfirgefur ungt fólk ættingja sína og mæður sjá börn og barnabörn sín hverfa úr landi. Þetta er ekkert öðruvísi en áður var, ekkert hefur breyst þó aftökur séu án vopna. Hér er nú um fjárhagsleg vopn og lagaleg að ræða. Þarna skiptir mestu samtakamáttur aftökusveitanna og samstöðuleysi almennings. Já, þetta er ekkert grín, þetta er ekki gamanleikur eða fagur óður um hve dýrlegt sé að verða fátækur. Fagurgali þingmanna í margvíslegum nefndum, þjóðlegir þættir í ljósvakamiðlum eða kappleikir landsmanna í sjónvarpi þæfa þetta ekki. Íslendingar eru of skynsamir til að láta glepjast. Nefndarstörf af mörgum toga þar sem margvísleg mál eru þróuð og þroskuð geta virkað sem stærstu pappírstætarar samtímans þar sem mál eru þæfð til eilífðar og geta horfið sem daufar ef ekki dauðar ályktanir inn í myrkrið. Það skulum við forðast og láta verkin tala.

Með skipan mála þar sem varðstaða fjármálastofnanna er mynduð í ráðuneyti efnahags og viðskipta, lagalegir varðhundar móta árásir og eftirtekjur í Dómsmálaráðuneytinu og fulltrúar Seðlabanka Íslands vinna við markaðssetningu á réttlæti ásamt viðskiptabönkum landsins í Þjóðminjasafninu mun þetta takast og þetta vita menn. Aftökur fara brátt að hefjast og við skulum vera undir þetta búin. Hannað hefur verið áhugavert flækjustig í eftirlitsnefndum um skuldaaðlögun sem hefur ekkert úrskurðarvald yfir bönkum og er því gjörsamlega tannlaust fyrirbæri og mun aldrei vera annað en vera fyrirsláttunefnd til réttlætingar á gasklefunum rétt eins og rannsóknir á fórnarlömbum helfararinnar voru réttlættar út frá læknisfræðilegu sjónarmiði. Til slíkra nefnda hafa m.a. verið skipaðir prófessorar við Háskóla Íslands til að veita fræðunum vægi í þessari vonlausu tilraun. Þeir munu þurfa síðar að svara fyrir tilvist sinni og gefa skýrslur háaldraðir þess efnis að þeir hafi því miður ekkert getað gert, ekkert mega gera og því hefðu hörmungarnar átt sér stað. Reyndar hefðu þeir, með setu í nefndum og við ráðgjöf, getað fylgst betur með. Í dag lítur tilraunin vel út og er spennandi út frá fagurfræðilegu sjónarmiði sérfræðingsins rétt eins og við læknisfræðilegar tilraunir nazista sem nýttust reyndar í læknisfræði en þar má m.a. nefna rannsóknir á sviði ofkælingar.

Ísland hefur ávallt tekið seint upp aðferðir og reglur frá Evrópu í gegnum aldirnar en nú er komið að heimatilbúinni helför gegn íslenskum heimilum.

Þau heimili sem telja sig sloppin, t.a.m. heimili starfsmanna banka, eru það þó ekki en allir halda í vonina um að verða ekki í úrtakinu þegar að því kemur að verða valinn. Þegar aftökum almennings er lokið eða langt komnar munu bankarnir sameinast og segja upp a.m.k. 50% starfsmanna banka því þeir geta ekki annað. Yfirstjórnin verður að halda sér á lífi og uppfylla eiginfjárhlutfalli Fjármálaeftirlitsins sem sett hefur verið án víðtækrar og skynsamlegrar áreiðanleikakönnunnar. Hér með er kallað eftir slíkri áreiðanleikakönnun áður en frumvarp um slíkt verður að lögum og reglur byggðar á þeim af hálfu ráðherra efnahags og viðskipta á Íslandi. Því munu þeir fyrst nota fáeina íslendinga til að sinna aftökunum og skipuleggja þær. Síðan munu þessir sömu starfsmenn sjálfir vera sendir í fjárhagslega aftöku í formi uppsagnar þegar þeirra ekki þörf lengur.

Almenningur telur sig nú á leið í sturtuklefa eða í útilegu en þegar inn er komið verður veruleikinn annar. Nú er varað við þessu og það er almenningi í sjálfsvald sett að gera ekki neitt og láta aftökurnar fara fram. Vonin mun þá aðeins snúast um að komast af. Fólk lætur því berja á sér og það horfir yfir til nágrannans og sjá hann tekin úr húsi sínu ásamt fjölskyldu sinni. Verður þá aðeins litið út á milli gluggatjaldanna en ekki farið út og þessu óréttlæti mótmælt? Þetta endurtekur sig en flestir vita að gyðingar brugðust lítið við og því var sorgin meiri og sársaukafyllri.

Eftir síðari heimstyrjöldina flúðu margir ofbeldismannanna og fjölskyldur þeirra m.a. til Suður Afríku og Suður Ameríku. Sumir fundust aftur og voru látnir horfast í augu við gjörðir sínar en aðrir sluppu og þá oft undur vel. Sumri stríðsmannanna voru endurnýttir í hörmungaaðgerðum annarsstaðar t.a.m. svo viðhalda mætti aðskilnaðarstefnu í suðurhluta Afríku og í stríðsrekstri í suðaustur Asíu.

Í dag hafa höfundar hrunsins á Íslandi flúið til London, Kanada og Lúxemborg sem líkja má við flótta nazista til Brasilíu, Chile og Bólivíu. Hins vegar hafa herflokkarnir ekki verið reknir úr landi heldur endurnýttir við svokallaða endurreisn Íslands bæði sem aðstoðarmenn Ríkisstjórnar Íslands, ráðgjafar á sviði greiðsluskjóla fyrir heimili á Íslandi, lögfræðilegir spekingar á sviði bankamála í samningagerð fyrir bónusum bankamanna framtíðar, lögmenn í varnarbaráttu gegn ofbeldi og aðrir þeir herflokkar sem skipuðu sér í fylkingu fyrir hrun með þeim sem nú eignast fyrirtæki landsins í umsvifamiklum afskriftum.

Slíkar afskriftir, þar sem gengur hratt á afskriftarkökuna sem er til skiptanna í veislunni, eru að verða upp urnar. Enda er ljóst að það sem af er tekið rýrnar og ekkert verður eftir fyrir heimilin í landinu enda aldrei gert ráð fyrir því (innsk. vefstjóra: sb. ummæli viðskiptaráðherra nýverið). Varnarstaðan hefur verið mynduð og henni ber að halda þar sem eignamyndun banka og sparisjóða, svo halda megi herdeildum á lífi sem tóku hagkerfið af lífi, verður byggð mest á eignum sem teknar verða af heimilum og smærri fyrirtækjum á Íslandi. Skýrara og greinilegra getur þetta ekki orðið og ljóst er að þar spila fjölmargir í sama liði enda ljóst að þeir sem nú hafa þagnað á Alþingi bíða þess að sjá hvaða leikfélaga skal veðja inn í framtíðina. Þannig má halda sínu pólitíska lífi er byggist á að vinna fyrir einhvern sem getur borgað fyrir það sem beðið er um. Þarna er ekkert nýtt á ferðinni og líklegt að við munum lítið læra ef við sjáum þetta ekki nú og bregðumst við.

Gyðingarnir trúðu því bara ekki að meðferðin á þeim yrði sem hún varð. Við trúum vart upp á okkar eigin samlanda að gera hið sama gegn okkur aðeins til bjargar eigin skinni. Er ekki samhugur meðal Íslendinga rétt eins og á milli góðra sveitabæja á árum áður þar sem fólk hjálpaðist að? Er sá tími liðinn og hver sjálfum sér næstur?

Guð hjálpar þeim sem hjálpar sér sjálfir segir í ritningunni en það er óvíst hvort Guð blessi Ísland ef meðferð á almennum borgurum verður sem horfir. Aftökusveitin er reiðubúin í formi fjölmargra lögmanna og embættismanna sem brýnt hafa hnífa og búast við að fá þrotabú til meðferðar í stórum stíl. Allt verður það samkvæmt lögum og reglum – „ordnung“!

Við höfum greitt milljarða síðustu ár í hruninu fyrir það eitt að undirbúa aðferðarfræðina. Nú hefst síðari hálfleikur og beðið er áttekta en almenningur mun greiða fyrir þetta allt í gegnum skatta. Við greiðum því kostnað við eigin fjárhagslegu aftökur. Þetta er virðist alger snilld og vel undirbúin aðgerð aðila á Íslandi sem hafa fengið niðurfelld sín eigin lán sem starfsmenn banka. Væntanlega fá þeir svo bónusgreiðslur og framgang ef tekst að halda eignum banka í verði, ef aftökur ganga vel og er þrældómurinn verður alger.

Íslendingar! Stöndum vörð um heimilin, nágranna okkar, bræður, systur og börn okkar til lengri framtíðar. Látum þetta ekki gerast en við erum að brenna inní tíma.

Heimilum á Íslandi verður lítil samúð sýnd. Svo virðist sem enn sé um yfirklór Ríkisstjórnar Íslands að ræða hvað sem tautar og raular. Þau munu fylgja þeim en ekki heimilum landsins ef þið gerið ekki það sem ykkur ber. Sjáið bara til. Eða, viljið þið sjá til?

Sýnum samstöðu og látum ekki fara illa með okkur og börn okkar. Ef við bregðumst ekki við nú þá verður þetta allt réttlætt og lagfært með eftiráskýringum og afsökunum í samfellu við það yfirklór sem sjá mátti eftir hið fræga Breiðavíkurmál. Lífeyrir okkar allra er í húfi, bæði unga sem aldna.

Því og þess vegna er það nú en ekki eftir 50 ár.

Þrællunduð þjóð erum við ekki og skulum ekki verða.

Höfundur: Eittþúsund fiðrildiLast modified onThursday, 28 February 2013 22:03
back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna