Menu
RSS

Nú er nóg komið Featured

Hugleiðingar vegna nýlegra laga um aðgerðir (aðgerðaleysi) ríkisstjórnarinnar og blekkinga bankanna vegna skuldamála heimilanna, með útskýringum á mismuninum á hækkun íslenskra og erlendra lána og tillaga að lausn.

Hér verður fjallað um tvær 5 manna fjölskyldur.  Við skulum nefna þær fjölskyldu A og B.

Þær keyptu sér báðar hús sem hentar þeirra fjölskyldustærð þann 1. sept. 2007 og svo skemmtilega vill til að þau eru í sitt hvorum endanum á sama parhúsinu á barnvænum stað á höfuðborgarsvæðinu.

Verðið á hvoru húsi 2007 var 40.000.000 kr og lögðu þau fram 20.000.000 kr í útborgun og  tóku þau lán fyrir því sem upp á vantaði þ.e. 20.000.000 kr  til 40 ára en þó hvor aðili á sinn hátt.

Fjölskylda A borgaði 20 m. ísk í útborgun og tók 20 m. ísk að láni hjá Íbúðalánasjóði með 4,15 % vöxtum.

Fjölskylda B borgaði 20 m. ísk í útborgun og tók 20 m. ísk í erlendu láni hjá frjálsum banka, 50 % jen og 50 % franka með 3,5 % vöxtum og vaxtaálagi. 

Tafla 1 - Eigna og skuldastaða fjölskyldnanna hinn 1. september 2007 við kaup á eigninni. Fjölskylda A Fjölskylda B

Íslenskt lán Erlent lán
Verðmæti hússins við kaup hinn 1.9.2007 40 000 000 40 000 000
Eigið fé lagt til kaupanna 20 000 000 20 000 000
Lán tekið til kaupanna hjá lánastofnunum -20 000 000 -20 000 000
Eign fjölskyldnanna í hvoru húsanna fyrir sig 20 000 000 20 000 000
Afborgun af hvoru láni fyrir sig, c.a. 87 000 97 000

 

Tafla 2 - Eigna og skuldastaða fjölskyldnanna hinn 1. september 2009 tveimur árum síðar. Fjölskylda A Fjölskylda B

Íslenskt lán Erlent lán
Verðmæti hússins 1.9.2009, m.v. 12 % lækkun frá 1.9.2007, samkv FMR. 35 200 000 35 200 000
Eigið fé lagt til kaupanna 20 000 000 20 000 000
Skuld við lánastofnanir, m.v. vísitöluhækkun og gengishrun -25.300 000 -47 600 000
Eign/skuld fjölskyldnanna í hvoru húsanna fyrir sig 9 900 000 -12 400 000
Afborgun af hvoru láni fyrir sig hinn 1.9.2009 c.a. 124 000 217 000
Afborgun af hvoru láni fyrir sig m.v. leið ríkisstjórnarinnar og skuld óbreytt 103 000 160 000

Leið ríkisstjórnarinnar:
Ný lög ríkisstjórnarinnar ganga út frá því að lækka greiðslubyrðina en að skuldirnar verði óbreyttar eins og sjá má í töflu 2 hér að ofan, þ.e. að lánin lækki ekkert. Lögin gera ráð fyrir að greiðslubyrði íslenskra lána lækki um 17 % að meðaltali á lánum sem hafa “ bara “ hækkað um c.a. 27 % á samanburðartímabilinu sem þýðir að greiðslubyrði hækkunar íslensku lánanna lækkar um c.a. 65 % þannig að fyrir þann sem er með íslenskt lán er þetta úrræði ekki alslæmt greiðslulega séð ef maður er hlynntur því að skulda samt sem áður óbreytta skuld sem ég held að flestir séu ekki sáttir við.

Aftur á móti gera lögin ráð fyrir 20 til 35 % lækkun greiðslubyrði erlendu lánanna, segjum að meðaltalið þar sé 27 % á erlendu lánunum sem hafa hækkað gífurlega, allt að 130 % sem þýðir að ríkisstjórnin vill lækka greiðslubyrði hækkunar erlendu lánanna um c.a. 20 %. En takið eftir, halda láninu áfram á eigninni með 130 % hækkun sem gerir eignina óseljanlega og fólk óvisst með stöðu sína.

Þetta er ekkert annað en eignaupptaka og fátækragildra fyrir þá sem í henni eru lentir og sé ég ekki betur en miklu betra sé að fara bara strax á hausinn og láta lýsa sig gjaldþrota heldur en að sitja í yfirveðsettri eign. Með því að fara strax í þrot er þó alltaf möguleiki á að byrja upp á nýtt eftir einhvern tíma eða þá að flytja úr landi. Það er þó ekki það sem fólk vill, sundra fjölskyldum og  vera sett á svartan lista og því þarf að gera allt til að gera fólki kleift að standa upprétt. Hvers á sá að gjalda sem var ráðlagt af bankanum sínum að taka erlent lán.

Þessi lög sem voru bara tillögur um daginn þegar Magnús Orri Scram alþingismaður Samfylkingarinnar mærði þær svo fjálglega í Kastljósinu á meðan Björn Þorri Viktorsson starði í forundrun á hann hvernig hann gæti leyft sér að segja að fasteignamarkaðurinn færi af stað þegar búið væri að samþykkja tillögurnar. Fasteignamarkaðurinn fer ekkert af stað við það að greiðslubyrðin lækki örlítið, lánin standa eftir sem áður jafnhá og ég er ekki að sjá það að bankarnir leyfi kaup á eign, t.d. á 35 milljónir með hátt í 50 milljóna króna erlendu láni áhvílandi. Bankarnir leyfa varla og helst ekki, yfirtöku á lánum sem eru jafnhá kaupverði í dag, vilja að öllu jöfnu fá greiðslur inn á þau lán, yfirleitt 10 til 20 %.

Þar fyrir utan sé ég ekki á hvern hátt einhver ætti að láta sér detta í hug að kaupa áðurtalda eign á þessum kjörum, ég mundi alla vega vilja fá geðheilsuvottorð frá viðkomandi ef ég fengi svona tilboð í mína eign, nóg á ég erfitt með mína geðheilsu og tók ég þó lánið sjálfur og hef haft nægan tíma til að sjá það vaxa og ekkert komist frá því þó ég feginn vildi.
Leið bankanna, t.d. Íslandsbanka en þeir eru flestir með svipaðar útfærslur.

Hér fyrir neðan í töflu 3 er búið að breyta lánunum eftir hugmyndum Íslandsbanka. Þessar hugmyndir ganga út á lækkun frá töflu 2 hér að ofan þannig að höfuðstóll íslenskra lána lækki um 10% og erlendra lána um 25% og færa á sama tíma erlendu lánin yfir í íslensk lán og með því að festa hækkun erlenda lánsins um hátt í 100 % frá því að það var tekið  vegna þess að hækkun þeirra var um 130 %.

Tafla 3 - Eigna og skuldastaða fjölskyldnanna 1.12.2009 miðað við framkvæmd hugmynda Íslandsbanka um lækkun höfuðstóls. Fjölskylda A Fjölskylda B

Íslenskt lán Íslenskt lán
Verðmæti hússins m.v. að verð hafi ekki lækkað frá 1.9.2009. 35 200 000 35 200 000
Eigið fé lagt til kaupanna 20 000 000 20 000 000
Skuld c.a. m.v. leiðréttingu frá 1.9.09, 10 % íslenskt lán, 25 % erlent lán. -22 770 000 -35 400 000
Eign í húsinu m.v. tillögur bankanna 12 430 000 -200 000
Afborgun af hvoru láni fyrir sig, samkvæmt reiknivél Íslandsbanka 151 000 232 000

Ef skuldarar samþykkja leið bankanna varðandi lækkun höfuðstóls lána er mikil hætta á að þeir hafi afsalað sér lagalegum rétti til að fá lánið endurmetið á réttlátan hátt þegar til þess kemur, sem hlýtur að verða. Það er augljóst að þessi leið er alls ekki hagstæð fyrir skuldarana, það má aftur á móti segja að sennilega græðir bankinn á þessu því vextirnir hækka það mikið að þeir vega upp á móti höfuðstólslækkuninni sem þýðir það á mannamáli að það á taka skuldara í bakaríið enn eina ferðina.

Mér finnst ekki sanngjarnt að aðgerðir ríkisstjórnarinnar og bankanna gangi út á það að þeir sem tóku erlend lán standi eftir með yfir 100 til 130 % meiri skuldir en þeir sem tóku sama lán í íslenskum krónum á sama tíma, báðir aðilar sáu bara og fengu útborgaðar íslenskar krónur. Þar fyrir utan má benda á það sem enginn hefur minnst á hingað til, að þeir sem tóku íslensk lán í upphafi og telja að ekki þurfi að leiðrétta hjá þeim, því þeir hafi verið svo pössunarsamir. Þessir aðilar þurfa að gera sér grein fyrir að bankinn sem lánaði þeim “íslenska” lánið t.d. 20 milljónir eins og í dæminu hér fyrir ofan, fékk þá peninga að láni erlendis í flestum tilfellum og skuldin á bak við þá lántöku hlýtur því að vera um 47 milljónir. Þannig að það er búið að “afskrifa” 27 milljónir á þá sem eru með “íslensk” lán. Það er ekki nema von að það eigi að ganga svona hart á eftir þeim sem eru með “erlend” lán því einhvers staðar verður að ná inn mismuninum.

Átta stjórnmálamenn sig ekki á alvarleika þessa máls fyrir fólk sem sér ekkert framundan nema gjaldþrot og að þurfa jafnvel að flytja úr landi í framhaldinu og slíta í sundur fjölskyldur og vinabönd. Kannski er skýringin sú að þeir hafa ekki skoðað þetta nógu vel, því ef þeir hafa skoðað þetta og eru ennþá á því að þessi nýju lög geri eitthvað fyrir skuldara þá get ég fullvissað þá um að svo er ekki eins og sést í ofangreindum dæmum. Þessi nýju lög og aðgerðir bankanna gera ekkert annað en lengja í ólinni og herða hana um leið.

Sanngjarnast er að gera þetta á eftirfarandi hátt og líka ef þetta er hugsað út frá hinni margfrægu jafnræðisreglu sem hlýtur að vega þungt þegar verið er að gera þessi mál upp.

Hér fyrir neðan, í töflu 4 er búið að taka inn í að allar lánastofnanir hafi breytt öllum erlendum húsnæðislánum hjá sér í íslensku frá þeim degi sem þau voru tekin. Eftir það eru lánin reiknuð út eins og um íslensk lán hefði verið að ræða frá upphafi, t.d. íbúðalánasjóðslán með sömu vöxtum og vísitölu og þau lán. Þegar þetta hefur verið gert eru öll húsnæðislán á íslandi orðin íslensk og bæði þeir sem tóku íslensk og erlend lán í upphafi með eins lán og eins settir.

Tafla 4 - Eigna og skuldastaða hinn 1.12.2009 miðað við leiðréttingu erlendra lána í íslensku en án vísitöluleiðréttingar. Fjölskylda A Fjölskylda B

Íslenskt lán Íslenskt lán
Verðmæti hússins, m.v. 12 % lækkun frá 1.9.2007 35 200 000 35 200 000
Eigið fé lagt til kaupanna 20 000 000 20 000 000
Skuld 1.12.09 m.v. að erlenda lánið sé reiknað út eins og íslenskt frá upphafi -25.300 000 -25.300 000
Eign fjölskyldnanna í hvoru húsanna fyrir sig 9 900 000 9 900 000
Afborgun af hvoru láni fyrir sig, c.a. 124 000 124 000

Svo má velta fyrir sér í framhaldinu í töflu 5 þar sem öll heimilislán eru orðin íslensk hvort það væri ekki réttast eins og margir t.d. Hagsmunasamtök heimilanna, hafa bent á að leiðrétta vísitöluna líka og eru þá flestir að tala um að leiðrétta vísitöluna til 1.1.2008, þ.e. fyrir hrun og þá standa allir jafnir án tillits til þess hvort þeir hafi tekið íslensk eða erlend lán í upphafi.

Tafla 5 – Eigna og skuldastaða hinn 1.12.2009 miðað við ofangreindar hugmyndir, þ.e. að breyta vísitölunni til 1.1.2008 og reikna lánin út frá því. Fjölskylda A Fjölskylda B

Íslenskt lán Íslenskt lán
Verðmæti hússins, m.v. 12 % lækkun frá 1.9.2007 35 200 000 35 200 000
Eigið fé lagt til kaupanna 20 000 000 20 000 000
Skuld m.v. leiðréttingu og vísitölu 1.1.2008 -21 200 000 -21 200 000
Eign eigenda í húsinu m.v. leiðréttingu á vísitölunni aftur til 1.1.2008 14 000 000 14 000 000
Afborgun af hvoru láni fyrir sig, c.a. 104 000 104 000

Með þessari aðgerð má segja að allir þeir sem eru með venjuleg húsnæðislán sitji við sama borð, það verða ekki allir sem tóku erlend lán í upphafi ánægðir með þetta og örugglega ekki allir þeir sem tóku upphaflega íslensk lán en mest virðist andstaðan þó vera hjá þeim sem eru með lítil sem engin lán þó það sé örugglega ekki sama forsendan fyrir þeirri óánægju. Sumir halda að þeir sem eru með erlend lán hafi borgað miklu minni afborgun og aðrir að þessu sé öfugt farið, skoðið greiðslubyrðina í töflunum og þá sjáið þið á hvern hátt þetta er. Það má hugsanlega hafa þetta valkvætt fyrir þá sem vilja af einhverjum ástæðum hafa lánin sín í erlendum gjaldmiðli áfram, t.d. þá sem eru með tekjur í erlendum gjaldmiðlum því þeir eru þeir einu sem átti að benda á að taka erlend lán á sínum tíma.

Lausn þessi gerir ekki mun á þeim sem tóku erlend og innlend lán í upphafi, sá sem hefur t.d. greitt af sínu erlenda láni, miklu meira en sá sem tók innlent lán frá hruni, allt að helmingi meira, mun t.d. ekki að fara fram á að það sé jafnað. Enda finnst mér að það sé aldrei hægt að gera þetta þannig að munurinn sé alveg sléttaður út en aðalatriðið er það að fólk sé eins sett og sé að vinna að sama hlutnum, þ.e. að halda eigninni sinni og hafa þak yfir höfuðið fyrir fjölskylduna.

Óðaverðbólga með tilheyrandi upphleðslu og hækkun höfuðstóls íslenskra lána og hrun íslensku krónunnar og hækkun þeirra mynta sem fólk tók erlendu lánin sín í á sama tíma upp á um 130 % af völdum gömlu bankanna og lélegrar hagstjórnar ríkissins á sama tíma er náttúrulega ekkert annað en hamfarir sem enginn gat gert ráð fyrir, svona svipað og fjölskylda hefði keypt hús og það eyðilagst í jarðskjálfta, snjóflóði eða öðrum nátturuhamförum og þá hefði öllum þótt sjálfsagt að gera allt fyrir fólk sem í því lenti eins og sjálfsagt er.

Bankarnir tóku að mér skilst þau lán sem stóðu á bak við erlendu lánin í 1 til 4 ár en lánuðu þau áfram til húsnæðiskaupa til 40 ára og það segir sig sjálft að það er komið að endurfjármögnun þessara lána inn í bönkunum og það vita það allir sem vilja vita það að íslenskir bankar fá ekki endurfjármögnun til að halda lánunum í erlendum gjaldmiðli áfram. Svo er alveg spurning hvort þessi erlendu lán voru og eru lögleg eins og Guðmundur Andri Skúlason hjá Hagsmunasamtök Lánþega Frjálsa fjárfestingabankans heldur fram, en svar ætti að fást úr því fyrir dómstólum. Bankarnir hafa verið á ábyrgð ríkissins en nú eru kröfuhafar að taka þá yfir sem eru að mér skilst, mikið til vogunarsjóðir og að hluta til þeir sem komu íslensku hagkerfi á hausinn. Út af hverju er það svona mikið launungamál hverjir þessir nýju eigendur eru, hvað er verið að fela.

Það kom fram fyrir stuttu og það frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, af öllum, að það væri gert ráð fyrir 600 milljarða afskriftum á húsnæðislánum íslendinga í þeirra útreikningum og færslu lánanna á milli gömlu og nýju kennitalnanna hjá bönkunum en stjórnvöld eru að reyna að humma það fram að sér, hvers vegna?

Mig minnir að framsóknarflokkurinn hafi sagt að til að leiðrétta öll erlendu lán heimilanna þyrfti “bara” 200 milljarða og miðað við það þá er líka nóg eftir til að laga vísitöluna til 1.1.2008. Ný spá seðlabankans um allt að 30 % lækkun húsnæðisverðs í viðbót er alveg óskiljanleg á þessum tíma með tilliti til geðheilbrigðisástands þjóðarinnar. Þar að auki hefur byggingarkostnaður sennilega hækkað um allt að 60 % og ekki hægt að byggja nálægt þeim verðum sem bankinn segir að verði á eignum sem þýðir að eftir einhver ár kemur önnur hækkunarsprengja sem ég held að enginn vilji sjá. Jafnræði og jafnvægi er það sem okkur vantar í húsnæðismál okkar Íslendinga, ekki bráðabyrgðalausnir sem springa í höndunum á okkur eftir nokkur ár.

Þó má segja að ef bankarnir taka mikið að eignum af fólki og selja þau svo aftur með miklum afföllum eins og þeir eru byrjaðir á þá er ég alveg sammála því að verðlækkunin verður 30 % og jafnvel meiri og þá verða ekki bara þeir sem skulda í vandræðum heldur allar fjölskyldur á landinu því fólksflóttin verður það mikill að það verða of fáir eftir hér á landi til að halda hagkerfinu uppi.

Ef eignir lækka meira en komið er þá þarf að leiðrétta lánin í samræmi við þá lækkun. Aðalatriðið í þessu fyrir fjölskyldurnar í landinu er svo sem ekki endilega húsnæðisverðið, heldur að hlutfallið á milli verðs eignanna þeirra á hverjum tíma sé eitthvað í samræmi við það lán sem tekið var til kaupanna á sínum tíma. Annars finnst fólki að það hafi ekkert að vinna að og þá skapast upplausnar og óvissuástand með öllu sem því fylgir. Þá stendur eftir spurninginn um á hvern hátt er best að koma þeim sem tóku heimilislán af stað aftur í íslenska hagkerfinu. Með því að fara í þessar gegnsæu og sanngjörnu aðgerðir þar sem gerðar eru samhæfðar ráðstafanir sem nýtast öllum og þar sitji allir við sama borð verður sáttin um lausnina meiri og betri sem ég held að við þurfum nauðsynlega á að halda núna og með því munum við vekja greiðsluviljann og vonina hjá fólki og þjappa íslendingum saman því við þurfum svo nauðsynlega á því að halda í dag.

Ég tek ekki þátt í þessari vitleysu lengur og læt ekki bjóða mér og minni sex manna fjölskyldu upp á þetta. Við förum fram á að ofangreind leiðrétting verði gerð strax og stjórnvöld hætti að hugsa bara um bankana, fjármagnseigendur og að halda völdum og fari að einbeita sér að fólkinu og fjölskyldunum í landinu.
Hvar er skjaldborgin, það eru ekki einu sinni komnir súlur eða hælar í tjaldborg.  
p.s. Vil taka fram að ég er ekki hag- eða stærðfræðingur og efalaust má setja eitthvað út á mína útreikninga hér að ofan en þeir eru gerðir eftir bestu samvisku og sína rétta mynd af þeirri erfiðu stöðu sem fjölskylda mín og allt of mikill hluti af íslensku þjóðinni er í. 

Kveðja,

Vilhjálmur Bjarnason. sími 822-8183 This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
Er í skuldaálögum með sex manna fjölskyldu á framfæri. Ekki fjárfestir til aðgreiningar frá alnafna mínum.

 

Last modified onThursday, 28 February 2013 22:03
back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna