Menu
RSS

Hákarlarnir blómstra Featured

Eftir Jóhannes Björn (vald.org)

Fyrst var efnahag tugþúsunda Íslendinga rústað, síðan hefur ástandið haldið áfram að versna með hverjum deginum sem líður—og nú virðast síðustu hálmstráin vera að fjúka út í buskann. Héraðsdómur Reykjavíkur hefur stillt kompásinn og komist að þeirri niðurstöðu að lán í íslenskum krónum, tryggð og umreiknuð í erlendri mynt, séu fullkomlega lögleg. Þetta eru vægast sagt hörmuleg tíðindi og slæmur fyrirboði um það sem koma skal.

Til að byrja með var þessi tegund lána líklega ólögleg alveg frá upphafi og bankarnir lágu svo sannarlega ekki á liði sínu að ýta gengistryggðum lánum að fólki. En við þurfum raunverulega ekki að dvelja við það atriði því gjaldeyrisbrask bankanna í framhaldi málsins var algjörlega siðlaust … svo siðlaust að “lög um samningsgerð, umboð og ógildingu löggerninga” (1936 nr. 7 1.febrúar 36.gr.) ættu að afgreiða málið. Þarna stendur m.a.

    (a) Samningi má víkja til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig …

    (c) Við mat á því hvort samningur skv. 1. mgr. sé ósanngjarn skal líta til atriða og atvika sem nefnd eru í 2. mgr. 36. gr., m.a. skilmála í öðrum samningi sem hann tengist. Þó skal eigi taka tillit til atvika sem síðar komu til, neytanda í óhag.

    Samningur telst ósanngjarn stríði hann gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda í óhag. Ef slíkum skilmála er vikið til hliðar í heild eða að hluta, eða breytt, skal samningurinn að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur án skilmálans.

Gjaldeyristryggð lán bankanna voru bæði ósanngjörn og andstæð góðum viðskiptavenjum vegna þess að bankarnir spiluðu með gengi íslensku krónunnar fram í rauðan dauðann. Það hlýtur að vera ólöglegt og refsivert athæfi að veita gengistryggð lán í krónum einn daginn, en græða síðan stórfé næsta dag með því að taka stöðu gegn krónunni.

Bankarnir græddu því bæði á veðmálinu á móti krónunni og hækkun höfuðstóls gjaldeyristryggðra lána. Ótrúleg bíræfni!

Kommissararnir hjá Héraðsdómi (pólitískar stöðuveitingar í íslenska dómskerfinu hafa lengi verið böl) segja hins vegar að fyrirtækið sem hér um ræðir, SP-Fjármögnun hf., beri ekki ábyrgð á gengissveiflunum. Það er alrangt í ljósi þess að þetta er dótturfyrirtæki Landsbankans. Vefsíða SP-Fjármögnun segir orðrétt:

Í nóvember 2002 keypti Landsbanki Íslands 51% hlut í SP-Fjármögnun og telst það því dótturfyrirtæki Landsbankans.

Sjálftökuliðið sem setti landið á hausinn stundaði aldrei eðlilega bankastarfsemi heldur sérhæfði sig í að tæma alla sjóði sem voru innan seilingar. Spilavítis-taktarnir sem þessir aðilar notuðu til þess að fella krónuna hljóta að flokkast undir refsiverð vinnubrögð og lán sem hækkuðu vegna handstýrðra gengisfellinga eru því platlán. Allt annað er að hengja bakara fyrir smið.

Önnur vinsæl áróðursleið sem reynir að réttlæta okurlánin kennir almenningi um að hafa tekið þessi lán. Þetta eru hreinir útúrsnúningar. Forsprakkar einkabankanna lugu stanslaust um stöðu þeirra og engin greiningadeild spáði hruni krónunnar. Almenningur var ekki í neinni aðstöðu til þess að meta áhættuna. Köllum hlutina réttum nöfnum: Venjulegt fólk stundaði dagleg störf sín samviskusamlega og reyndi að byggja til frambúðar á meðan peningaelítan og pólitískar leikbrúður þeirra stigu trylltan dans á þilfari Titanic.

Sáttmáli samfélagsins er í verulegri hættu. Upp til hópa er fólkið reitt og örvæntingarfullt og það ber þverrandi virðingu fyrir bæði ríkistjórn og Alþingi. Margir hafa haldið í síðasta hálmstráið, vonina um að enn logi tíra réttlætis í sölum dómsvaldsins og glæpaliðið verði látið svara til saka. Nú er hins vegar búiö að snúa rýtingnum í sárinu með því að hvítþvo glæpsamlega hegðun og senda ótalda einstaklinga beint í gjaldþrot.

Það er líka hætt við að Héraðsdómur Reykjavíkur sé búinn að gefa tóninn og framhald sálumessunnar verði frekar drungalegt.

Sjá upphaflega grein á vald.org hér.

Last modified onThursday, 28 February 2013 22:03
back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna