Menu
RSS

Hugleiðingar Kristínar Snæfells Arnþórsdóttur Featured

Góða kvöldið kæru herramenn og konur!
 
Ég dáist að ykkar baráttuhug, dug og öllu því sem til þarf svo það verði hlustað og tekið mark á því sem þið hafið að segja og gera og hugsanlega komið viti fyrir þá sem gætu breytt til betri vegar til handa okkur öllum.
 
Ég hef hlustað á ykkur mjög oft og veit að ykkar tilllögur eru skynsamar og að þið eruð að hugsa um okkur íslensku þjóðina.  Guð verið með ykkur í baráttunni og gefi ykkur styrk til áframhaldandi góðrar vinnu.
 
Ég ætla nú að byrja á því að láta ykkur vita af því að ég mæti galvösk á Austurvöll kl. 15.00 á morgun. Ég vona svo innilega að baráttuhugurinn sé að koma aftur eins og hann byrjaði í búsáhaldabyltingunni.  Sá hugur hefur því miður ekki sést lengi.  Maður heyrir allt of mikið í kring um sig að fólk hefur misst trúnna á því að eitthvað geti breyst, en við megum ekki gefast upp.

Við skulum aðeins ath. hvað það er sem stoppar þær manneskjur í ríkisstjórninni sem enn eru ekki orðnar strengjabrúður síns flokks til að mótmæla valdhöfunum en það er sú hræðsla að Sjálfstæðismenn komist að enn og aftur til valda. Því er mórallin alveg ótrúlega breiskur.
 
“VIÐ SKULUM HAFA EFTIRFARANDI Í HUGA”: Það mun aldrei koma til! Ef ríkisstjórnin springur þá verður séð til þess að upp yrði sett NEYÐARSTJÓRN því við Íslendingar munum aldrei samþykkja það að sá flokkur sem mest ber ábyrgðina á öllu þessu fjármálabraski sem fékk að leika lausum hala eins og alþjóð veit, fær ekki umboð neins til að komast til valda.  Þau D-flokka systkyn sem sitja á Alþingi í dag hvítþegin eins og nýfæddd börn og eru núna með ráð undir hverju rifi á móti sitjandi ríkisstjórn og halda virkilega að við kaupum þeirra yfirlýsingar sem dynja eins og bergmál í helli – og þau halda að við séum núna með sama gullfiskaminnið og áður þegar við fyrirgáfum og gleymdum sukkinu og svínarínu sem fékk að viðgangast í gegnum áratugina.  Ó NEI – EKKI Í DAG!  Nú er nóg komið,  tíminn kominn til að gera allsherjar byltingu. Það er nóg af vönduðum manneskjum til á okkar landi sem mundu gera allsherjar breytingar á vinnubrögðum Alþingis og laga Stjórnarskránna í takt við þá tíma sem við lifum í dag.
 
-         ÞÖGN ER SAMA OG SAMÞYKKI - GLEYMUM ÞVÍ EKKI - Komum út úr skúmaskotunum eins og ég núna, því ég viðurkenni fúslega að ég hef ekki verið virkur þátttakandi í baráttunni, en vona að ég sé komin til að vera og kannski hafa smá áhrif alla vega í kringum mig og mina, þó ekki sé nú meira sagt!
-          
Einnig er ég að sjálfsögðu harður mótmælandi Iceafe krafna, og tel það okkar rétt að   þjóðaratkvæðagreiðsla skeri úr hvort við séum tilbúin að láta næstu framtíðar kynslóðir sitja uppi með greiðslur af þeim hryllingi sem búin var til af örfáum mönnum sem voru í spilavíti með loftbólu peninga!!! Ég þoli ekki setninguna "VIÐ bjuggum til þessi lán og VIÐ verðum að greiða þau" sem ég heyrði síðast á Bylgjunni í morgun. HVAÐA VIÐ?
 
Ég trúði því svo heitt og innilega að hin nýja ríkisstjórn sem tók við í vor mundi gera svo stórkostlega hluti fyrir landið okkar og allt færi nú á hinn besta veg. Guð minn góður - því miður er ég hrædd um að þessi blessaða vinstri stjórn eru ekki að hugsa um neitt annað en að færa okkur nær og nær gamla Kommúnissmanum og virðast ekki hlusta á nein ráð sem hafa komið upp á borðið síðan í vor! Hvernig má það vera. Í morgun var síðast verið að ræða um að auka fiskikvótann tímabundið sem mundi gefa okkur um 16 milljarða beint í kassann. Taka tímabundinn skatt af þeim lífeyri sem Lífeyrissjóðirnir fá til sín í hverjum einasta mánuði. Það hefur ekki skipt neinu máli hvaða önnur ráð koma upp "nei og aftur nei", hækka skatta á okkar píndu þjóð, skera niður á öllum mögulegustu stöðum og síðast en ekki síst! Heilög Jóhanna horfir eingöngu á ESB ESB og aftur ESB sem hún lítur á sem GULL, inn á milli er hún sammála Hæstvirtum Fjármálaráðherra sem ég var farin að hafa tröllatrú á, hann hljómaði svo skynsamur, vitur og vel máli farinn (sem er alveg rétt, nema hvað hann segir í raun og veru alltaf það sama og svörin sem hann gefur eru í raun og veru engin svör). Ég hef beðið þolinmóð fram að þessu en núna er mælirinn gjörsamlega fullur eins og sést hérna,. Ekki bara það, heldur höfum við fengið að vita að ÞEIR VISSU ALLAN TÍMANN, að spilavítið komst ótrúlega langt á svo stuttum tíma, Meira að segja, venjulegur Jón eins og ég, sagði yfir alla mína vinnufélaga “Það er vitlaust gefið” það passar engan veginn að allt í einu eru til MILLJARÐAR Á MILLJARÐA OFAN, til að festa kaup á fyrirtækjum um hálfan heiminn! Hvernig sem þessi bóla springur veit ég ekki, en aldrei í lífinu hefði mér dottið til hugar þvílíkan hrylling sem datt ofan á okkur eins og eiturgas án þess þó að drepa okkur endanlega.
 
Ég barasta verð að fá að setjast niður og hripa þessar línur á blað þó ekki nema til að úthella vonbrigðum mínum, sem hefur snúist í heiftarlega reiði! Í október í fyrra varð maður gjörsamlega lamaður þegar allt skall á og átti ekki eitt aukatekið orð yfir útrásarvíkingunum og ef satt skal segja þá hélt ég að Davíð Oddsson hefði endanlega glatað glórunni. Einkum og sér í lagi þegar við fengum að vita að þessir menn sem ábyrgir voru fyrir okkar land og þjóð höfðu ekki eina einustu hugmynd um hversu miklar fjárhæðir voru í spilavíti útrásarvíkinganna. Létu eins og hverjir aðrir aum.......... vaða yfir okkur hryðjuverkalög án þess svo mikið sem blikka. Hryðjuverkalögum frá einhverjum óvinsælasta Forsætisráðherra Bretlands sem hélt í sinni barnslegu trú að hann fengi milljónir atkvæða út á!  Síður en svo, enda stendur hann blessaður á brauðfótum núna en talar samt niður á okkur Íslendinga með miklum hroka og yfirgangi. Það er ofar mínum skilningi eins og þúsundum annarra "af hverju létum við þetta yfir okkur ganga?" Bara sí svona án þess að bera hönd yfir höfuð okkar, og fara ekki með þáverandi ríkisstjórn til Bretlands og láta þá Háu Herra vita að svona gerist ekki í Vestrænu þjóðfélagi, beita rúml. 320.000 manna hræðum á Íslandi. HRYÐJUVERKALÖGUM -  landi sem engan her hefur né neitt af því taginu sem Austurlandaþjóðirnar eru með. Jæja það er auðvitað meira en ári of seint að tala um þetta nema bara til að fá einhverja útrás.
 
Annars ætlaði ég bara að leyfa ykkur að fylgjast með því hvernig allt fór í sambandi við "Viðvörunina" margumtöluðu á gengislánunum!
Öll Þessi orð runnu bara út úr mínum hugsunum og puttarnir þutu áfram en einhverra hluta vegna varð ég að koma þessu á blað.  
 
Varðandi gengislánið er ég búin að fara í heilan hring og aftur til baka!
Fyrst þegar ég heyrði um greiðsluverkfall þá  ráðlögðu mér svo margir að ég væri betur stödd ef ég greiddi af mínum lánum og ætti ekki að taka þátt í greiðsluverkfallinu! Ég myndi bara standa verra að vígi.
Allt í lagi ég hef verið gunga að þessu leytinu til, viðurkenni það  hér og nú!
Hef einu sinni þurft að ganga í gegnum ömurlegasta gjaldþrot í lífi mínu árið 1994, lærði að lifa í 7 ár einungis með á milli handanna  þá aura sem ég vann mér inn. Allt of langt mál að tala um hér.
 
Allavega þá hef ég staðið í skilum með allar mínar skuldbindingar til dagsins í dag.
Jæja áfram með, gengislánið.  Ég fór með pappírana í Íslandsbanka og hafði samband við ykkur í millitíðinni, en fór síðan að kanna pappírana frá Íslandsbanka betur. 23% niðurfelling var það eina sem ég heyrði þá og hélt að það væri nú svo sannarlega betra en ekkert, þ.e.a.s. þar til kæmi í ljós með dómi að gengislánin hefðu verið ólögleg.  Mér var alveg sama þó það tæki langan tíma á meðan ég er hraust, með vinnu og tekst að merja mig í gegn um afborganirnar því ég á hvort sem er eftir 5 ár af bílaláninu og þolinmæðin verður að vera í fyrirrúmi, á meðan nefndin vinnur sitt verk sem síðan setur í aðra nefnd og þar komust menn ekki að samkomulagi svo það þurfti að setja upp nýja nefnd sem ………………… já nefndir á nefndir ofan!!!!!!
 
Bankinn gaf sér 14 daga til að breyta láninu en gaf mér 2 daga til að skila því inn með vottum og öllu tilheyrandi eins og ég var búin að tala um áður. Ég hélt virkilega að ég væri að gera rétt með því að þiggja 23% niðurfellingu af láninu sem var að upphæð rúml. kr. 780.000, vá þvílíkur afsláttur, en bíðið nú við, Þegar betur var að gáð þá sá ég að upphæðin á íslenska láninu sem ég átti að greiða mánaðarlega, var mjög svipuð og sú sem var á greiðsluseðlinum á gengisláninu. Rúmlega kr. 46.000 á mánuði í nokkra mánuði og eftir það rúml. kr. 51.000 pr.mán. Gengislánið var með rétt um kr. 50.000 pr.mán., svo ég sendi tölvupóst strax á hádegi s.l. mánudag til Fjármögnunardeildar Íslandsbanka þar sem ég afturkallaði skilmálabreytinguna á þessum forsendum um leið og ég hugsaði með mér Úps!  þá fæ ég ekki að vita hvort þeir hafni fyrirvaranum sem ég setti inn, en ég mat það svo úr því að sú skrítna niðurstaða sem kom í ljós, þó svo 23% niðurfellingin væri tekin með í reikninginn á íslenska láninu, þá áleit ég það svo að ég stæði betur kyrr með gengislánið.

Ég  fékk ekkert svar frá Fjármögnunarsviði Íslandsbanka. Það skipti ekki máli hversu oft ég reyndi að hringja til bankans, þá var ekki hægt að ná inn.
Á miðvikudaginn fer ég inn á heimabankan minn og "viti menn" þegjandi og hljóðalaust hafði fyrirvarinn minn greinilega verið tekin gildur því þar stóðu 2 gjalddagar inni með nýja breytta láninu. (1.11. og 1.12.)

Ég varð mjög reið þegar ég sá þetta inni á netbankanum og sendi tölvupóst aftur á Fjármagnsdeildina.  En og aftur á fimmtudeginum - Ekkert svar.
Í morgun komst ég loksins frá vinnunni og  bað um að viðtal við deildarstjóra Fjármjögnunarsviðs. Þar kom í ljós að það var kvennmaður, mjög elskuleg kona sem tjáði mér að það væri bara hreinlega ekki komið að mínum tölvupósti því svo væru margir tölvupóstar og ekki nægur mannskapur til að sinna öllum þeim mörgu málum sem fyrir lægju, en hún sagði jafnframt að með ánægju mundi hún afturkalla breytinguna fyrir mig. Bíddu bara þolinmóð sagði hún.

Sem sagt í dag tekur allavega Íslandsbanki við "Fyrirvaranum". Þó Frjálsi Fjárfestingabankinn hafi neitað sínum kúnnum um fyrirvarann.
Ég vildi endilega segja ykkur frá þessu því þið voruð svo elskulegir að setja mín varúðarorð með fyrirvaranum inn  á síðuna ykkar hér.
HEI, góðan daginn, fór inn á netbankann minn rétt áðan og sá að breytingin var komin inn í bankan.,  Segið svo að Íslandsbanki sé ekki “góður banki”  hmmmmmmmmm.
 
Ég er með húsnæðislán og það hefur auðvitað hækkað upp úr öllu valdi síðan ég keypti 2005 þó er ég með hina "góðu lágu" 4,5% vexti, en eins og hjá öðrum Íslendingum þá hef ég farið mjög illa út úr þeim kaupum, og hef ekki einu sinni eignast hurðarhúninn á íbúðinni.  Ég yrði kærð til lögreglu fyrir þjófnað færi ég í burtu og tæki hurðarhúninn með mér. :):):)  Maður verður að halda í smá húmör ef geðið leyfir það.
Jæja síðustu setningarnar voru þær sem ég ætlaði að skrifa í upphafi, en svo bara........ rann smjörið og lak í stríðum straumum í þetta bréf.
 
Ég er búin að akitera fyrir fundinum á morgun eins og vitlaus manneskja, og láta vita á Facebókinni að Íslendingar geta ekki bæði greitt Iceafe og/eða fengið einhverja réttlætingu hvað þá einhverjar breytingar á öllu vaxta-og verðbótabullinu það er alveg á hreinu.
 
Við erum auðvitað "tæknilega gjaldþrota" það vita flestir - Fyrst og fremst út með Iceafe segi ég og flestir aðrir Íslendingar. "NÚ ER OKKAR TÍMI KOMIN" ekki Jóhönnu!  - hugsum um okkar eigið land og þjóð
Höldum utan um hvert einasta mannslíf sem er meira virði en allt annað.  Of margir eru búnir að fremja sjálfsmorð nú þegar vegna þess að þeir í örvæntingu og brjálæði sáu ekkert út og hafa látið sig hverfa. Skilið eftir sig þvílíka sorg að orð fá ekki um lýst.  Við sem enn höfum pínulítið vit í okkar reiða kolli vitum að það er ekki leiðin.  Bara í kringum mig sjálfa hafa 3 látið sig hverfa á þennan hátt og það er 3 of mikið.
 
Fréttir undanfarið rúmt ár hafa ekki verið til að hjálpa þeim sem eru ekki nægilega sterkir til að hlusta á svindl og svínarí upp á hvern einasta dag, allan daginn út og inn.
 
Þetta pár mitt er bara brotabrot af þeim hugsunum sem ég er búin að halda fyrir mig síðan í fyrra haust.  Einn dag í einu hef ég komist hingað, unnið, étið og sofið. Þyngslin hafa stundum verið svo mikil að mér hefur verið um megn að halda í þá góðu vini sem ég átti, því mér fannst eins og Mickael Jakson sagði í viðtalinu við Ohpru “Mér fannst ég ekkert hafa merkilegt að segja, þegar hún spurði hann af hverju að veitti aldrei viðtöl.
Ég sá í rauninni ekki út og bætti ekki úr skák, að lífið hefur ekki alltaf verið tekið á manni með vettlingatökum og úr mörgu er að vinna upp á hvern einasta dag.  Börnin, barnabörnin og núna barnabarnabarn á leiðinni er það eina sem hefur komist að í hjartanu, en það er líka það sem mest skiptir máli, fjölskyldan.
 
Ég vona einungis að þegar minn tími kemur, þá geti ég komist skammlaust í gröfina, án þess að börnin mín þurfi að borga mig þangað, nú annars verð ég bara að segja mig á sveitina, og komast á leiðarenda.
 
Þetta er frá venjulegum Íslendingi, engum Sr. Jóni.  
 
Þið ráðið alveg hvort þið lesið þetta, en ég ætla að taka samt afrit af þessu svona til að eiga, en ég þori ekki að lesa þetta yfir, því þá hætti ég örugglega við að senda til ykkar.
 
Segi þvi, verið sælir að sinni!
Kristín Snæfells Arnþórsdóttir
 
Ps. Tek það einnig fram að ég er alls ekki að ætlast til að þetta verði birt, en ef eitthvað af mínum orðum er hægt að nota til góðs, þá hafið þið mitt samþykki fyrir því.  Takk fyrir mig.
 
Guð minn góður, þetta eru 3bls. A4.

Last modified onThursday, 28 February 2013 22:03
back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna