Menu
RSS

Svindlað með notkun gjaldmiðla sem eru ekki til Featured

Nokkuð hefur verið rætt um lögmæti gengistryggðra lána, þ.e. hvort heimilt sé að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla sbr. lög nr. 38/2001 um vexti og verðbætur.

Hér á landi er einnig að finna fyrirtæki sem býr til sína eigin gjaldmiðla og stjórnar gengi þeirra. Lánaskuldbindingar í íslenskum krónum eru í þeim tilfellum bundnar við gengi gjaldmiðla sem eru ekki til nema ofan í skúffu viðkomandi fyrirtækis.  Þetta er SP - fjármögnun sem notar gjaldmiðlana SP1, SP2, SP3, SP4 og SP5. Þessa gjaldmiðla hefur fyrirtækið nefnt myntkörfur en þegar betur er skoðað er óhætt að fullyrða að um sé að ræða heimatilbúna gjaldmiðla. SP-fjármögnun skráir kaup - og sölugengi þeirra á heimasíðu sinni og segir m.a.: „Kaup - og sölugengi á "gjaldmiðlunum" SP1, SP2, SP3, SP4 og SP5 er reiknað daglega út frá gengi þeirra mynta sem karfan er samsett úr.”  (ath. gengið ætti  einnig að reiknast út frá vægi myntar í körfu).

Ég hef skoðað ítarlega lánasamning  SP - fjármögnunar sem er að helmingshluta í myntkörfunni SP5 og því samsett úr fjórum erlendum gjaldmiðlum: USD  25%, CHF 20%, EUR 40%,  JPY 15%.

Gengi SP5 ætti samkvæmt þessum hlutföllum að vera 128,74 (lok sept.2009) sbr. töflu nr. 1. Gengið var aftur á móti skráð 198,68 hjá fyrirtækinu sbr. töflu nr. 2.


Tafla 1. Rétt gengi

MyntVægi myntarGengi
myntar
Gengi
SP5

USD

0,25

122,89

30,72

CHF

0,20

121,68

24,34

EUR

0,40

183,7

73,48

JPY

0,15

1,3543

0,20

Samtals

100%

 

128,74


Tafla 2. SP gengi

MyntVægi myntarGengi  myntarGengi SP5

USD

0,341904

122,89

42,02

CHF

0,350939

121,68

42,70

EUR

0,453104

183,7

83,24

JPY

22,68603

1,3543

30,72

Samtals

2383%

 

198,68

SP- fjármögnun var beðin að staðfesta að myntkarfan SP5 samanstæði af ofangreindum gjaldmiðlum og hlutföllum.   Svarið var að vægið hafi upphaflega verið þannig en væri nú: USD 34%, CHF 35%, EUR 45%, JPY 2268% (þetta er ekki prentvilla) og að „fyrirtækið notaðist við vægi gjaldmiðla en ekki prósentuhlutfall, heldur magn/hlutfall gjaldmiðla í einingum myntkörfunnar.”

Vægið sem SP gaf upp í lok september s.l. passar þó  við gengisskráningu SP5 á þeim tíma sbr. töflu 2 og sýnir að fyrirtækið notar vissulega  prósentuhlutfall. Því er ljóst að vægi erlendu gjaldmiðlanna í körfunni SP5 hefur breyst gríðarlega frá því að lánið var tekið. Þetta vægi á ekki að breytast á lánstímanum, aðeins upphæðin í íslenskum krónum við umreiknun. Það vekur sérstaka athygli að japanska jenið sem hækkað hefur hvað mest gagnvart íslensku krónunni skuli vega 2268% (á að vera 15%).

Í stuttu máli virðist hér á ferðinni vera svindl, mjög gróft svindl.  Fyrirtækið segist  veita lán í svonefndum myntkörfum undir því yfirskyni að þar á bak við séu erlendir gjaldmiðlar.  Það sem fyrirtækið gerir aftur á móti er að veita lán í eigin gjaldmiðlum samkvæmt eigin gengisskráningu. Myntkörfur þurfa alls ekki að  hafa sér gengi, það nægir að nota gengi erlendu gjaldmiðlanna sem karfan samanstendur af. Það gengi er skráð hjá Seðlabanka Íslands.

SP- fjármögnun  var beðin um yfirlit á lánastöðu  erlendu gjaldmiðlanna í körfunni, en þess konar yfirlit var fyrirtækið ekki með.  Yfirlitið sem það sendi frá sér sýnir að erlendir gjaldmiðlar voru aldrei hluti af láninu, þeir koma hvergi fram á yfirlitinu, aðeins íslenskar krónur og  SP5.  Þeirra eigið yfirlit staðfestir með öðrum orðum það sem hér hefur verið sagt. Lánið samanstóð ekki af erlendum gjaldmiðlum heldur tilbúningi.

Hér er því ekki um að ræða skuldbindingu í íslenskum krónum  sem bundið er við gengi erlendra gjaldmiðla heldur skuldbindingu í íslenskum krónum bundið við gengi heimatilbúinna gjaldmiðla sem fyrirtækið skráir eins og því sýnist sbr. töflur 1 og 2. Það hlýtur að vera enn alvarlegra brot á lögum en það fyrrnefnda.

Að lokum. Nú skil ég hvers vegna afborganir af láni hafa  hækkað um u.þ.b. 100% þrátt fyrir að vera  að  helmingshluta í íslenskum krónum!  Geri lántakendur  athugasemdir við þessa útreikninga SP, bendir fyrirtækið þeim á að fá sér lögfræðing.  Lántakendur hjá SP þurfa að skoða mál sín vel og þeir eiga ekki að þurfa að fá sér lögfræðing til að verja sig gegn viðskiptaháttum sem þessum.  Þessu fyrirtæki sem ríkið yfirtók sl. haust, og ber því ábyrgð á rekstri þess,  ætti að loka.

Þórdís Björk Sigurþórsdóttir
Viðskiptafræðingur
Last modified onThursday, 28 February 2013 22:03
back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna