Logo
Print this page

Þriðjungur í allar afborganir: taka tvö Featured

Gunnar Freyr Valdimarsson sendi inn þessa grein:

Þessi grein var upphaflega opið bréf sem ég sendi í febrúar 2009 þeim aðilum sem taldir eru hér upp: viðskiptaráðherra, Hagsmunasamtök heimilanna, Neytendasamtökin og bankastjórar hinna þriggja nýju banka. Bréfið birtist einnig á vefmiðlinum Eyjunni (lugan.eyjan.is) og á vefsíðu Hagsmunasamtaka heimilanna. Titillinn þar var frekar óþjáll eða 1/3 af ráðstöfunartekjum í öll lán og fastar greiðslur – ekki meir. Hann var þó lýsandi fyrir inntak greinarinnar.

Kjarni greinarinnar er (og var) tillögur sem urðu til vegna bágrar skuldastöðu einstaklinga, heimila og fyrirtækja. Umsjónarmenn Eyjunnar breyttu titlinum í Heimilin greiði ekki meira en þriðjung og var það hið besta mál. Ég held að það sé hljómgrunnur í samfélaginu fyrir því sem ég sting upp á og því set ég tillögur mínar í umferð á nýjan leik. 

Í fyrri grein minni fléttuðust tillögurnar að einhverju leyti inn í umræðu um Icesave. Það dró kannski athyglina frá tillögunum sjálfum og ruglaði einhverja í ríminu. Hér verður umræða um Icesave sett til hliðar og tillögurnar kynntar einar og sér.                      

Tillögurnar eru ótengdar þeirri greiðslujöfnun sem nú á sér stað um allt land við einstaka skuldara. Þær verða að þessu sinni sendar völdum alþingismönnum, ráðherrum og hagfræðingum sem virðast hafa meiri tillögurétt en aðrir um framtíð þjóðfélagsins en einnig þeim sem berjast utan valdstjórnarinnar fyrir betra samfélagi. Engum er akkur í því að setja íslensk heimili á hausinn. Best er að allir geti staðið við skuldbindingar sínar, eigi fyrir nauðsynjum og geti gert sér einhvern dagamun. Ég legg til að einstaklingar megi ekki greiða meira en sem nemur 1/3 af ráðstöfunartekjum (útborguð laun) sínum í lán og aðrar fastar greiðslur. Tökum dæmi af einstaklingi sem er með 180 þúsund í útborguð laun. 1/3 fer  í öll lán heimilisins (húsnæðislán, bílalán, kreditkortalán og fastar greiðslur, t.d. fasteignagjöld).  1/3 er svo tekinn frá í heimilisrekstur (matur, nauðsynjar og annar rekstur eins og bensín á bílinn). Það eru 60 þúsund.  1/3 er þá eftir og getur fólk ráðstafað því til að gera sér dagamun. Það eru einnig 60 þúsund. Engu máli skiptir hversu há eða lág launin eru; ekki má krefja fólk um meira en 1/3 í fastar afborganir.    Tveir fyrstu hlutarnir eru atriði sem má fella undir grunnþarfir. Ég vil að fólk eigi fyrir þessum hlutum og geti staðið í skilum án þess að það þurfi að spenna sig um of. Fólk á að geta staðið í skilum með reisn og því er mikilvægt að heildarlán og fastar afborganir fari ekki upp fyrir ákveðna tölu. Þetta á einnig við þá sem leigja. Leigjendur þurfa að geta sýnt leigusala fram á greiðslugetu sína og báðir aðilar þurfa að passa upp á leigutaki greiði ekki nema 1/3 í allar fastar afborganir. Um þetta þarf að verða eitthvert opinbert samkomulag líka. Jafnræði þarf að vera á milli íbúðareigenda og þeirra sem kjósa að leigja.                                            

Hingað til hefur verið tiltölulega auðvelt að fá lán og einnig tiltölulega auðvelt að sannfæra lánastofnanir um að lántakandi geti staðið í skilum. Sumir hafa verið að greiða allt að 70-80 prósent, jafnvel meira, af ráðstöfunartekjum sínum í ýmis konar lán og gjöld. Til að halda slíkt út segir sig sjálft að viðkomandi einstaklingar eiga ekki fyrir rekstri heimilisins nema með öðrum lántökum og guð blessi kredikorta-fyrirtækin; þau hafa bjargað mörgum en að sama skapi bætist bara við skuldirnar. Einnig hefur verið létt að fá yfirdrátt en þar kemur einnig að skuldadögum.                                 

Nú er mál að linni. Íslendingar verða að geta átt skuldlaust fyrir heimilum sínum, mat og drykk, nauðsynjum og svo einhverju í viðbót til að gera lífið skemmtilegra. Þegar ég segi skuldlaust meina ég að fólk geti staðið í skilum og vel það og að peningarnir komi af debetreikningum. Einhver gæti sagt að ekki sé nauðsynlegt að fólk eigi svo mikið eftir af launum sínum. Ég segi jú. Þessa peninga notar fólk í ýmiss konar neyslu, menningu, vöru eða þjónustu og kemur með auka innspýtingu í hagkerfið. Og það sem betra er, innspýtingin er skuldlaus. Þetta er ábyrgðarfull neysla. Nú eða fólk getur sparað og þar fást peningar sem aðrir geta fengið lánaða, vonandi á mjög lágum vöxtum.                                                  

Ég legg til að gert verði almennt samkomulag í þessum dúr og engin lánastofnun megi skorast undan. Þetta þýðir að einhver ein lánastofnun (þjónustubanki viðkomandi aðila) þarf að sjá til að heildarskuldir einstaklinga (lán og aðrar skuldbindingar) fari ekki yfir ákveðin mörk (húsaleiga er ein þeirra skuldbindinga). Þessi aðgerð er óháð þeirri greiðslujöfnun/greiðsluaðlögun og teygjulánum til æviloka (og lengur) sem bankar eru að bjóða. Þetta þýðir lægri afborgun af tilteknum lánum í hverjum mánuði og þar af leiðandi þarf að semja um eftirstöðvar lána. Í sumum tilfellum þarf hugsanlega að fella niður skuldir þar sem greinilegt er að manneskjan verður alla ævina í skuldafjötrum þrátt fyrir þessar ráðstafanir.             

Tillögurnar taka einnig mið af einstaklingum sem eru skuldlausir en þurfa einhverra hluta vegna að leita á náðir lánastofnana og stofna til fjárhagslegra skuldbindinga. Þeir eiga heldur ekki að fá að skuldsetja sig í heild meira en sem nemur 1/3 af útborguðum launum þótt að fjárhagsstaða þeirra sé góð og/eða launin há.                

Fólk hér á landi hefur of lengi verið upp á náð og miskunn lánastofnana komið, lánastofnana sem hafa að mínu mati misnotað aðstöðu sína og blóðmjólkað almenning. Ef hagkerfi heimilanna hrynur geta þau ekki staðið í skilum, hvað þá átt afgang til að borga erlendar ofurskuldir. Færum afborgunarbyrði niður í ákveðna prósentu af launum, lögbindum þessa gjörð til framtíðar og leyfum fólki að halda 2/3 eftir.                                     

Rétt áður en þessi orð eru skrifuð voru öll laun undirritaðs tekin í afborganir. Því byrja ég mánuðinn í mínus og þarf að fá lánað fyrir næsta mánuði. Og svo endurtekur sagan sig.  Í bankanum gerir enginn athugasemdir við að ég sé svo samviskusamur og ábyrgðarfullur og greiði allar tekjur mínar í lán, haldi engu eftir og þurfi í ofanálag að fá lánað fyrir næsta mánuði og nánustu framtíð. Enginn segir: ,,Heyrðu, þú mátt ekki borga svona mikið, þú þarft að halda svo og svo miklum peningum eftir til að reka heimili þitt.“ Það ætti að vera svo.         

Að sjálfsögðu ber ég ábyrgð á mínum fjármálum og reyni mitt besta að standa ávallt í skilum. En við búum því miður við það kerfi að skuldir eru innheimtar grimmt og engu máli skiptir hversu mikið þú skuldar í heildina. Kerfið sjálft hefur ekkert eftirlit né yfirsýn á hvers konar stöðu fólk er í fyrr en fjárhagur þess er kominn í þrot. Starfsfólk bankanna gerir sitt besta en það hefur engar fastar reglur til að fara eftir. Þessa stundina taka vinnureglur þess fyrst og fremst mið af hinu óvenjulega ástandi sem ríkir og hvernig taka skuli á því. En þær aðgerðir eru of sértækar og munu ekki laga stöðuna til framtíðar.     

Almenn og réttlát viðmið til framtíðar eru það sem við þurfum. Ég óska eftir samræmdum viðmiðum sem verða áfram í gildi þótt ástandið skáni. Ósamræmi er í samningum sem stofnanir gera nú við skuldara. Það býður hættunni heim að skuldurum verði mismunað. Því er nauðsynlegt að finna heildarlausnir til framtíðar.            Einstaklingar eins og ég (og þú) þurfa að sjálfsögðu að sýna meiri ábyrgð í fjármálum sínum en banka- og innheimtukerfið vantar tilfinnanlega innbyggða réttlætiskennd; hvað eðlilegt sé að fólk haldi miklu eftir af tekjum sínum í byrjun hvers mánaðar svo það geti rekið heimili sitt með sæmd og tekið þátt í samfélaginu af reisn.             Ég legg til þjóðarsátt um hversu mikið er hægt að krefjast að fólk borgi hlutfallslega í fastar afborganir í hverjum mánuði. Ekki dugar að búa til flókið kerfi. Kerfi í svipuðum dúr þyrfti að skapa fyrir fyrirtæki. Um leið þarf að lækka alla vexti á lánum og bjóða okkur virðingarverð kjör. Annars förum við þangað sem þau bjóðast án allrar tilfinningasemi.                                         

Í landi þar sem hagstjórn er alltaf léleg, þar sem fólk vinnur miklu meira en evrópskt meðaltal, þar sem eðlilegt þykir að heimilin séu rekin í mínus og þar sem lánakjör standast ekki samanburð við það sem einstaklingar fá í löndunum í kring kemur að ystu þolmörkum. Við erum reyndar þegar komin að þeim. Fólki þykir vænt um landið sitt. En væntumþykjan stoppar þegar áðurnefnd atriði, og fleiri til, hefta möguleika þess til að skapa sér gæfuríka framtíð. Það fer einfaldlega frá þessu mengaða og skammsýna hagkerfi, þangað sem mögulegt er að búa, lifa og dafna án þess að skuldahlekkir hefti sérhvert skref.                                            

Nú þarf hröð og ákveðin handtök og skurðarhníf sanngirni og réttlætis á loft. Markmiðið er ekki blóðbað heldur mjúk lending fyrir íslensk heimili og fyrirtæki. Síðan þurfum við að halda áfram að standa í skilum með lán okkar, fyrst innanlands og svo utanlands. Það gerum við hægt og rólega og við ætlum að eiga fyrir þeim skuldum sem við stofnum til. En við viljum einnig eiga peninga afgangs til að geta tekið þátt í samfélaginu á virðingarverðan hátt.                                              

Viltu vera þræll skulda þinna? Ekki ég.
Gunnar Freyr Valdimarsson, áhugamaður um heilbrigt og sanngjarnt hagkerfi til framtíðar

Last modified onThursday, 28 February 2013 22:03

Latest from Ólafur Garðarsson

Hagsmunasamtök heimilanna / Ármúla 5 / 108 Reykjavík / ICELAND / (+354)-546-1501 / www.heimilin.is / heimilin@heimilin.is