„Nei þú ert á vanskilaskrá“ Featured
- Written by Ólafur Garðarsson
- font size decrease font size increase font size
Jóhann Sigurðarson sendi inn eftirfarandi grein.
Ágætur vinur minn lenti á vanskilaskrá á dögunum. Ég fór að velta fyrir mér, hvaða fyrirbæri er þetta eiginlega. Hver fann þetta upp? Hvaða er vanskilaskrá?
Vanskilaskrá er eitthvert samansaumaðasta kverkatak sem fjármálafyrirtæki þessa lands og annara landa hafa á fólki, sem af einhverri ástæðu hefur ekki bolmagn til að borga. Lendir í vandræðum. Fyrirtækið Lánstraust hefur leyfi samkvæmt lögum, til að safna fjármálaupplýsingum um borgarana og miðla þeim síðan áfram til allra fjármálafyrirtækja í landinu og einnig til þeirra aðila sem vilja kaupa sér aðgang að skrá fyrirtækisins. Þannig hefur fyrirtækið tekjur af því að safna fjármálaupplýsingum og selja aðgang. Alþingi Íslendinga bjó til lög og reglu, til að fyrirtæki af þessari gerð gæti starfað. Samkvæmt mínum skilningi er það argasta samráð að fjármálafyrirtæki landsins geti haft með sér slíkt samráð sem þau gera í dag, í skjóli vanskilaskrárinnar. Það eru á milli 30-40 þús manns á vanskilaskrá um þessar mundir og fer fjölgandi. Fólk sem lendir í vanskilum er útskúfað úr bönkum og fjármálastofnunum og getur ekkert leitað til að fá úrlausn sinna mála. Það þýðir að fyrirvinnur heimila í þessu landi eru settar í þá stöðu að geta með litlu eða engu móti klórað sig út úr sínum erfiðleikum. Þessum ólögum á að breyta. Ef Alþingi gerir það ekki þarf að leita til dómstóla landsins, ef það dugar ekki verður að fara með málið fyrir Mannréttindadómstólinn í Strassborg.
„Allir hafa rétt á því að leita sér lífs“ sagði skáldið.
Fólk lendir á vanskilaskrá af ýmsum ástæðum. Sumir missa atvinnuna og geta ekki borgað, hjá öðrum minnka tekjur, höfuðstóll lána hefur þrefaldast hjá mörgum, fasteignir lækka í verði og seljast ekki og koll af kolli. Margir hafa skrifað uppá fyrir börnin sín, vini og ættingja, nú eða eru í ábyrgð fyrir fyrirtæki sem ekki geta staðið í skilum eins og ástandið er í dag. En það er ekkert tillit tekið til þessara aðstæðna. Bankar, stofnanir, og fyrirtæki beita vanskilaskránni fyrir sig af fullri hörku eins og ekkert hafi breyst í þessu samfélagi á síðasta ári. Nú þegar ríkið hefur eignast allar helstu fjármálastofnanir þessa lands ætti ríkisstjórnin að sjá sóma sinn í því að endurskoða lög og reglur um þetta samráðsbatterí sem vanskilaskráin er. Hvers vegna geta fjármálafyrirtæki haft með sér slíkt samráð? Stenst þetta Stjórnarskrá? Er ekki samráð allsstaðar bannað. Olíufélögin fóru flatt á samráðinu tryggingafélög geta ekki haft samráð sín á milli o.s.fr. Það voru ekki lítil læti þegar gagnagrunnurinn margfrægi átti að verða til. En þegar fjármálafyrirtækin eru annars vegar horfa mál allt öðru vísi við. Hvernig er með bankaleyndina virkar hún ekki í báðar áttir? Nei svo sannarlega ekki. Tugir þúsunda Íslendinga eru nú á Vanskilaskrá og sitja þar af leiðandi á sakamannabekknum og er hann þétt skipaður um þessar mundir. Hótunarbréfum um „Fyrirhugaða skráningu á Vankilaskrá“ rignir yfir landslýð eins og rakettum á gamlárskvöld. Eftir að bankakerfið hrundi getur fólk ekki borgað. Eðlilega. Og borgað hvað? Fyrir hluti sem í langflestum tilvikum var ekki því að kenna. Auðvitað eru til undantekningar. Það er helvíti hart að „Aflandseyjaliðið“ geti svifið seglum þöndum um öll heimsins höf með kreditkort á Tortola eða Kýpur, meðan alþýða manna á Íslandi situr á sakamannabekknum hnípin og getur ekki björg sér veitt. Það er líka helvíti hart að saklaust, heiðarlegt vinnandi fólk skuli vera flokkað á þennan hátt vegna hamfara sem riðu yfir þjóðina. Nú þegar alltaf kemur betur og betur í ljós hvað olli hruninu, verður að taka mál þessarar níðingsskrár til rækilegrar athugunar. Það er ekki hægt að líða það að 30% þjóðarinnar séu meðhöndlaðir eins og sakamenn vegna áfalls sem landið varð fyrir. Í flestum tilfellum er um að ræða fólk sem hefur ekkert til saka unnið, annað en reyna að aðstoða börn sín vini og vandamenn í lífsbaráttunni.
„Vont er þeirra ranglæti verra þeirra réttlæti“ sagði Jón Hreggviðsson
Jóhann Sigurðarson