Menu
RSS

Óbeislað afl lánþega Featured

Vilhjálmur Hallgrímsson skrifar:

Mér sýnist að út frá fjárhagslegum hagsmunum skiptist íslenska þjóðin í tvo meginhluta. Líklegt er að annað hvort teljist þú til hóps fjármagnseigenda eða lánþega. Sameiginlegir hagsmunir beggja hópa þrífast í umhverfi sem kallað er hagkerfi. Hagkerfinu eru settar leikreglur sem bera þess vott að vera að mestu samdar af fjármagnseigendunum.

Fjármagnseigendur og lánþegar geta ekki þrifist án hvors annars, en svo virðist vera að hingað til hafi fjármagnseigendur haft yfirhöndina þegar kemur að því að setja skilyrði lánasamninganna og setja þá nánast einliða. Venjan er að allri óvissu á samningstímabilinu sé varpað á lánþegann og veð til tryggingar lánsins geta náð langt út fyrir það sem eðlilegt getur talist.

Þurfi lánþeginn lánið verður hann að ganga að skilmálunum sem eru einhliða settir af fjármagnseigandanum. Skrifi lánþeginn undir lánasamninginn er hann kominn í vistarbönd lánveitandans og verður eftir það háður duttlungum hagkerfisins án þess að hafa nokkra möguleika til að hafa þar áhrif á.  Upphæð næstu afborgunar verður óþekkt stærð, en næsta víst er að hún verður alltaf hærri en afborgun fyrir mánaðar. Spurningin er hversu mikið hærri? 

Hins vegar hafa fjármagnseigendur og ríksisstjórn veruleg áhrif á þá þætti sem ákvarða hversu mikið lánin hækka. Það þarf ekki annað en að ríkistjórnin hækki álögur á nokkrum vöruflokkum til að vísitala neysluverðs hækki um 0,5% og við það hækka skuldir heimilanna sjálfvirkt um 8 milljarða króna.  Þar sem vitað er að hækkunin leggst einhliða á lánþegann þá er hvati þessara aðila til að viðhalda stöðugleika og jafnvægi minni enda greiði lánþeginn að lokum fyrir allt ójafnvægi.

Svona hefur þetta verið innbrennt í íslenska hagkerfið undanfarna áratugi og hefur öll gagnrýni á kerfið verið þögguð niður jafn harðan af fjármagnseigendum. Fjármagnseigendur og stjórnvöld innleiddu árið 1979 verðtryggingu sem tryggðu eigin hagsmuni.  Lítið ef nokkuð hefur breyst til batnaðar fyrir lánþega frá þeim tíma.

Eftir bankahrunið 2008 birtist ójafnvægið milli fjármagnseigenda og lánþega algerlega grímulaust.  Flestir lánþegar fóru á skyndikúrs í hagfræði 101 í skóla lífsins og horfðu upp á hvernig eigur þeirra brunnu upp á örskotstíma og á sama tíma hvernig fjármagnseigendur og vendarar þeirra skömmtuðu sér bætur inn á bankainnistæður m.a. á kostnað lánþeganna án þess að þeir gætu rönd við reist.

Eftir að gríman féll er það liggur það á kristaltæru hvar völdin liggja og hvernig þeim er beitt. Hagsmunir þessara tveggja hópa eru svo ólíkir að það má segja að það búi tvær þjóðir í landinu, herraþjóðin og almúginn. Herraþjóðin gengur nú grimmilega að lántakendunum, lífskjör þeirra eru skert til langrar frambúðar og ætlast er til að framtíðarkynslóðir þeirra séu settar í ánauð.

Eftir hrun hafa lánþegar lagst á hnén og biðlað til herraþjóðarinnar í auðmýkt um sanngirni og réttlæti, en hafa hvorki mætt skilningi né samúð. Ráðherrar gefa innantóm fyrirheit um skjaldborg heimilanna og ráðherrar þvertaka fyrir nokkar leiðréttingar á skuldum lánþeganna.  Rök sérfræðinga um að fólk muni á næstu misserum ekki geta staðið í skilum eða hætti að greiða af lánum sínum fá ekki haggað þeirri skjaldborg sem ríkisstjórnin hefur reist utan um fjármagnseigendur.
   
Þar til nú!

Nú kveður við annan tón. Lánþegar hafa loks fundið vopnið sem herraþjóðin tekur mark á og óttast mest. Að hún fái ekki peningana sína greidda á réttum tíma eða það sem hræðilegra er, fái þá bara alls ekki. Þeir lánþegar sem verst eru staddir eru nú þegar hættir að greiða af lánum og Hagsmunasamtök heimilanna hafa boðað greiðsluverkfall á næstu dögum. Þetta eru ekki lengur hugsanlegar aðgerðir í ókominni framtíð heldur blákaldur veruleiki.  Veruleiki sem er tilkominn vegna óbilgirni fjármagnseigenda og stjórnvalda og sárrar neyðar lánþega.

Komið hefur fram í fjölmiðlum  undanfarna daga að ef einn lántakandi í einum banka er orðinn mjög stór að þá hafi sá hinn sami fengið ákveðin völd í hendur og getur þar með haft veruleg áhrif á rekstur bankans. Þarna er vísað til ofurlána sem veitt voru fyrirtækjum útrásarvíkinganna.

Öllum að óvörum hafa almennir lánþegar þessi völd núna! Tilviljun ræður því nú að fjöldi lánþega í slæmri stöðu þessa stundina hafa samtímis hætt að greiða af lánum sínum. Þannig hefur fyrir hreina tilviljun og án nokkurs samráðs myndast stór þrýstihópur sem fer stækkandi og fær síaukinn áhrifamátt. Jafnvel þótt að lánþegar hafi aldrei ætlað að beita sér með þessum hætti þá er áhrifa þessa strax farið að gæta. Það hriktir í skjaldborg fjármagnseigenda og þeir virðast skyndilega komnir með frumvæði til að gera eitthvað jákvætt í málefnum lánþega. Þennan óvænta samtakamátt þarf að skipuleggja formlega og virkja til góðs. Samtakamáttinn má nýta til að knýja fram eðlilegt 'valdajafnvægi' á milli fjármagnseigenda og lánþega í framtíðinni þannig að hagsmunir beggja fari saman.

Hagsmunasamtök heimilanna (HH) eru formleg hagsmunasamtök lánþega sem hafa tekið lán til að reka eigið heimili. Ég hvet samtökin til dáða varðandi greiðsluverkfall og vona að allir lánþegar landsins taki virkan þátt í boðuðum aðgerðum. Þar sem HH hafa nú tekið forystu í skipulögðum aðgerðum hvet ég samtökin til að taka málið á enn hærra plan þannig að þau haldi í framtíðinni formlega utan um virk samtök lánþega.

Þótt íslensk heimili eigi ekki mikla peninga þá skulda þau og stjórna þannig í raun rúmlega 2000 milljörðum sem er gríðarleg há upphæð. Þá aðstöðu geta þau og eiga að nýta sér til að hafa raunveruleg áhrif á banka, fjármagnseigendur, ríkisstjórn og hagkerfið í heild sinni. Með virkum samtakamætti geta þau haft mikil áhrif eigin stöðu í framtíðinni.

Næst þegar íslensk ríkisstjórn ákveður að hækka eldsneytisgjald og sykurskatt eða herraþjóðin gerir eitthvað sem hefur bein áhrif á vísitölur sem hefur aftur bein áhrif til hækkunar á lánum lántakenda um milljarða króna, þá þurfa þessir aðilar á sama tíma að hugleiða hvort að aðgerðir þeirra muni vekja upp "samtök lánþega" sem eru ávallt á varðbergi og gætu látið til sín taka.

Málið er að nú er valdið í höndum lánþega sjálfra og vonandi geta þeir myndað með sér nauðsynlega samstöðu til verða virkir gerendur í samningssambandi sínu við lánveitendur í stað þess að vera bara óvirkir þiggjendur.

Last modified onThursday, 28 February 2013 22:03
back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna