Menu
RSS

Með tappa í eyrunum og bundið fyrir augun Featured

Fólk ætti kannski að taka út sparnað sinn úr ríkisbönkunum til þessa að mark sé tekið á kröfum þeirra.

Það er hreint ótrúlegt að horfa upp á þær auglýsingar sem birtast í blöðunum dag eftir dag um það hvað ríkisbankarnir vilja gera til að létta á íbúðarlántakendum  vegna aukinnar greiðslubyrði. Aðgerðir þeirra miðast einungis við að tryggja stöðu þeirra og láta lántakendur viðurkenna þá miklu eignaupptöku sem orðið hefur hjá þeim vegna hækkunar á höfuðstóli íbúðalána.

Hafa ber í huga að bankarnir eru í ríkiseigu og allt sem í boði er þar hlýtur að vera boðið með vitund og vilja ríkistjórnarinnar. Ríkisstjórnin og bankarnir geta ekki sýnt þjóðinni slíka óvirðingu sem sett er fram í auglýsingum bankanna, þau hljóta að vera með tappa í eyrunum og bundið fyrir augun, þar sem þau hlusta ekki og horfast ekki í augu við það ástand sem ríkir hjá hinum almenna borgara á Íslandi.

Á sama tíma og ríkisbankarnir keppast við að afskrifa lán og kúlulán upp á milljarða, þá er ekki hlustað á raunhæfa lausn vegna slæmrar stöðu heimilanna í landinu um að afskrifa óraunhæfa hækkun á höfuðstóli íbúðarlána, eins og margoft hefur komið fram hjá Hagsmunasamtökum Heimilanna. Fólk ætti kannski að taka út sparnað sinn úr ríkisbönkunum til þess að mark sé tekið á kröfum þeirra.

Hinn almenni borgari fer fram á, að gerð verði leiðrétting á höfuðstóli íbúðarlána með niðurfellingu áfallinnar vísitölu frá 1. janúar 2008 og vístala lánanna afnumin í framhaldi af því. Hvað varðar gengistryggðu íbúðarlánin þarf að finna sambærilega lausn á þeim. Það á jafnt yfir alla að ganga. Leiðréttinguna þarf að framkvæma meðan bankarnir eru í ríkiseigu. Það þekkist ekki að íbúðarlán séu vísitölubundin í löndum innan ESB.

Ríkisstjórnin og Alþingi hefur það verkefni að vinna fyrir fólkið í landinu, til þess eru þau kosin, en ekki að vinna að draumaverkefnum einstakra flokka. Hagsmunir almennings hljóta að eiga að hafa forgang. Það sem almenningur í þessu landi þarf að þola af völdum þessarar ríkisstjórnar er, stórkostleg eignaupptaka, stór hækkaðar skattaálögur, elli- og örorkulífeyrisþegar hafa orðið fyrir mikilli skerðingu og geta vart dregið fram lífið. Það var hreint ótrúlegt að hlusta á málflutning félags- málaráðherra í fjölmiðlum þar sem hann vísar á bug niðurfellingu á þeirri hækkun sem orðið hefur á höfuðstóli íbúðalána sem orðið hefur síðan 1. janúar  2008.

Allur þungi  þessarar ríkisstjórnar hefur farið í að knýja fram á Alþingi heimild til umsóknar um aðildarviðræður um inngöngu í ESB  og  ríkisábyrgð vegna Icesave samninganna sem eru mjög umdeildir. Í samfélaginu eru mjög skiptar skoðanir vegna beggja þessara mála.

Icesave málið er tilkomið vegna glæframennsku aðaleigenda Landsbankans, bankastjóra og stjórnar bankans. Þjóðin á ekki að taka ábyrgð á þessari glæframennsku, þeir sem stofnuð til glæpsins eiga að bera ábyrgð á honum.

Evu Joly skrifaði frábæra grein í Morgunblaðið sl. laugardag og á hún þakkir skildar fyrir að koma málstað þjóðarinnar á framfæri í fleiri löndum, þar sem hún sýnir fram á að við erum beitt ofbeldi. Vonandi á hún eftir að halda merkjum okkar á lofti sem lengst. Ef ríkisstjórnin hlustar ekki á ákalla heimilanna í landinu þá verður skálmöld á Íslandi áður en langt um líður.

Last modified onThursday, 28 February 2013 22:03
back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna