Menu
RSS

Samstöðusáttmáli við heimili landsins Featured

Björg Þórðardóttir sendi eftirfarandi grein en hún var birt í styttu formi í Morgunblaðinu 25. júlí 2009.

Svartsýni er það sem hrjáir venjulegt fólk á Íslandi í dag

Ríkisstjórnin og þingheimur allur þarf að að svara strax neyðarkalli íslenskra heimila. Í neyðarkallinu felst sú beiðni að leiðréttur verði strax höfuðstóll íbúðalána, með niðurfellingu áfallinnar vísitölu frá 1. janúar 2008 til dagsins í dag og í kjölfarið að aflétt vístölubindingu íbúðarlána alfarið.

Mikill hluti eigna fólks er venjulega bundin í íbúðarhúsnæði þess og áður en íbúðarkaup eiga sér stað þá hefur væntanlegur kaupandi undirgengist greiðslumat hjá lánastofnunum og fjárfest í húsnæði samkvæmt greiðslugetu á þeim tíma. Nú er svo komið að stórhluti  íbúðareigenda á í miklum erfiðleikum með að standa við þær skuldbindingar sem þeir undirgengust þegar kaupsamningar voru gerðir. Höfuðstóll íbúðalánanna hefur hækkað í mörgum tilfellum um margar milljónir og er því um stóra eignaupptöku að ræða á íbúðahúsnæði af völdum þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað. Á sama tíma hefur markaðsverð eignanna hrunið og er jafnvel langtum lægra en uppreiknaður höfuðstóll lánanna sem á eignunum hvíla. Ef ekkert verður aðgert er verið að binda heimilin í landinu á svo mikinn skuldaklafa að fólk sér ekki til sólar það sem eftir er. Skuldurunum er einum gert að bera þær birgðar sem hljótast af því afbrigðilega ástandi sem skapast hefur. Lánardrottnar hafa hinsvegar bæði belti og axlabönd og láta sem sér komi málið ekki við.

Jóhanna Sigurðardóttir tilkynnti í fjölmiðlum ekki alls fyrir löngu að staða heimilanna væri ekki eins slæm og af væri látið og vitnaði í skýrslu frá Seðlabankanum. Það er alveg ljóst að fólkið sem býr í þessu landi er ekki á sama máli og þeir sem fara með stjórnina. Úrræði ríkisstjórnarinnar vegna þeirra sem eiga í greiðsluerviðleikum  er enganvegin í takt við það sem ætti að viðgangast í vestrænum ríkju.  Fólk veigrar sér við að standa frami fyrir þeim rannsóknarrétti sem settur hefur verið á, þar er lausnin sú að fólk verður áfram í fjötrum skuldanna.

Íslendingar eru stoltir og vinnusöm þjóð sem vill standa við þær skuldbindingar sem þeir hafa tekið á sig  vegna íbúðakaupa sinna, en vilja ekki láta féfletta sig. Nú er svo komið að margir hafa misst vinnuna. Venjulegar þarfir fjölskyldufólks eru látnar  sitja á hakanum eins og m.a.að leita læknis, fara til tannlæknis, sjá fjölskyldumeðlimum fyrir  gleraugum. Svo ég tali nú ekki um að veita börnunum það að taka þátt í tómstundastarfi. Og enn bætast við álögur á  heimilin með hækkun skatta og verðlag hækkar stöðugt.  

Jóhanna Sigurðardóttir sýndi mikinn skörungsskap þegar hún náði að koma á Samstöðusáttmála við samtök atvinnulífs og launafólks. Því miður var ekki tekið á skuldastöðu heimilanna í þessum samningi með raunhæfri lausn. Það sem venjulegt fólk  þarf  á að halda er að gerður verði Samstöðusáttmáli við heimilin í landinu og í honum komi fram lausn í takt við þá kröfu sem Hagsmunasamtök Heimilanna hafa sett fram fyrir hönd heimilanna í landinu. Það er leiðrétting á vísitölubindingu íbúðalána og niðurfelling vísitölubindingar í kjölfarið. Samtökin hafa undanfarið marg ítrekað við stjórnvöld  og aðra þá er málið varðar þá miklu þörf að þessi leiðrétting fari fram án frekari tafar.  

Lesandi góður, þú getur fengið nánari upplýsingar um baráttumál Hagsmunasamtaka Heimilanna á www.heimilin.is og jafnframt skráð þig í samtökin. Með því sýnum við samstöðu og baráttuvilja, að berjast fyrir því að fá leiðrétta þá miklu eignarupptöku sem íbúðareigendur hafa orðið fyrir, með óraunhæfri hækkun höfuðstóls íbúðalána.

Í viðtali í mogrunþætti Rásar-2 fjallaði Svandís Svavarsdóttir fulltrúi VG, um Icasave samninginn, hún er dóttir þess aðila, sem fór fyrir hinni margumræddu samninganefnd vegna Icesave reikninganna  fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og  taldi hún að gerður hefði verið góður samningur  fyrir þjóðina. Einnig sagði hún eitthvað á þá leið að við: “Ættum að hætta að bora okkur í svartsýni, það væri ekki það sem við þyrftum á að halda núna, heldur setja undir okkur hausinn og ganga áfram” . Svartsýni er einmitt það sem hrjáir venjulegt fólk á Íslandi í dag, hvað svo sem stjórnmálamenn láta frá sér fara, það virðist vera komið svo að það  er ekki nokkur skilningur á stöðu mála venjulegs fólks á Íslandi hjá mörgum af þeim sem völdin hafa.

Við skulum vona að Jóhanna Sigurðardóttir taki af skarið og  komi á Samstöðusáttmála við heimilin í landinu og geri það áður en að fleiri heimili brenna upp. Það þýðir ekkert að telja fólki trú um að þetta sé ekki framkvæmanlegt á meðan gengið er til samninga um að múlbinda þjóðina um aldur og ævi með því samkomulagi sem nú liggur fyrir þinginu, vegna Icesave. Það er ótrúlegt að sjá í fjölmiðlum að þeir Björgúlfsfeðgar,  sem komu þjóðinni í þetta stóra skuldafen sem uppgjör Icesave málsins er, skuli leyfa sér að fara fram á að skuldir þeirra séu afskrifaðar. Það er ótrúlega ófyrirleitið og eins og blaut tuska framan í almenning. Ég man ekki betur en að Björgúlfur hafi verið stór hluthafi í Morgunblaðinu og við sölu þess voru afskrifaðir tæplega 3 milljarðar. Það yrði fróðlegt fyrir fólkið í landinu að birtur yrði opinberlega listi með nöfnum og upphæðum þeirra fyrirtækja og einstaklilnga sem hafa fengið afskrifuð lán hjá lánastofnunm ríkisins. Það er kaldhæðið að á sama tíma og Hagsmunasamtök heimilanna vinna að því af einstökum krafti að leita allra leiða til að leiðrétta þann órétt sem heimilin í landinu hafa verið beitt, að verða vitni að þeirri fádæma lítilsvirðingu og blygðunarlausu græðgi sem fram kemur í hugmyndum þeim sem ofan greinir, ef rétt reynist.
 
Ef ekki verður hlustað á neyðaróp frá heimilum landsins, þá þarf fólk að taka til sinna ráða þannig að ríkisstjórn landsins skilji alvarleika málsins. Það verður einungis gert með því að fólk taki sig saman og standi vörð um heimilin í landinu.

Höfundur: Björg Þórðardóttir f.v. markaðs- og sölustjóri.

Last modified onThursday, 28 February 2013 22:03
back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna