Menu
RSS

Hvað verður um þegna þessa lands? Featured

Björg Þórðardóttir sendi þessa grein. Hún var áður birt í Fréttablaðinu 20. júní 2009

Ég hef velt því fyrir mér síðustu daga hvort ég búi virkilega í sama landi og þau Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon. Það eru þau og flokksstystkini þeirra sem eru afrakstur “Búsáhaldabyltingarinnar” og stór hluti þjóðarinnar lagði traust sitt á að þau kæmu hinum almenna borgara til hjálpar. Leiðrétta skuldastöðu heimilanna og  koma bönkum í starfhæft ástand þannig að þeir færu að sinna fjárþörf fyrirtækjanna svo hjólin færu að snúast á nýjan leik.

Ég ætla ekki að fara í það hlutverk að túlka þá stöðu sem  kom upp sl. haust, læt öðrum það eftir því nú keppist fólk við að koma sínum skýringum á hruninu á spjöld sögunnar og hver bókin af annarri kemur út um það. Bloggarar landsins hafa ekki legið á liði sínu og hefur verið fróðlegt að skoða margt af því sem komið hefur fram í bloggheimum.

Væntanlega eru nú  þúsundir Íslendinga agndofa yfir þeirri ákvörðun ríkisstjórnar landsins að hafa haft það sem forgangsverkefni að ganga til samninga við Breta um Icesave reikningana með þeim hætti sem við höfum verið upplýst um í fjölmiðlum.

 Nær hefði verið fyrir ríkisstjórnina að hafa það sem forgangsverkefni að horfast í augu við þá slæmu stöðu sem heimili og fyrirtæki landsins standa frammi fyrir og greiða úr vandamálum þeirra á raunhæfan hátt. Leiðrétta þarf þá miklu hækkun á höfustóli íbúðalána sem átt hefur sér stað með því mikla og óraunhæfa skriði
vísitölunnar. Sú leiðrétting ætti að gilda frá 1. janúar 2008 til dagsins í dag.
Í farmhaldi af því þarf að afnema vísitölubindingu lána hér á landi. Einnig ætti að kanna leiðréttingu lána fyrirtækja með sama hætti.
Hagsmunasamtök heimilanna eru samtök sem þú lesandi góður ættir að skrá þig í. Meðlimir í samatökunum eru á þriðja þúsund og hægt er að skrá sig í samtökin á vefsíðunni www.heimilin.is  Með þátttöku þúsunda Íslendinga í þessum samtökum verður vonandi hægt að koma stjórnamálamönnunum í skilning um að þeir þurfi að vinna fyrir fólkið í landinu. Þeir þurfa að hlusta á þá kröfu samtakanna að gera leiðréttingu á höfuðstól íbúðarlána og afnema vísitölubindingu lána í kjölfarið.  

Snúum bökum saman og mótmælum aðgerðarleysi stjórnvalda. Það þarf að grípa til áhrifameiri aðgerða en að lemja potta og pönnur. Nú er það ykkar lesendur góðir að koma með tillögur um hvað gera skal og koma þeim á framfæri á heimasíðu Hagsmunasamtaka heimilanna www.heimili.is.  Gerum þessi samtök að virku afli.
Því það sem blasir við þjóðinni í okkar góða landi er að heimilin og fyrirtækin eru að brenna upp.

Höfundur: Björg Þórðardóttir

Last modified onThursday, 28 February 2013 22:03
back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna