Menu
RSS

Þórdís Bachmann segir þetta

Kæru vinir.

Ég tók 13.7 milljónir að íbúðarláni fyrir 2 árum – í myntkörfu.

Átti yfir 30% eigið fé, sem var minn lífeyrir.

Gat mjög vel staðið við afborganir og hafði verið vöruð við því að gengið gæti

lækkað um 20%. Gat líka staðið undir þeirri hækkun.

Síðast þegar ég meikaði að reikna út stöðuna, voru þetta um 34 millur og gengið

hefur lækkað síðan, það lækkar daglega, eins og allir vita.

Gengið hefur sem sé lækkað um tæp 160% síðan ég tók lánið!

Og íbúðarverð lækkað! Fyrir utan að fasteignamarkaður er botnfrosinn.

Íbúðin selst vitanlega ekki næstu fimm árin, en í dag myndi hún seljast á 22 milljónir.

Þá skulda ég ekki “nema” 12 milljónir og svo er tapið á eigið fé - sem ég hef bara ekki möguleika á að endurheimta á neinn hátt.

Og eftir að vera íbúðareigandi í Reykjavík í 30 ár, er ég að lenda í eignaupptöku í þriðja sinn.

Ég endurtek: í þriðja sinn.

Var svo að tala við tvo aðila í dag: Ráðgjafa í fjármálaráðuneyti, sem er áreiðanlega indælis manneskja og viðkunnanlegan mann í Landsbanka með titilinn: umboðsmaður viðskiptavina.

Ég er með eitt lán og er ennþá í skilum, en er að koma úr frystingu eftir mánuð.

Miðað við eitt ”úrræðanna” um jafngreiðslu af láninu í eitt ár, plús fasteignagjöld og hússjóð, væri ég að greiða 85% af ráðstöfunartekjum í húsnæði.

Ráðgjafinn í ráðuneytinu sagði að verið væri ”að skoða” vandamál fólks og fyrirtækja með erlend lán og ”vonandi” myndi þeirri skoðun ljúka fyrir haustið. Henni leist illa á tillögu mína um helfrystingu í tvö ár. Ég vissi jú ekkert um hvernig mér gengi eftir tvö ár.

En eftir tvö ár verður ríkisstjórnin kannski búin ”að skoða”.

Umboðsmaður viðskiptavina var sem betur fer ekki með neinar tuggur. Hann sagði bara að ríkið ætti bankana og setti þeim fastar skorður og ekkert væri í boði nema ”úrræðin”.

Hann gaf líka í skyn að verið væri að ýta fólki fram af bjargbrúninni í nokkuð stórum stíl – að það væri verið að afskrifa fólk, ekki skuldir þess.

Fórnarkostnaður, er það víst kallað.

Ég tel þá leið – helfararleiðina – ofboðslega skammsýna. Úr tengslum við raunveruleikann. Ég tel ennfremur að þessi stjórn sitji ekki hérna næstu jól. Þá verða 15 mánuðir frá hruni – núna eru þeir bara átta – og þá verður öllum orðið ljóst að afarkostirnir sem millistéttinni eru settir eru drápsklyfjar. En þegar þriðja stjórn í hruni tekur við, er það bara orðið of seint fyrir tugþúsundir. Sumir munu fara héðan og láta skeika að sköpuðu. Einhverjir munu velja að binda endi á líf sitt. Þeir sem fara, munu lifa við söknuð í hjarta, biturleika og rótleysi. Þeir sem fara yfir móðuna munu skilja eftir bitra og niðurbrotna ástvini. Þeir sem velja að vera hér prúðir og þjakaðir og borga – borga – borga fyrir þjófnað óáreittra glæpamanna í boði stjórnvalda, munu von bráðar verða kalnir á hjarta og búnir að missa bæði sakleysi sitt og alla von. Munu ekki sjá neinn tilgang.

Í átta mánuði hefur mér liðið eins og það hefði verið sparkað í magann á mér. Ég hef upplifað mikinn kvíða – og var þó ekki kvíðinn einstaklingur fyrir. Nú er ég að verða reið. Rosalega reið. Það er ekkert betri tilfinning en kvíðinn og síst hollari – þó fylgir henni aðeins meiri kraftur. Því nú er ég orðin hættulegasta kona í heimi – það er konan sem hefur engu að tapa.

Last modified onThursday, 28 February 2013 22:03
back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna