Menu
RSS

Ég er syndug Featured

Ágústa Sigrún sendi inn eftirfarandi grein.

Ég játa það, ég er ein þeirra sem tók gengistryggt myntkörfu- húsnæðislán í gróðærinu, sem ég vil gefa nafnið varglán. Undanfarið hefur mér umræðan vera farin að snúast um það að Íslendingar í þessari aðstöðu séu upp til hópa óráðsíufólk og geti nú bara sjálfum sér um kennt. Ég tel mig ekki til þess hóps.

Mig langar að vekja fólk til umhugsunar um hverskonar lánastarfsemi hér átti sér stað og benda lesendum á hversu alvarleg staðan er hjá okkur, skítugu börnunum hennar Evu. „The hidden people“

Margt bendir til þess að gengistryggðu lánin hafi verið og séu í raun ólögleg skv. lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtrygginu þ.e. að gengistryggðir lánssamningar sem greiddir eru út í íslenskum krónum séu óheimilir, einkum gagnvart neytendum. Það verður fróðlegt, ja lífsnauðsynlegt fyrir mörg okkar, að sjá hver niðurstaðan verður úr þeim hópmálsóknum sem nú eru í undirbúningi. Það skyldi þá aldrei vera...

Á sama tíma og ég viðurkenni glæp minn, get ég ekki skilið hvers vegna stjórnvöld lemja hausnum við steininn og virðast ætla að horfa framhjá þeirri staðreynd að amk 11% heimila landsins eru með gengistryggð lán á húseignum sínum sem hafa hækkað það mikið að heimilin eru tæknilega gjaldþrota. Eru stjórnvöld að bíða eftir því, svo að ríkisbankarnir geti aukið við eignir sínar og við orðið vitni að stórfelldustu eignaupptöku á sögulegum tímum? Eru húseignir landsmanna virkilega það eina sem á að standa undir enduruppbyggingu bankakerfisins? Úps!

Bankastjórnendur og ýmsir álitsgjafar halda því blákalt fram að fólk sé fífl og hefði nú átt að gæta að sér við lántökurnar. Að þeir hafi varað við áhættunni en samtímis voru einkabankarnir 1 að markaðssetja lán sín sem íbúðalán í samkeppni hver við annan og íbúðalánasjóð. Bankarnir buðu lága vexti, og í mínu tilviki var slegist um að fá mig í viðskipti og bankinn þar sem ég tók lán á endanum lækkaði fyrsta tilboð sitt og undirbauð annan banka í samkeppninni um MIG sem viðskiptavin. Heppin?

Við fengum lán og um leið og blekið hafði þornað á pappírnum beitti bankinn verðbreytingarákvæði og hækkaði vextina og hélt uppteknum hætti samhliða því að gengið hrapaði. Það fóru reyndar að vakna grunsemdir á heimilinu þegar í ljós kom að lánið hækkaði jafnt og þétt, jafnvel þótt að krónan væri bara að standa sig prýðilega, um tíma a.m.k. Í ljós kom að bankinn hafði við hvert tækifæri hækkað vextina einhliða og kom því svo fyrir í samningnum við okkur að þeir þyrftu ekki að tilkynna okkur um það. Og hverjir voru það sem voru að „fikta við“ að halda genginu í hæstu hæðum? Má með þessu segja að bankinn hafi ráðist að mér úr tveimur áttum, með einhliða hækkun vaxta, á sama tíma og hann stuðlaði með öflugum hætti að veikingu krónunnar. Slurp!

Við sem höfum kynnst því að vera með verðtryggt íbúðalán vorum örugglega fljótari að koma auga á þennan nýja valkost. Hver þekkir ekki hækkandi höfuðstóla, lánskjaravístölu og hvernig það fer með húsnæðislánin. Okkur fannst þetta því raunhæfur valkostur. Við reiknuðum og reiknuðum, skoðuðum gengisspár, kortlögðum sveifluna á gengis-kólfinum sem við gætum hugsanlega upplifað ef krónan veiktist um allt að 20%. Og niðurstaðan varð, jú...við ráðum við 25% veikingu og förum létt með 25% styrkingu. Jibbý! Okkur óraði hins vegar ekki fyrir því að kólfurinn sveifðalst heilan hring. Það var hvorki inn í forsenduútreikngum okkar né þeim sem bankinn lét okkur í té.

Hingað til hafa á undanförnum mánuðum komið erlendir hagfræðingar, viðskiptfræðingar, gúrú-ar sem hafa flestir ef ekki allir lýst þeirri skoðun sinni að það þurfi að leiðrétta skuldir heimila og fyrirtækja í landinu og lækka vexti því annars verði hér sviðin jörð, fjöldagjaldþrot og jafnvel annað hrun. Í ágætum löndum þar sem ég þekki til er það lögbundið að húsnæðislán geti ekki eða megi ekki fara yfir ákveðið hlutfall ráðstöfunartekna heimilisins. Ef ég man rétt, eru það um 30%. Í mínu tilviki væru ALLAR ráðstöfunartekjur heimilsins bundnar í húsnæðisláninu og 30% betur. Sem sagt, um hver einustu mánaðarmót vantar mig 30% upp á að eiga fyrir húsnæðisláninu og þá er allt hitt eftir. Gúlp!

Orðið kennitöluflakk hefur ekki haft jákvæða merkingu í hugum flestra. Bankinn minn var hlutafélag sem skipti um kennitölu og er nú ríkisbanki. Svo virðist sem að með þeim gjörningi hafi bankinn getað afskrifað þær skuldir sem hentaði og eins var honum skylt að tryggja innistæður fjármagnseiganda. Mitt lán aftur á móti, fluttist með húð og hári yfir í annan banka á nýrri kennitölu án þess að ég hefði nokkuð um það að segja. Hvaða rétt hafði ríkið til að yfirtak lánið mitt á upphæð sem nam tvöföldu söluandvirði eignarinnar? Hefði ekki þurft að endurskoða og hugsanlega afskrifa hluta lánsins? Er það ekki hreinlega ólöglegt, ég meina? Mér finnst ekki að stjórnvöld, sem eigandi hinna nýju ríksibanka, geti krafið lántakendur gömlu bankanna um 100% efndir lánasamninga þegar haft er í huga að eignir gömlu bankanna voru fluttar yfir hina nýju ríkisbanka með verulegum afföllum (50-90%), þ.e. á 10-50% uppreiknuðum höfuðstól.

Ég vil endursemja við nýja ríksibankann minn um mitt lán. Ég á líka kennitölu sem ég get ekki skipt út fyrir nýja ef illa fer í mínum fjármálum. De facto!

Við höfum gróflega reiknað út að ef við nýtum okkur greiðslujöfnun sem í boði er og borgum þá upphæð á mánuði sem við „ráðum við“ eða þá upphæð sem við greiddum í maí 2008, þá í versta falli greiðum við bara vexti það sem eftir og höfuðstóllinn stendur óhagganlegur eftir okkar dag. Jæks!

Í besta falli tækist okkur í þessu jarðlífi að krafsa smá í höfuðstólinn og gætum látið soninn taka við keflinu eftir okkar dag. Allt er þetta auðvitað háð því hvað krónan gerir næstu áratugina og hvað hugsanlega gerðist ef evran yrði tekin upp, og ef þetta og ef hitt. Er einhver til gefa mér áreiðanlegar forsendur svo ég getið planað framtíðana eða eigum við að segja planað gjaldþrotið? Pppppplease?

Stjórnmálaflokkarnir hafa ólíka afstöðu til lausnar vanda heimilanna. Samfylkingin þráskallast við og segir nóg að gert, fólk verði bara að halda áfram að borga, fá sér tilsjónarmann og herða sultarólina...um hálsinn. Sjálfstæðisflokkurinn þorir ekki, frekar enn fyrri daginn. Framsóknarflokkurinn talar fyrir 20% flatri leiðréttingu, sem er vissulega í áttina, en ég er hrædd um að sú prósentutala dugi skammt í vanda þeirra heimila sem eru með gengistryggð húsnæðislán. Framsókn er þó til í að skoða leiðir sem ganga lengra, og er það vel. Vinstri grænir eru á sömu bylgjulengd og Samfylkining en þó vekur von að nefnd á vegum VG ályktaði á sama tíma og stjórnarmyndarviðræður fóru fram að það þyrfti róttækari aðgerðir til að mæta vanda heimilanna. Kannski að forysta VG leggi eyrun við? Borgarahreyfingin talar fyrir leiðréttingu í samhljómi við tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna og þeirrar leiðar sem talsmaður neytenda hefur komið fram með. Hip, hip!

Fyrir okkur, skítugu börnin hennar Evu sem erum með gengistryggð húsnæðislán, dugir ekki litli fingur til hjálpar. Við þurfum marga fingur og líka tær til að stinga í götin á skektunni sem við siglum nú á. Ég vil bara komast í sömu þjóðarskútuna og flestir landsmenn eru nú staddir í, hún er lek, en með putta í velflestum götum. Ég vil geta lagst á árarnar með hinum sem ekki eru eins syndugir og ég og taka þátt í þeirra sigrum og ósigrum. Ég vona bara að ég geti skipt um bát áður en skektan mín sekkur... glúbb, glúbb!

Ég hvet stjórnmálamenn til að koma nú niður af höfuðstólum sínum og gera okkur borgurum kleift að greiða af skuldum okkar, það er það sem ég vil a.m.k. Það þarf reyndar að gerast ÁÐUR en allt er farið í hundana og heimilin í landinum verða orðin annað og meira en „tæknilega“ gjaldþrota. Málið snýst um fólk og framtíð þess hér á landi á, ekki skuldir þessir. Málið snýst lífið, ekki dauðann.

Sem sagt. Það þarf að leiðrétta gengistryggðu húsnæðislánin vegna forsendubrests og bjóða okkur að að vinda ofan af þeim með því að breyta þeim í hefðbundin vísitölulán. Síðan þarf að endurstilla höfuðstól lánanna miðað við það sem þau stóðu 1. janúar 2008 og endurreikna afborganir.

Is it true? Yes and it‘s not a fairytale.


1 Nú ríkisbankar, flestir hverjir


Last modified onThursday, 28 February 2013 22:03
back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna