Logo
Print this page

Gunnar Freyr Valdimarsson sendi þessa grein

Bréf sent viðkskiptaráðherra, Hagsmunasamtökum heimilanna og Neytendasamtökunum (einnig sent til bankastjóra ríkisbankanna þriggja).

Reykjavík, 25. febrúar, 2009

1/3 af ráðstöfunartekjum í öll lán og fastar greiðslur – ekki meir

Engum er akkur í því að setja íslensk heimili á hausinn. Best er að allir geti staðið við skuldbindingar sínar, eigi fyrir nauðsynjum og geti gert sér einhvern dagamun. Ég legg til að einstaklingar megi ekki greiða meira en sem nemur 1/3 af ráðstöfunartekjum sínum í lán og aðrar fastar greiðslur.

Tökum dæmi af einstaklingi sem er með 180 þúsund í útborguð laun. 1/3 fer  í öll lán heimilisins, húsnæðislán, bílalán og fastar greiðslur, t.d. fasteignagjöld. 1/3 er tekinn frá í heimilisrekstur; matur, nauðsynjar og annar rekstur eins og bensín á bílinn. Það eru 60 þúsund. 1/3 er þá eftir og getur fólk ráðstafað því til að gera sér dagamun.

Það eru einnig 60 þúsund.  Tveir fyrstu hlutarnir eru atriði sem má fella undir grunnþarfir. Ég vil að fólk eigi fyrir þessum hlutum og geti staðið í skilum án þess að það þurfi að spenna sig um of. Fólk á að geta staðið í skilum með reisn og því er mikilvægt að heildarlán og fastar afborganir fari ekki upp fyrir ákveðna tölu. Þetta á einnig við þá sem leigja. Fastsetja þarf það hlutfall af útborguðum launum sem leigusalar geta krafið fólk um. Mér finnst sanngjarnt að miða við sama hlutfall og íbúðaeigendur myndu greiða.  Hingað til hefur verið tiltölulega auðvelt að fá lán og einnig tiltölulega auðvelt að sannfæra lánastofnanir um að lántakandi geti staðið í skilum. Sumir hafa verið að greiða allt að 70-80 prósent af ráðstöfunartekjum sínum í ýmis konar lán og gjöld. Til að halda slíkt út segir sig sjálft að viðkomandi einstaklingar eiga ekki fyrir rekstri heimilisins nema með öðrum lántökum og guð blessi kredikortafyrirtækin; þau hafa bjargað mörgum en að sama skapi bættist bara við skuldirnar. Einnig var létt að fá yfirdrátt en þar kemur einnig að skuldadögum.       

Nú er mál að linni. Íslendingar verða að geta átt skuldlaust fyrir heimilum sínum, mat og drykk, nauðsynjum og svo einhverju í viðbót til að gera lífið skemmtilegra. Þegar ég segi skuldlaust meina ég að fólk geti staðið í skilum og vel það og að peningarnir komi af debetreikningum. Einhver gæti sagt að ekki sé nauðsynlegt að fólk eigi svo mikið eftir af launum sínum. Ég segi jú. Þessa peninga notar fólk í ýmiss konar neyslu, menningu, vöru eða þjónustu og kemur með auka innspýtingu í hagkerfið. Og það sem betra er, innspýtingin er skuldlaus. Þetta er ábyrgðarfull neysla. Nú eða fólk getur sparað og þar fást peningar sem aðrir geta fengið lánaða, vonandi á mjög lágum vöxtum.   Ég legg til að gert verði allsherjar samkomulag í þessum dúr og engin lánastofnun megi skorast undan. Þetta þýðir að einhver ein lánastofnun þarf að sjá til að lán einstaklinga og skuldbindingar þeirra fari ekki yfir ákveðin mörk (húsaleiga er ein þeirra skuldbindinga). En ég geri mér einnig grein fyrir að þetta þýðir afskriftir lána hjá lánastofnunum og þar sem bankarnir eru ríkisstofnanir (í minni eigu) þurfa skattgreiðendur að greiða fyrir þær afskriftir.     

Ég er tilbúinn að greiða marga milljarða í afskriftir fyrir fólkið í landinu þó það sé ekki auðveld ákvörðun. Ég er hins vegar ekki tilbúinn að borga fyrir tap bankanna erlendis. Nú þurfum við að velja – íslensk heimili eða óánægju Breta og nokkurra annarra þjóða. Ég vel íslensk heimili og heilbrigða fjárhagslega framtíð þar sem fólk getur tekið þátt í lífinu skammlaust,eignast íbúðir sínar hægt og rólega (sumir kjósa reyndar að eignast þær ekki).  Fólk hér á landi hefur of lengi verið upp á náð og miskunn lánastofnanna komið. Ef hagkerfi heimilinna hrynur geta þau ekki staðið í skilum, hvað þá átt afgang til að borga erlendar ofurskuldir. Færum lánabyrði niður í ákveðna prósentu af launum, lögbindum þessa gjörð til framtíðar og leyfum fólki að halda 2/3 eftir. Ekki dugar að búa til flókið kerfi. Kerfi í svipuðum dúr þyrfti að skapa fyrir fyrirtæki. Um leið þarf að lækka alla vexti á lánum og bjóða okkur virðingarverð kjör. Við eigum bankana og við ákveðum kjörin.     

Nú þarf hröð og ákveðin handtök og skurðarhnífinn upp. Markmiðið er ekki blóðbað heldur mjúk lending fyrir íslensk heimili og fyrirtæki. Síðan þurfum við að halda áfram að standa í skilum með lán okkar, fyrst innanlands og svo utanlands. En það gerum við hægt og rólega og við ætlum að eiga fyrir skuldunum og einnig eiga peninga afgangs. Viltu vera þræll skulda þinna? Ekki ég.

Gunnar Freyr Valdimarsson, áhugamaður um heilbrigt og sanngjarnt hagkerfi til framtíðar

Last modified onThursday, 28 February 2013 22:03

Latest from Ólafur Garðarsson

Hagsmunasamtök heimilanna / Ármúla 5 / 108 Reykjavík / ICELAND / (+354)-546-1501 / www.heimilin.is / heimilin@heimilin.is