Logo
Print this page

Innistæðutrygging umfram skyldur stjórnvalda

Leiðrétting húsnæðislána - að frádreginni innistæðutryggingu umfram skyldur stjórnvalda.

Enginn virðist efast um að „þeir“ hafi fellt gengi krónunnar. „Þeim“ tókst vel til. Krónan hangir utan á bryggjunni rígbundin með gjaldeyrishöftum. Sömu aðilar og felldu gengi krónunnar hafa að undanförnu fundið leiðir fram hjá gjaldeyrishöftunum með eigin hagnað að leiðarljósi á kostnað heillar þjóðar. Oft finnst manni refsirammi íslenskra hegningarlaga ekki nógu víðtækur og að lögin í landinu séu algjörlega máttlaus gagnvart hvítflibbaglæpum. Fjórflokkarnir hafa talað fallega um að slá skjaldborg um heimilin í landinu til að bjarga þeim frá brennandi logum verðbólgu og sögulegs hraps íslensku krónunnar. Því voru allir kraftar settir í að samþykkja lög um greiðsluaðlögun. Þetta verk tókst ekki betur en svo að áætlanir gera ráð fyrir 100 til 200 heimilum árlega sem eiga möguleika á að nýta sér ákvæði þessara laga.

En þess ber að geta að á landinu öllu eru um 90.000 heimili. Að mati Seðlabanka íslands eru 42% þeirra í mjög slæmri stöðu. Því eru 37.600 ( 37.800 mínus 200, við gerum ráð fyrir að ríkisstjórnin nýti allan ramma laganna) heimili enn í vandræðum eftir að Samfylkingin og Vinstri grænir hafa tjaldað öllu til við björgun heimilanna. Stjórnarflokkarnir hafa með þessu frumvarpi því stefnt að því að aðstoða 0,5% þeirra heimila sem virkilega þurfa á hjálp að halda. Hvort eigum við að hlæja eða gráta?

Lífeyrissjóðirnir

Áherslur lífeyrissjóða hafa undanfarin ár verið falar í aukinni hlutabréfaeign og viðskiptum með skuldabréf stórfyrirtækja. Sumarið 2008 óskuðu lífeyrissjóðirnir eftir auknum heimildum til hlutabréfakaupa. Nú fyrir skemmstu veitti ríkisstjórnin þeim leyfi til að auka hlutdeild sjóða sinna í óskráðum félögum á þann máta að nú geta þeir fjárfest 20% af eigum sínum í slíkum félögum í stað 10% áður. Félög sem eru óskráð þurfa ekki að fara eftir reglum hlutabréfamarkaða um reikningsskil og endurskoðun og því er mun meiri óvissa með raunverulega stöðu þeirra en skráðra félaga. Samfylkingin virðist ekki skilja hver áhættan á bakvið þetta er og fer því algjörlega að ráðum stjórnenda lífeyrissjóðanna sem eru því miður ekki að ráða Jóhönnu og hennar fólki heilt. Stjórnendur sjóðanna ættu að finna leiðir fyrir lífeyrissjóðina til að fjárfesta á öruggan máta þannig að sjóðirnir tæmist ekki reglulega, en í 11 ára sögu séreignarsparnaðar á íslandi hafa í tvö skipti tapast ótrúlegar upphæðir. Í 140 ára sögu Þýskra sjóða eins og Allianz og Þýsku sparisjóðanna VKB hafa aldrei tapast svo mikið sem 1 þýskt mark, 1 evra eða 1 íslensk króna. Viðskiptavinir hafa ávallt fengið tryggða lágmarksávöxtun – ár eftir ár. Þetta allt þrátt fyrir tvær heimsstyrjaldir, kreppur og óðaverðbólgutímabil. Því má leiða að því líkur að við Íslendingar ættum að einbeita okkur að því að breyta lagarammanum sem lífeyrissjóðirnir vinna eftir. Draga stórkostlega úr markaðsáhættu sjóðanna og afnema verðtrygginguna. Stjórnendur lífeyrissjóðanna okkar eru farnir að haga sér eins og spilafíklar sem sækja ávallt í meiri og meiri áhættu til að bjarga tapinu sem sjóðirnir hafa orðið fyrir. Þetta er stórhættuleg þróun.

Við leiðréttingu á vísitölunni eins og Borgarahreyfingin hefur talað fyrir ásamt Hagsmunasamtökum heimilanna, er eignatilfærslan sem svo óréttilega var tekin af heimilium landsins, færð til baka aftur til réttmætra eigenda sinna, heimilanna í landinu.

Réttlát leiðrétting til þeirra sem virkilega þurfa á henni að halda.

Samkvæmt lögum um innistæðutryggingar eru innistæður allt að upphæð 20.000 evrur, tryggðar hjá evrópskum bankastofnunum. Allar innistæður umfram 20.000 evrur ( ca. 3 milljónir króna) fara hinsvegar inn í þrotabú viðkomandi banka verði hann gjaldþrota. Geir H. Haarde, Sjálfstæðisflokki, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Samfylkingunni, tóku ákvörðun um að tryggja allar innistæður umfram 20.000 evrur á kostnað íslensku þjóðarinnar. Þannig var komið í veg fyrir að þessar upphæðir yrðu eftir í þrotabúum bankanna. Þetta virkar þannig að ef Jón Jónsson átti 9 milljónir inni á banka þegar hrunið varð þá hefði hann því miður bara átt ca. 3 milljónir eftir vegna laga um innistæðutryggingar. Því gaf íslenska þjóðin Jóni 6 milljónir. Til hamingju Jón. Nú þarf að leiðrétta lánin og Jón skuldar 30 milljónir í húsnæðislán. Við viljum leiðrétta ca. 20% af því láni eða 6 milljónir króna, eftir stendur skuld að upphæð 24 milljónir. En þar sem íslenska þjóðin var þegar búin að rétta Jóni 6 milljónir í handbæru fé má segja að búið sé að leiðrétta lán Jóns. Hann stendur því eftir með 30 milljóna króna lán og 9 milljónir í handbæru fé. Nettó staða Jóns er því 24 milljónir í skuldir og 3 milljónir í banka ( nema að það fé sem hefði farið í að lækka skuldir Jóns komi til hans sem innistæða í bankanum). Hefði ekkert verið gert hefði hann skuldað 30 milljónir og átt 3 milljónir inni á banka. En með því að taka skref 1 og 2 á hann 6 milljónum meira. Ari bróði Jóns átti ekki krónu inni á banka en skuldar hinsvegar einnig 30 milljónir í íbúðalán. Hann fær 20% leiðréttingu og skuldar því 24 milljónir eftir breytinguna. Hann á þá 6 milljónum meira í eign sinni eftir leiðréttingu lánsins. Þeir bræður hafa fengið jafn mikla leiðréttingu og sitja því við sama borð.

Nauðsynleg skref til heilla íslensku þjóðinni.

Að þessu sögðu er mikilvægt að menn átti sig á því að aukning innistæðutrygginga umfram skyldur stjórnvalda var nauðsynleg aðgerð. En sú aðgerð var aðeins fyrsta skrefið í að tryggja að við gætum haldið áfram að búa á landinu. Næsta skref er að leiðrétta skuldir heimilanna. Skref 3 er að bjóða upp á óverðtryggð húsnæðislán. Því miður eru Samfylkingin og Vinstri grænir ekki líkleg til að taka skref númer 2 og 3 í þessum dansi.

Vésteinn Gauti Hauksson

Höfundur er 35 ára varaformaður Hagsmunasamtaka heimilanna.

Last modified onThursday, 28 February 2013 22:03
Hagsmunasamtök heimilanna / Ármúla 5 / 108 Reykjavík / ICELAND / (+354)-546-1501 / www.heimilin.is / heimilin@heimilin.is