Menu
RSS

Rússíbanareið heimila með gengistryggð íbúðalán Featured

Núverandi ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs var mynduð m.a. til að hrinda í framkvæmd brýnum og mikilvægum aðgerðum, einkum í þágu heimila og atvinnulífs (sjá nánar á www.island.is).  Forsætisráðherra hefur einnig lýst ítrekað yfir að fyrirhugað sé að leysa vanda heimila sem eru með íþyngjandi gengistryggð íbúðalán. Þessi heimili hafa nú þurft að búa við stöðuga óvissu, ef ekki fullkomna angist, í allt að tvö ár frá því krónan tók fyrst að veikjast. Vert er að benda öllum sem fjalla um málið opinberlega á að höfuðstóll erlendra lána hefur hækkað um allt að 150% frá því á miðju ári 2007. Ætla má að slík hækkun á höfuðstóli og afborgunum íbúðalána hafi haft í för með sér hækkandi blóðþrýsting,  áhyggjur og svefnleysi þeirra sem tóku slík lán. Þeir sem það gerðu, gerðu það þó í góðri trú á efnahagsstjórn landsins og í trausti til fjármálastofnana þeirra sem lánin voru tekin hjá og bera enga ábyrgð á stöðu krónunnar í dag. 

Hagsmunasamtök heimilanna skora á núverandi ríkisstjórn að láta verkin tala með því að taka nú þegar á þessum bráðavanda heimilanna með raunhæfri leiðréttingu áður en lánin losna úr frystingu nú með vorinu. Einnig eru stjórnvöld og heimilin í landinu hvött til að láta ekki blekkjast af gyllitilboðum og bráðabirgðalausnum fjármálastofnana.

Greiðslujöfnunarleið bankanna áhættusöm og íþyngjandi fyrir heimilin
Haraldur Líndal Haraldsson hagfræðingur skrifar ágætis grein um vanda gengis- eða verðtryggðra lána í Fréttablaðið þann 28. mars sl.. Þar bendir hann réttilega á að greiðslujöfnunarleið Íslandsbanka dugi ekki ef stjórnvöldum takist ekki að styrkja gengi krónunnar.  Þrátt fyrir þessa ábendingu þá leggur Haraldur til að lánastofnanir bjóði greiðslujöfnunarleið Íslandsbanka. Það verður að teljast athyglisvert í ljósi þess að krónan hefur veikst um 10%  síðast liðnar tvær vikur.  Spyrja má því hvort Haraldi og stjórnvöldum finnist eðlilegt og sanngjarnt að heimilin í landinu séu í áhættuviðskiptum með krónuna á tímum þegar forsendur lánanna eru algjörlega brostnar vegna efnahagshrunsins og óstöðugleika krónunnar.

Heimili sem tóku erlend íbúðalán hafa lifað við stöðuga óvissu vegna veikingar krónunnar nú í allt að tvö ár, en ekki bara frá 6. október. Lán sem tekið var í maí 2007 að upphæð um 16 mkr. (meðalskuldir heimilanna skv. Seðlabankanum)  helmingur í japönskum jenum og hinn helmingurinn í svissneskum franka stendur nú,  eftir um 10% veikingu krónunnar síðustu tvær vikur, í um 35 mkr. Ef viðkomandi lán væri ekki í frystingu væri þessi fjölskylda að borga sem nemur ríflega 100% meira í mánaðarlega afborgun en við upphaflega lántöku, eða úr um 110 þúsund krónum á mánuði í allt að 250 þúsund krónur  (og er þá ekki tekið tillit til þess að margar fjármálastofnanir hækkuðu einnig vexti á erlendum lánum á tímabilinu).  

Úr áhættusömum bráðabirgðalausnum í langtímalausnir
Svo virðist sem fjármálastofnanir séu nú enn og aftur byrjaðar að bjóða heimilunum upp á flóknar fjármálalausnir sem settar eru í fallegan markaðsbúning s.s. eins og greiðslujöfnunarleiðina. Slík lausn er í raun eingöngu bráðabirgða- og skammtímalausn sem leysir ekki vandann en heldur  heimilunum áfram í rússíbanareiðinni með gengi íslensku krónunnar. Vandanum er í raun kastað inn í framtíðina, jafnvel til elliáranna, ef ekki  til barnanna sem verða þeirrar gæfu aðnjótandi að erfa skuldabagga foreldranna sem gistu í  þrælabúðum krónunnar og fjármálastofnana frá lántökudegi árið 2007.

Hagsmunasamtök heimilanna skora hér með á stjórnvöld að koma fram með raunhæfa langtíma lausn fyrir þá sem voru ginntir með markaðstilboðum bankanna til að taka erlend lán, með því að leiðrétta þessi lán áður en þingi er slitið og áður en lánin losna úr frystingu. Leiðréttingin felst í því að boðið verði upp á að breyta lánunum í krónulán frá og með þeim degi sem þau voru tekin. Til samræmis við önnur íbúðalán í landinu mætti setja á þau verðtryggingu líkt og á önnur íbúðalán. Með þessu móti sætu allir íbúðalántakendur í landinu við sama borð og gætu barist saman fyrir leiðréttingu á verðtryggingunni vegna áhrifa af spákaupmennsku og hruni efnahagskerfisins eins og Haraldur Líndal Haraldsson hagfræðingur telur þörf á og Hagsmunasamtök heimilanna eru honum fyllilega sammála um.

29.3.2009
Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna

Last modified onThursday, 28 February 2013 22:03
back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna