Logo
Print this page

Grein frá Benedikt Sigurðarsyni Featured

Í tilefni af grein í Mbl. 19.mars.

Að kenna hagfræðingum. . . Gauta B Eggertssyni og Jóni Steinssyni . . . . er auðvitað ekki á mínu færi. Ég get hins vegar ekki orða bundist eftir vandlegan lestur greinar þeirra félaga. Greinin er um flesta hluti rökstutt innlegg í orðræðu um mögulegar aðgerðir í lánamálum heimilanna – en lendir þó í því fari að snúa út úr með pólitískri skeytasendingu til Framsóknarmanna. Þannig verður greinin umtalsvert lakari sem slík og hagfræðingarnir fara að reyna að “kenna okkur leikmönnum pólitík.”

Tillagan um 20% niðurfærslu verðtryggðra lána heimilanna felur ekki í sér að neina ákvörðun um það hvort setja mætti þak á heildarfjárhæð – eða taka niðurfærslu umfram ákveðna fjárhæð til skattalegrar meðferðar. Þannig felur hún alls ekki í sér að auðmönnum og efnalega vel stæðu fólki verði rétt nokkuð fyrir ekki neitt. Greinarhöfundar láta ranglega að þvi liggja að Framsóknarmenn hyggist gefa ríkustu 9000 fjölskyldunum á Íslandi 22milljarða króna á kostnað ríkissjóðs. Þak á niðurfærslu við 8-10 milljónir kann t.d. að koma til álita – en skilvirkari leið væri að niðurfærsla umfram 8-10 milljónir komi til tekjufærslu hjá þeim einstaklingum sem hafa nettó eignastöðu umfram 30-50 milljónir – og skattleggist með 70-90% skatti. Þannig mundu sameiginlegir sjóðir sækja peninga til fjármálafyritækjanna í þágu almennings – sem mætti þá nota þar sem þörfin reyndist til að styrkja grunn kerfin.

Auk þess eru Framsóknarmenn ekki á neinn hátt eigendur eða frumkvæðisaðilar að þessari aðgerð og rétt að hafa í huga að fyrir nærri 6 vikum komu Hagsmunasamtök heimilanna og samstarfsaðilar fram með “ákall” um aðgerðir í þessa veru. Undirritaður hefur t.d. komið fram í fjölmiðlum í fjölmörg skipti til að tala fyrir sjónarmiðinu – áður en Framsóknarflokkurinn stillti upp sínum tillögum um bráðar aðgerðir i þágu heimila og fyrirtækja. (Þegar Tryggvi Þór Herbertsson bætist í hóp þeirra sem tala fyrir niðurfærslu verðtryggðra lána þá er það líka býsna ómálefnalegt að hengja aðgerðina á pólitíska skotskífu frambjóðandans.)

Sú staða að íbúðalán eru verðtryggð á Íslandi leiðir til tvöföldunar á vandanum sem verðfall fasteignamarkaðarins skapar - sé borið saman við önnur Vestræn ríki. Í gegn um kreppuhrunið hefur vísitölumælingin hlaðið 20% varanlega ofan á höfuðstól krónulánanna og tímabundið miklu stærri fjárhæðum ofan á gengistryggðu lánin. Með því hafa allar eignir sem voru veðsettar 70% eða meira fyllt veðrýmið og margar gott betur; - eru yfirveðsettar. Yfir þetta skauta þeir hagfræðingarnir – án þess að nefna þessu sér-íslensku hlið hins alþjóðlega vanda sprunginnar græðgisbólu.

Sú staðreynd að eignir sem eru veðsettar yfir 80% skipta ekki um eigendur – nema greitt sé inn á höfuðstól lánanna – leiðir til þess að markaðsvirkni er engin. Með því er fólkinu sem sér fram á tekjufall ókleift að selja sig frá of þungri greiðslubyrði – menn eru fastir í og á eignum sem þeir geta ekki staðið undir.

Það sem gerir það að verkum að greiðsluaðlögun/þrotameðferð – með þvingaðri greiðslubyrði til lengri tíma – er ekki nothæf leið er vegna þess að hún skapar engar forsendur fyrir því að markaðsvirkni verði til að nýju. Þvinguð greiðsluaðlögun kann hins vegar þvert á móti að ýkja verðfall fasteignamarkaða með háskalegum hætti – vegna þess að hún tefur beinlínis fyrir markaðsvirkninni – og með því festist fólk ennþá verr og lengur inni í of þungri byrði sinni. Að því er réttilega vikið í greininni að félagslegar og afleiddar efnahagslegar afleiðingar þurfi auðvitað að hafa í huga. Greiðsluvilji þeirra sem þvingaðir eru í þrotameðferð mun fjara út og mikil hætta á að fjöldi manns kjósi að halda sig frá fullvirkri þáttöku í framleiðsluferlinu – verði þannig ófær um að leggja að mörkum til hagvaxtar eftir getu og búi börnum sínum og sjálfum sér engin viðunandi lífsgæði. Þessu mundu síðan fylgja margvílegar neikvæðar félagslegar afleiðingar sem kæmu jafnframt fram með frekari efnahagslegum hliðarverkunum.

Punktur númer 3 í skilyrðunum sem þeir félagarnir setja um að fólk eigi ekki að „neyðast til að selja hús sín“ – er í mínum huga ákveðin rökvilla. Það er mikilvægt að fólk sem gerir sínar áætlanir á grundvelli þáverandi tekjustreymis og kaupir íbúðir með hógværri greiðslubyrði – selji einmitt og geti selt - þegar aðstæður gerbreytast varðandi tekjur. Það er nefnilega sérlega brýnt að menn sitji ekki í eignum sem við breyttar aðstæður eru og munu verða þeim ofviða. Til að slík virkni verði til að nýju er einhver umtalsverð niðurfærsla höfuðstóls alveg nauðsynleg.

Punktur númer 4 hjá þeim félögum að aðgerðir sem gripið er til eigi að „leysa vandann“ – og að 20% niðurfærsla höfuðstóls uppfylli ekki þetta skilyrði. Það er auðvitað ákveðinn útúrsnúningur; því enginn af formælendum þessarrar leiðar hefur haldið því fram að svona hógvær niðurfærsla leysi vanda allra og ein og sér. Hún hins vegar kemur til móts við 20-30þúsund fjölskyldur þannig að þeirra vanda þarf ekki að glíma við með neinum sértækum aðgerðum – amk. ekki ef verðtryggingin verður lögð af eða verðbólgan kveðin niður með samstilltu átaki.

Um leið gerir 20% niðurfærslan það að verkum að sá hópur sem þarfnast einhverrar tegundar af þrotameðferð fyllir á þessu stigi vonandi ekki nema í mesta lagi 10 þúsund fjölskyldur. Mikilvægast fyrir þann hóp íbúðareigenda er að þeir geti lokað sínu þroti og sitji helst ekki uppi með þvingaðar greiðslur öllu lengur en í 2-3 ár. Sérstaklega er mikilvægt að barnafjölskyldurnar fái skjóta meðferð í gegn um þennan hluta kerfisins og félagslegar afleiðingar af kreppuhruninu verði þannig lágmarkaðar. Þetta er kannski ekki eingöngu efnahagsmál – eða hagfræði – en skiptir máli þegar póltíkin metur hvað er fært að gera í núverandi aðstæðum.

Almenn lagasetning um greiðsluaðlögun mætti gjarna fela í sér ákvæði um að ekki væri heimilt fyrir lánastofnanir að krefjast hærra hlutfalls til afborgana af ráðstöfunarfé barnafjölskyldna en etv. 40% og væri þá eignatengt til hækkunar eins og þeir félagar leggja til.

Einfaldleiki niðurfærslu allra verðtryggðra lána um 20% og það hversu ódýr sú aðgerð er gerir það að verkum að hún er fær og fljótvirk. Skattkerfið getur tekist á við eignamörkin með afar skilvirkum hætti - og ódýrum og mætt með því tilteknum réttlætissjónarmiðum.

Niðurfærslan kostar engar nýjar staðgreiddar krónur – úr ríkissjóði þar sem hún flytur bráðasta vandann frá persónulegu fjárhag fjölskyldnanna og staðsetur hann hjá fjármálahagkerfinu – en það var einmitt fjármálakerfið sem skapaði raunverulega vandann. Um leið sjáum við endurnýjaða markaðsvirkni; þannig að þeir sem ekki skulda eða skulda mjög lítið fá sínum hagsmunum borgið með því að komið er í veg fyrir óþarft markaðsverðfall eigna – um etv. 15-20%. Neytendahagkerfinu verður aftur komið á snúning – dregið er úr félagslegum og þar með efnahagslegum skaða allra – og sérstaklega er rétt að undirstrika að framleiðsluhagkerfið fær örlítið eldsneyti sem ekki veitir nú af.

Niðurstaðan er að allir hagnast bæði beint og óbeint – og tap allra verður lágmarkað.

Valkosturinn að grípa ekki til niðurfærslu verðtryggðra lána er einfaldlega ekki fyrir hendi: - þar sem áhættan af greiðslufalli og allsherjar hruni hagkerfis neytenda er stærri en svo við getum tekið hana. Um það snúast stjórnmál dagsins – og um leið og þau nýta sér góða greiningu hagfræðinganna – þá verða stjórnmálamenn að bera ábyrgð á ákvörðunum - sem verður að taka á meðan Alþingi situr. Eftir kosningar 25. Apríl mun 20% niðurfærsla verðtryggðra lána ekki duga - - og í haust er veruleg hætta á að kerfið verði hrunið og almenningur kominn út á göturnar með miklu þyngri tæki en sleifar, potta og pönnur.

Jóhanna Sigurðardóttir getur ekki tekið slíka áhættu í umboði Samfylkingarinnar – enda spyr alvöru stjórnmálamaður ekki hagfræðingana um það hvað á að gera – heldur tekur pólitíska ábyrgð á ákvörðunum sínum og rökstyður aðgerðir sem er ætlað að virka.

Benedikt Sigurðarson

Last modified onThursday, 28 February 2013 22:03

Latest from Ólafur Garðarsson

Hagsmunasamtök heimilanna / Ármúla 5 / 108 Reykjavík / ICELAND / (+354)-546-1501 / www.heimilin.is / heimilin@heimilin.is