Logo
Print this page

Verum hörð á fyrirvara á öll ný skuldaskjöl Featured

Frá Birni Þorra Viktorssyni hæstaréttarlögmanni:

Ég hef áður nefnt að skuldarar kunni að eiga rétt gagnvart gömlu bönkunum og hugsanlega einnig æðstu stjórnenda þeirra og aðaleigenda, vegna beinna aðgerða æðstu stjórnenda þeirra og eigenda gegn íslensku krónunni og hagkerfinu, sem leitt hafa til stórtjóns fyrir viðskiptamenn þeirra.  Þar sem innlendar eignir gömlu bankanna (skuldaskjölin á viðskiptavini þeirra) hafa nú verið fluttar yfir í nýju bankana og þar með í hendur nýs lögaðila, kann að vera nauðsynlegt að gæta þess að rita ekki undir ný skuldaskjöl eða skuldbreytingarskjöl, án þess að setja um það fyrirvara að skuldari áskilji sér allan rétt vegna þessara aðgerða, auk þess sem vera kann að grundvöllur skuldbindingarinnar sé brostinn á þann hátt að ekki sé hægt að byggja rétt á öllum ákvæðum lánasamninga.  Það er mikilvægt fyrir skuldara að halda til streitu þessum rétti sínum með beinum fyrirvörum, enda eru þeir nú að semja við nýja banka í mörgum tilfellum og við allt aðrar aðstæður en voru er upphaflegir samningar voru gerðir.  Geri þeir það ekki, gætu þeir átt á hættu að glata jafnvel rétti til að bera fyrir sig slíkar mótbárur síðar.

Það er sanngjarn og eðlilegur réttur skuldara að fara fram á slíka fyrirvara í dag, enda liggur fyrir að verið er að rannsaka og grafast fyrir um hvað raunverulega gerðist í aðdraganda bankahrunsins, sem síðan hefur leitt til þess efnahagshruns sem við stöndum frammi fyrir í dag.  Þá rannsókn annast stjórnskipuð nefnd sem komið var á laggirnar af fyrri ríkisstjórn seint á síðasta ári.  Nefndin á ekki að skila af sér fyrr en í nóvember nk.  Þar til niðurstaða þeirrar nefndar liggur fyrir, tel ég miklu varða að þeir sem vilja láta reyna á rétt sinn að þessu leyti, haldi rétti sínum til streitu með því að gera fyrirvara um það á öllum nýjum skjölum sem skrifað er undir vegna viðauka eða breytinga á eldri samningum og einnig vegna nýrra lánasamninga sem gerðir eru í þeim tilgangi að skuldbreyta lánum sem byggjast á samningum við gömlu bankana.  Það getur varla verið ósanngjörn krafa af hálfu skuldara að áskilja sér allan rétt vegna þess sem gerðist á meðan æðstu stjórvöld í landinu vita ekki sitt rjúkandi ráð og bíða niðurstöðu þeirrar opinberu nefndar sem er að grafast fyrir um það hvað raunverulega gerðist í aðdraganda bankahrunsins.  Ég fæ ekki séð að lánardrottnar geti af neinni sanngirni borið það fyrir sig að þeir hyggist nú meina skuldurum að halda til haga þeim hugsanlega mótbárurétti sem þeir hafa vegna þess sem gerst hefur.  Ég legg til að þeir einstaklingar sem vilja halda til haga þessum hugsanlega mótbárurétti setji fyrirvarann „Með fyrirvara um hugsanlegan betri rétt neytanda“ áður en þeir rita undir ný skjöl sem byggja á eldri samningum sem grundvöllurinn er nú brostinn undan.  Sé um fyrirtæki að ræða, þá gæti fyrirvarinn verið „Með fyrirvara um hugsanlegan betri rétt skuldara“.

Björn Þorri Viktorsson hrl.
Last modified onThursday, 28 February 2013 22:03

Latest from Hrannar Baldursson

Hagsmunasamtök heimilanna / Ármúla 5 / 108 Reykjavík / ICELAND / (+354)-546-1501 / www.heimilin.is / heimilin@heimilin.is