Menu
RSS

Ísland - Opið bréf til Íslendinga frá Steingrími Ármannssyni

Ágætu Íslendingar, bræður og systur.

Við lifum nú á  tímum sem fæstir okkar hefðu trúað að gætu orðið okkar hlutskipti að takast á við. Tímum þar sem óprúttnir aðilar hafa fellt allt það sem við trúðum að Ísland og Íslendingar stæðu fyrir. Tímum þar sem bjartsýni og þrek Íslendinga virðist vera að fjara út. Tímum þar sem við sjáum vonina hverfa. Tímum sem ekki ættu að vera en eru því miður. Tímum þar sem Íslendingar eru hræddir, hræddir því einu fréttirnar sem berast eru slæmar fréttir.
Nú á hið fornkveðna máltæki vel við þar sem segir  að engar fréttir séu góðar fréttir. En þarf svo að vera? Góði Íslendingur, hugmyndirnar sem hér koma á eftir kunna að hljóma sem alger fásinna. Gefðu þér tíma til að lesa þær tillögur sem ég undirritaður hef sett saman. Í þeim felst von, von um ljósglætu í myrkri samtímans. Von sem við öll þurfum á að halda, von sem gefur okkur kraft til að takast á við þær þrengingar og þann veruleika sem örfáir einstaklingar hafa skapað okkur en sem við flest þurfum að takast á við næstu mánuði og ár.

Kæri Íslendingur við erum sterk þjóð sem tökum á þeim málum er upp koma. Ráðamenn þurfa að gefa okkur von og skapa okkur aðstæður til að takast á við vandamálin og byggja upp samfélagið okkar.

...Annars er voðinn vís.

Vonin

Tillaga til ríkistjórnar Íslands varðandi hjálp til handa íslenskum almenningi og fyrirtækjum.

Í ljósi þeirra atburða sem átt hafa sér stað undanfarnar vikur, hrun bankakerfisins, gengisfall íslensku krónunnar og hækkandi verðbólga er nauðsynlegt að færa Íslendingum jákvæðar fréttir. Þær þurfa að miða að því að verið sé að vinna að lausn á þeirri gífurlegu skuldaaukningu sem almenningur og fyrirtæki í landinu standa frammi fyrir.

Með það í huga leggur undirritaður fram eftirfarandi tillögu sem grunn til að byggja á LAUSN til handa Íslendingum.

Tillagan er byggð á 9 skrefum og eru þau eftirfarandi:

         1. skref

    * Byrjum á að bakka aftur til 31.01.2008.

    * Sett verði lög sem miða að því að á þeim degi frystast öll lán sem tengjast eftirtöldu:
          o Hjá einstaklingum lán vegna húsnæðiskaupa og viðhalds húsnæðis.
          o Hjá fyrirtækjum lán vegna húsnæðiskaupa, viðhalds húsnæðis og kaupa á framleiðslutækjum.

         2. skref

    * Öll lán í erlendri mynt verða gjaldfelld.

    * Öll verðtryggð lán verða gjaldfelld.


         3. skref

    * Verðtrygging afnumin frá og með 31.01.2008.

    * Lög sett er banna verðtryggingu á inn- og útlánum.


         4. skref

    * Öll lán verða endurnýjuð í íslenskum krónum án verðtryggingar.  Sett verða þrjú vaxtastig samkvæmt eftirfarandi:

          o Vaxtastig 1: Vextir á lán fyrir íbúðarhúsnæði - 7% vextir
          o Vaxtastig 2: Vextir á lán fyrir atvinnuhúsnæði - 7,5% vextir
          o Vaxtastig 3: Vextir á lán til kaupa á framleiðslutækjum fyrirtækja - 8,5% vextir

         5. skref

    * Lántakendur borgi lánastofnunum fyrirfram ákveðna upphæð fyrir vinnu vegna breytinga á hverju láni fyrir sig, upphæð sem verður bundin í þau lög sem sett verða. (Sem dæmi að skuldbreyta einu láni væri ásættanleg gjaldtaka 10.000 krónur.)

         6. skref

    * Það sem lántakendur hafa greitt frá 31.01.2008 til þess dags er lögin verða sett er sokkin kostnaður fyrir lántakanda.  Hann fær með öðrum orðum þær greiðslur ekki greiddar til baka.  Lánastofnanir reikna út frá nýjum forsendum hver höfuðstóll nýja lánsins yrði og hverjar afborganir verða út lánstímann.

         7. skref

    * Í lögunum verði komið í veg fyrir að lánastofnanir krefjist nýs lántökukostnaðar.

    * Í lögunum verði komið í veg fyrir að lántakendur borgi stimpil -eða þinglýsingagjöld vegna þessarra aðgerða.
    * Í lögunum verði ákveðið að ekki verði um frekari lánveitingar að ræða til húsnæðiskaupa nema í gegnum Íbúðalánasjóð
    * Í lögunum verði Íbúðalánasjóði settar mjög þröngar skorður varðandi skilyrði vegna lánveitinga.
    * Til að koma í veg fyrir að eyðslusamir Íslendingar eyði á ný um efni fram verði sett inn í lögin að þeir sem gangast undir þessa lánabreytingu hafi ekki heimild til að veðsetja eignir sínar frekar nema um neyð sé að ræða og þá í gegnum Íbúðalánasjóð.

         8. skref

    * Lánveitingar í erlendri mynt verði ekki heimilar nema til fyrirtækja og þá eingöngu ef fyrirtækið hefur allar tekjur sínar í sömu mynt og lánið.

         9. skref

    * Þessi lög gilda einnig um öll þau lán sem tekin eru eftir 31.01.2008 og eru þau þá uppreiknuð frá þeim degi sem þau voru tekin.

Rökstuðningur

Þessi leið gefur Íslendingum von, von um að allt sem þeir hafa áunnið síðustu ár sé ekki glatað, að allt sem þeir eiga og hafa unnið fyrir sé ekki horfið í eignaupptöku fallins gjaldmiðils eða óðaverðbólgu.

Gera má ráð fyrir að svo stór aðgerð sem þessi hafi jákvæð áhrif á verðbólgu (verðbólga lækki) þar sem almenningi er gefin von og tækifæri til að snúa bökum saman að lausn þess vanda sem blasir við þjóðinni.  Það gefur ríkisstjórninni tækifæri til að lækka stýrivexti sem allra fyrst og setja á það plan sem þekkist á hinum Norðurlöndunum og Evrópu.

Hægt er að framkvæma þetta á þessum tímamótum vegna þess að ríkisstjórnin heldur um nánast allar þessar lánveitingar. Það eru nokkrar lánastofnanir sem munu tapa á þessu en hægt er að spyrja sig: Hvað er það á móti því að gefa Íslendingum von, von um um að þeir eigi enn húsnæði sitt og atvinnu?

Hægt er að koma til móts við þessar lánastofnanir með því að ríkið kaupi af þeim lánin á því gengi sem það var lánað út á að viðbættum eðlilegum vöxtum. Þessi leið mun færa Íslendinga nær þeim veruleika sem er í Evrópusambandslöndunum og auðvelda okkur inngöngu í Evrópusambandið. Ferlið verður allt mun einfaldara en ella og hraðar þessi leið þeirri nauðsynlegu vinnu sem framundan er til að losa okkur úr þeim viðjum sem Íslendingar eru nú fastir í.

Hver verður keðjuverkunin og margfeldisáhrifin ef almenningur á Íslandi missir vonina, ef ekki er að neinu að stefna. Þessi aðferð getur ef rétt er að henni staðið komið í veg fyrir að íslenskt atvinnulíf og íslenskur drifkraftur botnfrjósi.

Valin er dagsetningin 31.01.2008 þar sem á þeim tímamótum fór verulega að halla undan fæti í gengi íslensku krónunar og verðbólgudraugurinn vaknaði að fullu af þeim dvala sem hann ætti enn að liggja í.

Það sem þarf til að reisa Ísland úr öskunni er samstíga kraftur Íslendinga. Það hefst ekki ef almenningur er sviptur þeirri von að það sé að einhverju að vinna. Hvað er eftir ef fólk missir trúna á sjálft sig, samfélagið og sjálft lýðræðið? Því er nauðsynlegt að almenningur, atvinnurekendur og stjórnvöld taki höndum saman og gefi Íslandi þann sess sem við viljum að það hafi í samfélagi þjóða. Ef það á að takast þarf að gefa almenningi og fyrirtækjum von um að framtíðin beri með sér betri tíma og að hver einstaklingur skipti máli og geti lagt sitt lóð á vogarskálina að byggja upp nýtt og betra Ísland.

Með þökk fyrir.

_________________________________

Steingrímur Ármannsson

Tjarnarbraut 13 Hafnarfirði

Afrit sent til:

Forseta Íslands

Forsætisráðherra

Viðskiptaráðherra

Fjármálaráðherra

Forseta Alþingis sem opið bréf til Alþingis

Fréttadeildar RÚV

Fréttadeildar Stöð 2

Fréttadeildar Morgunblaðsins

Fréttadeildar Fréttablaðsins

Fréttadeildar DV
Last modified onThursday, 28 February 2013 22:03
back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna