Menu
RSS

Samantekt v. greiðsluaðlögunar

Samantekt úr rýnihópi v. greiðsluaðlögunar þann 2. september 2009

Hér er fyrir hönd Hagsmunasamtaka heimilanna leitast við að svara spurningum nefndar þeirrar sem hefur það hlutverk að endurmeta löggjöf og koma með tillögur um hvernig styrkja megi stöðu skuldara m.t.t. mats á árangri nýrra lagaákvæða um greiðsluaðlögun.

 1. Biðtími var styttri en þátttakendur áttu von á hjá Ráðgjafarstofu heimilanna (RSH) og engar kvartanir sem komu fram í þeim efnum. Umkvörtunarefnið var einna helst að fólk  var nánast komið í gegnum ferlið þegar það áttaði á hvað í því fælist og/eða hvaða afleiðingar það hefði.
 2. Skortir upplýsingar frá RSH um hvaða afleiðingar greiðsluaðlögunin hefur s.s.  að viðkomandi lendi á vanskilaskrá. Fyrir mörgum jafngildir það því að verða gjaldþrota, og verða því einstaklingar meðhöndlaðir sem gjaldþrota af samfélaginu.
 3. Ráðgjöfinni hjá RSH er ábótavant. Upplýsingar, leiðsögn og annað sem ráðgjafarstofan veitir virðist takmörkuð og fyrst og fremst felast í því að afhenda bæklinga og eyðublöð til útfyllingar frekar en að útskýra hvað felist í úrræðinu og/eða útskýringum á því hvaða afleiðingar það hefur fyrir einstaklinginn eða fjölskylduna bæði til skamms tíma og lengri tíma litið.
 • Þátttakendur voru alls ekki meðvitaðir um muninn á greiðsluaðlögun vegna samningskrafna annars vegar og vegna fasteignaveðkrafna hins vegar. Þau gerðu sér ekki grein fyrir hvort úrræðið væri um að ræða í þeirra tilvikum (nema þeir sem höfuð lesið og kynnt sér ítarlega lögin).
 • Ekki voru allir þeir sem gengið höfðu í gegnum greiðsluaðlögun meðvitaðir um að auglýsing myndi birtast í Lögbirtingablaðinu.
 • Einhverjir þátttakendur upplifðu að ráðgjöf RSH hefði hag bankans að leiðarljósi en ekki þeirra. Þeir mæla því með því að fá sér óháða lögfræðiaðstoð frekar en að leita aðstoðar ráðgjafarstofunnar.
 • Ráðgjafarstofa heimilanna virðist veita mun takmarkaðri aðstoð vegna greiðsluaðlögunar vegna fasteignaveðskulda en vegna greiðsluaðlögunar samningskrafna.
 • Ekki liggur ljóst fyrir hvort fólk með bæði fasteignaveðskuldir og samningsskuldir fari í greiðsluaðlögun vegna hvoru tveggja eða bara vegna annars þeirra. Í einhverjum tilvikum er það raunin og ekki skýrt hvernig greint er á milli þessara ólíku skulda.
 • Þátttakendur voru almennt ekki upplýstir um að þeir myndu lenda á vanskilaskrá og missa öll kort (debetkort og kreditkort) og í raun vera meðhöndlaðir sem gjaldþrota einstaklingar í bankakerfinu og víðar.
 • Ekki er ljóst hversu lengi fólk verður á vanskilaskrá.
 • Óvissa í hugum fólks hvað tekur við eftir fimm ár þegar greiðsluaðlögun vegna fasteignaveðkrafna lýkur.
 • Ekki er ljóst hvort, eða á hvaða tímpunkti megi bakka út úr greiðsluaðlögunarferlinu og ákveða að leita annarra leiða til lausnar vandans.
 • Aðilar sem eru að íhuga greiðsluaðlögun en hefur tekist að standa í skilum, velta fyrir sér samráði og upplýsingastreymi milli bankastofnana m.t.t. persónuverndarlaga. Einstaklingur skýrði frá eigin tilviki þar sem hann var óánægður með viðskiptabanka sinn óskaði hann eftir að stofna reikning og debetkort hjá annarri fjármálastofnun. Á þeim tímapunkti var hann enn í skilum. Þrátt fyrir það fékk hann órökstudda neitun.
 • Þátttakendur upplifa lítinn mun á því að fara í greiðsluaðlögun og fara í gjaldþrot þar sem engar fasteignaveðskuldir eru niðurfelldar. Eignaupptakan sem átt hefur sér stað, er í raun fyrst og fremst staðfest í formi heimildar kröfuhafa til að fara út fyrir veðrými eignarinnar. Því megi draga þá ályktun að í slíkum tilvikum sé gjaldþrot mun betri kostur en greiðsluaðlögun. Greiðsluaðlögun væri einungis frestun á gjaldþroti og því betra að losna úr snörunni strax.
Last modified onThursday, 28 February 2013 22:03
back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna