Menu
RSS
Frá Hagsmunasamtökum heimilanna

Frá Hagsmunasamtökum heimilanna (408)

Hagsmunasamtök heimilanna mótmæla yfirlýsingu forsætisráðherra

Í viðtali við Ríkissjónvarpið í fréttum í gærkvöldi lýsti forsætisráðherra því yfir að hann hefði ástæðu til þess að vera bjartsýnn fyrir hönd flokksins, þrátt fyrir ólgutíma í pólitík. Það sagðist hann gera með því að byggja á því sem flokkurinn: „hafi gert, sagst ætla að gera...og síðan framkvæmt“.

Hagsmunasamtök heimilanna mótmæla þessari yfirlýsingu forsætisráðherra og minna á að helsta kosningaloforð Framsóknarflokksins var að afnema verðtryggingu neytendalána. Þetta helsta kosningaloforð flokksins hefur hinsvegar ekki verið framkvæmt. Framsetning forsætisráðherra um verk flokksins í viðtali við RÚV, er því hvorki rétt né heiðarleg gagnvart heimilum landsins. Ríkisstjórnin hefur framkvæmt ýmis verk á kjörtímabilinu sem komið hafa heimilunum vel. Hins vegar hefur Framsóknarflokkurinn svikið kjósendur sína um sitt megin kosningaloforð sem átti að verða grundvöllur að bættum fjárhag heimilanna.

Read more...

Opinn spjallfundur um málefni heimilanna

Kæru félagsmenn

Nú er komið að mánaðarlegum opnum spjallfundi Hagsmunasamtaka heimilanna. Hann verður haldinn næstkomandi miðvikudag, þann 6. apríl, kl. 20-22, á Café Meskí, Fákafeni 9.

Hér er vettvangur fyrir félagsmenn að tjá það sem brennur á þeim og ræða við fulltrúa stjórnar samtakanna.

Við hvetjum félagsmenn til að nýta sér þessa fundi!

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna.

Read more...

Umboðsmaður skuldara túlkar dóm um vexti í greiðsluskjóli fjármálafyrirtækjum í vil


Hagsmunasamtök heimilanna mótmæla túlkun umboðsmanns skuldara á dómi héraðsdóms um dráttarvexti sem reiknaðir voru á lán umsækjanda um greiðsluaðlögun á meðan umsækjandinn var í svokölluðu greiðsluskjóli. Túlkun umboðsmanns á niðurstöðum dómsins er alfarið lánveitendum í vil og neytendum í óhag, en á sér hinsvegar enga stoð í dómnum sjálfum. Óskiljanlegt er að embætti umboðsmanns skuldara, sem eins og heitið gefur til kynna ætti að gæta hagsmuna skuldara, skuli þessi í stað kjósa að draga taum fjármálafyrirtækja með þessum hætti.

Þann 8. desember síðastliðinn kvað Héraðsdómur Reykjavíkur upp dóm í máli aðila sem hafði sótt um greiðsluaðlögun, þar sem tekist var á um hvort lánveitanda væri heimilt að krefjast dráttarvaxta af kröfu sinni fyrir það tímabil sem skuldarinn var í greiðsluskjóli vegna umsóknar um greiðsluaðlögun. Fram kom í dómnum að hafa beri í huga að lánið sem um ræddi hafði þegar verið gjaldfellt af hálfu lánveitanda og bar því dráttarvexti áður en skuldarinn sótti um greiðsluaðlögun. Dómurinn svaraði þannig engu um það hvort lánveitendum hafi verið heimilt að gjaldfella og reikna dráttarvexti á önnur lán sem voru í fullum skilum þegar viðkomandi skuldarar sóttu um greiðsluaðlögun.

Þann 26. janúar síðastliðinn birti umboðsmaður skuldara tilkynningu á heimasíðu sinni um dóminn. Þar er því haldið fram að samkvæmt niðurstöðu dómsins beri að túlka ákvæði 2. mgr. 11. gr. laga um greiðsluaðlögun, á þann veg að það heimili álagningu dráttarvaxta vegna þess tímabils sem kröfur eru í greiðsluskjóli. Hinsvegar er enginn fyrirvari gerður við þær sérstöku kringumstæður sem voru uppi í þessu tiltekna máli og takmarkandi þýðingu þeirra fyrir niðurstöðuna. Túlkun umboðsmanns er því mun víðtækari en fótur er fyrir í forsendum dómsins. Þess má jafnframt geta að ákveðið hefur verið að áfrýja dómi héraðsdóms í málinu til Hæstaréttar Íslands.

Rétt er að vekja athygli á því að samkvæmt a-lið 1. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga er lánardrottnum óheimilt að krefjast eða taka við greiðslu á kröfum sínum á meðan frestun greiðslna stendur, þ.e. á meðan skuldari er í svokölluðu greiðsluskjóli. Samkvæmt b-lið sama ákvæðis er jafnframt óheimilt að gjaldfella skuldir samkvæmt samningsbundnum heimildum á meðan frestun greiðslna stendur og neyta þannig heimildar til álagningar dráttarvaxta, og samkvæmt c-lið er jafnframt óheimilt að ganga að eignum skuldara á sama tímabili. Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laganna falla vextir á skuldir meðan á frestun greiðslna stendur þó þeir séu ekki gjaldkræfir, en ekki er tekið fram hvort átt sé við dráttarvexti eða samningsvexti. Þar sem lánveitandanum er óheimilt að taka við greiðslu kveður 7. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu hinsvegar á um að óheimilt sé að reikna dráttarvexti þann tíma sem greiðsludráttur verður af þessum lögmætu ástæðum.

Hagsmunasamtök heimilanna vísa á bug þeirri víðtæku og einhliða túlkun lánadrottnum í vil, sem kemur fram í umræddri tilkynningu umboðsmanns skuldara varðandi vexti í greiðsluskjóli, og telja að þannig gæti embættið engan veginn að réttindum neytenda. Miklir hagsmunir geta verið í húfi enda munar jafnan talsverðu á dráttarvöxtum og samningsvöxtum. Umsækjendum um greiðsluaðlögun sem voru í fullum skilum við upphaf greiðsluskjóls en hafa engu að síður verið krafðir um dráttarvexti vegna þess tímabils, er bent á að kanna möguleika á því að leita réttar síns vegna þess. Ekki síst í þeim tilvikum þar sem um er að ræða háar fjárhæðir í formi dráttarvaxta.

Read more...

Kynning á niðurstöðum dóms um verðtryggð neytendalán

Á félagsfundi Hagsmunasamtaka heimilanna þann 25. febrúar síðastliðinn var fjallað um niðurstöður dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 243/2015 um verðtryggð neytendalán sem samtökin stóðu að. Dómurinn féll því miður ekki neytendum í hag og er því ástæða til að kynna þá niðurstöðu sérstaklega ásamt greiningu á rökstuðningi Hæstaréttar, sem fór þvert gegn ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins um þau álitaefni sem reyndi aðallega á í málinu. Meðfylgjandi eru kynningarglærur frá fundinum en í þeim er einnig fjallað um möguleg viðbrögð við dómnum og þau skref sem í framhaldinu koma til geina í því skyni að leitta réttar neytenda vegna þeirra óréttmætu byrða sem verðtryggingin hefur lagt á langsflest heimili landsins.

Read more...

Opinn spjallfundur um málefni heimilanna

HH-opinn-fundur-mars-2016

Kæru félagsmenn

Nú er komið að mánaðarlegum opnum spjallfundi Hagsmunasamtaka heimilanna. Hann verður haldinn næstkomandi miðvikudag, þann 2. mars, kl. 20-22, á Café Meskí, Fákafeni 9. Hér er vettvangur fyrir félagsmenn að tjá það sem brennur á þeim og ræða við fulltrúa stjórnar samtakanna.

Við hvetjum félagsmenn til að nýta sér þessa fundi!

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna.

Read more...

Félagsfundur HH um framtíð heimilanna

HH2016Felagsfundur

Hagsmunasamtök heimilanna boða til félagsfundar, fimmtudagskvöldið, 25. febrúar næstkomandi, kl. 20:00. Félagsmenn eru hvattir til þess að mæta og taka þátt í umræðu um kjör heimilanna. Á fundinum verður gerð grein fyrir niðurstöðum dóms Hæstaréttar Íslands um verðtryggð neytendalán og fjallað um leiðir í áframhaldandi baráttu gegn verðtryggingunni. Auk þess verður fjallað um fátækt á Íslandi.

Staður: Hótel Cabin, Borgartúni 32, 7. hæð, (efstu hæð hússins).

Stund: 25. febrúar, 2016, kl. 20 til 22.

Read more...

Opinn spjallfundur um málefni heimilanna

Kæru félagsmenn.

Næsti opni spjallfundur vetrarins verður haldinn í Café Meskí, Fákafeni 9, miðvikudaginn 3. febrúar kl. 20-22. Hittumst og spjöllum saman um það sem brennur á okkur. Stjórnarmenn samtakanna verða á staðnum til að fara yfir málin með félagsmönnum. Við viljum heyra hvað ykkur liggur á hjarta. Umræðuefnið er frjálst og til dæmis má ræða um nauðungarsölur, verðtrygginguna, skuldaleiðréttingar, vaxtamál og fleira sem viðkemur málefnum heimilanna.

Fundurinn verður í innri sal Café Meskí. Næg bílastæði. Gaman væri að sjá sem flesta.

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna.

Read more...

Hvatning til þingheims um afnám verðtryggingar

Hagsmunasamtök heimilanna fagna nýju frumvarpi um afnám verðtryggingar á neytendalánum. Samtökin vilja þakka þingmönnum Samfylkingarinnar fyrir að taka af skarið í þessu máli. Á síðasta kjörtímabili leituðu samtökin eftir samstarfi þingmanna um meðferð á sambærilegu frumvarpi við dræmar undirtektir. Með frumkvæði þingmanna Samfylkingarinnar binda Hagsmunasamtök heimilanna vonir við að breyttir tímar gangi nú í garð og að þingmenn þjóðarinnar og heimilanna muni vinna að afnámi verðtryggingar.

Gríðarlegir hagsmunir eru í húfi fyrir neytendur og þá ekki síst lántakendur húsnæðislána. Þetta frumvarp gæti orðið fyrsta skrefið í afnámi verðtryggingar og er þannig afar mikilvægt framtak. Hagsmunasamtök heimilanna hvetja því alla alþingismenn til að vanda meðferð á hinu nýja frumvarpi og nýta þetta góða tækifæri til að standa vörð um hagsmuni heimilanna í málflutningi sínum. Íslensk heimili hafa allt of lengi verið föst í viðjum íþyngjandi lánskostnaðar og þeirrar neikvæðu eignamyndunar sem fylgir verðtryggðum lánum. Samtökin hafa lengi verið ötul í baráttu sinni gegn verðtryggingu og eru sannfærð um að afnám hennar muni stuðla að bættum efnahag á Íslandi með auknu aðhaldi á fjármálastofnanir og styrkari fjárhagstöðu heimilanna.

Read more...

HH senda Umboðsmanni Alþingis ábendingar vegna ESÍ og Dróma

Hagsmunasamtök heimilanna hafa sent Umboðsmanni Alþingis ábendingar vegna starfsemi Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. (ESÍ), dótturfélags þess Hildu ehf. og samvinnu þeirra við Dróma hf. Samtökin sendu umboðsmanni ábendingar sínar skömmu fyrir jól, í tilefni af rannsókn embættisins á lagagrundvelli fyrir flutningi verkefna Seðlabanka Íslands í einkahlutafélög.

Meðal þess sem bent er á í erindi samtakanna er að auk þeirra félaga sem getið var um í bréfi umboðsmanns frá október síðastliðnum, eigi þau jafnframt fleiri dótturfélög, þar á meðal Hildu ehf., sem hafi stundað innheimtu lánasafna fyrir hönd Seðlabanka Íslands hjá heimilum og fyrirtækjum sem voru viðskiptavinir fallinna fjármálafyrirtækja. Jafnframt hafi Seðlabankinn og Hilda ehf. veitt Dróma hf. umboð til umsýslu og innheimtu viðkomandi lánasafna fyrir sína hönd, þrátt fyrir að það fyrirtæki hefði engar lögboðnar heimildir til að stunda slíka innheimtu fyrir aðra.

Í þessu samhengi er vakin athygli á því að október 2013 komst Fjármálaeftirlitið að sömu niðurstöðu, og sektaði Dróma fyrir að hafa stundað innheimtu fyrir aðra án innheimtuleyfis. Kom fram í þeirri ákvörðun að innheimtan hefði síðar færst yfir til Arion banka, en ekki hafa komið opinberlega fram neinar skýringar á forsendum þeirrar ráðstöfunar eða hvernig um hana hafi verið samið.

Einnig er rakið í erindinu hvernig Fjármálaeftirlitið (FME) mælti fyrir um stofnun Dróma hf. án þess að veitt hefði verið nein heimild til stofnunar slíks fyrirtækis í hinum svokölluðu neyðarlögum sem sett voru vegna fjármálahrunsins árið 2008. Vakin er athygli á því að Drómi er skráð sem eignarhaldsfélag en hefur aldrei haft starfsleyfi, hvorki sem fjármálafyrirtæki né sjálfstæður innheimtuaðili.

Samtökin gera jafnframt alvarlegar athugasemdir við sinnuleysi Fjármálaeftirlitsins gagnvart þeim langvarandi og stórfelldu lögbrotum sem framin hafa verið af hálfu Dróma og á ábyrgð slitastjórnar SPRON. Í því samhengi er bent á að óeðlileg tengsl kunni að hafa myndast milli þessara aðila þegar fyrrum sviðsstjóri hjá FME var skipaður formaður slitastjórnar SPRON og stjórnarformaður Dróma.

Með erindi samtakanna til umboðsmanns fylgja ýmis gögn sem eru opinberlega aðgengileg eða hafa borist frá félagsmönnum, og styðja þær athugasemdir sem koma fram í erindinu. Þar á meðal er rannsóknarskýrsla um starfsemi Dróma sem samtökin tóku saman og gáfu út í nóvember 2013, en í henni er nánar gerð grein fyrir þeim atriðum sem athugasemdirnar beinast að, ásamt miklum fjölda tilvísana á opinberar heimildir og umfjöllun um málefni sem tengjast þeirri starfsemi.

Hagsmunasamtök heimilanna vonast til þess að birting þeirra upplýsinga sem þau hafa safnað saman og ábendingar á grundvelli þeirra til Umboðsmanns Alþingis, verði til þess að knýja enn frekar á um að ráðist verði í opinbera rannsókn á starfsemi þeirra fyrirtækja sem urðu til í kjölfar bankahrunsins en opinberar rannsóknarnefndir hafa hingað til aðeins rannsakað atburði sem gerðust fyrir þann tíma. Að sama skapi er brýnt að einkavæðing bankanna árið 2009 hljóti sambærilega rannsókn.

Hér má nálgast rannsóknarskýrslu HH um starfsemi Dróma hf.:

Read more...

Jólakveðja til heimilanna

Hagsmunasamtök heimilanna senda hugheilar kveðjur til heimila landsins á þeim tímamótum sem þau standa nú á.

Árið sem senn er á enda hefur verið viðburðaríkt í sögu samtakanna, og ber þar hæst dóm Hæstaréttar Íslands þann 26. nóvember í máli nr. 243/2015 um verðtryggingu neytendalána, sem unnið hefur verið að af hálfu samtakanna í rúmlega þrjú ár. Dómurinn féll því miður ekki neytendum í hag, og má segja að með því hafi Íslendingar verið sviptir með dómi þeirri neytendavernd sem þeim hefði átt að vera tryggð samkvæmt EES-samningnum. Þrátt fyrir það eru samtökin ekki af baki dottin, og munu leita fleiri leiða til að knýja fram réttlæti fyrir neytendur á íslenskum fjármálamarkaði, en nánari kynning á þeim aðgerðum mun bíða næsta árs.

Að þessu sögðu óska samtökin félagsmönnum sem og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

 

Read more...
Subscribe to this RSS feed

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna