Menu
RSS
Frá Hagsmunasamtökum heimilanna

Frá Hagsmunasamtökum heimilanna (395)

Hagsmunasamtök heimilanna 10 ára

Hrunið hefur ekki verið gert upp!
Fjárhagslegt, félagslegt og samfélagslegt tjón er gríðarlegt.
Um 15.000 fjölskyldur, eða 45.000 einstaklingar, hafa verið á hrakhólum eftir gjaldþrot þriggja banka.
Að missa heimili sitt og óöryggi hefur áhrif á líðan barna.
Vanlíðan íslenskra unglinga hefur aldrei verið meiri.
Traust til stjórnmálamanna er ekki til staðar!

Í dag, þriðjudaginn 15. janúar, eru 10 ár frá stofnun Hagsmunasamtaka heimilanna.

Venjulega er afmælum fagnað og vissulega er ástæða til að fagna því að Hagsmunasamtökin séu enn til staðar og enn að styrkjast nú þegar þau ná 10 ára aldrinum. En engu að síður er það sorglegt að samtök eins og Hagsmunasamtök heimilanna þurfi yfirleitt að vera til. Það er ekkert eðlilegt við það að rúmum 10 árum eftir hrun sé ekki enn búið að gera upp hrunið og að ennþá þurfi að að berjast fyrir þeim sjálfsagða hlut að lög- og stjórnarskrár varin réttindi almennings á fjármálamarkaði séu virt.

Það er staðfest að 10.000 fjölskyldur hafi misst heimili sín á nauðungaruppboðum frá hruni og við vitum að þau eru mun fleiri. Varlega áætlað teljum við að um 15.000 heimili sé ræða eða um 45.000 manns.

Þetta er ekki léttvægt og áhrif þessara hörmunga eru víðtækari en ljóst er við fyrstu sýn. Missir heimilis hefur gífurleg og langvarandi áhrif á líf, afkomu og heilsu einstaklinga, svo ekki sé minnst á áhrif svona áfalla á börn og unglinga. Samkvæmt rannsóknum hefur vanlíðan unglinga aldrei verið meiri og óhætt að velta fyrir sér áhrifum heimilismissis og álags vegna þess á fjölskyldur og á öryggi og líðan barna og unglinga.

Tölfræðin sýnir að um 15% þjóðarinnar hafi misst heimili sín á Íslandi undanfarin 10 ár án þess að hér hafi ríkt stríðsástand eða orðið stórfelldar náttúruhamfarir. Þessar fjölskyldur hafa ekki enn fengið réttindi sín viðurkennd og munu búa við afleiðingar þessa um langa framtíð.

Það er því eitt helsta baráttumál Hagsmunasamtakanna að gerð verði óháð rannsóknarskýrsla á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun og áhrifum þeirra og afleiðingum fyrir heimilin.

Það væri vel við hæfi ef Alþingi léti það verða sitt fyrsta verk þegar það kemur saman eftir jólafrí að samþykkja gerð Rannsóknarskýrslu heimilanna og gefa Hagsmunasamtökunum og þjóðinni allri skýrsluna í afmælisgjöf. Sé stjórnmálamönnum alvara í að vilja endurreisa traust í samfélaginu verða þeir að þora að horfast í augu við eigin aðgerðir og afleiðingar þeirra eftir hrun.

Þeir stjórnmálamenn sem ekki veita Rannsóknarskýrslu heimilanna stuðning sinn hljóta að þurfa að rökstyðja þá afstöðu sína. Þjóðin þarf að fá svör.

Hagsmunasamtökin munu ekki halda upp á afmælið með formlegum hætti að svo stöddu, en halda áfram baráttu sinni fyrir réttindum neytenda á fjármálamarkaði af fullum krafti. Það er löngu kominn tími til að réttlætið fái framgang á Íslandi og að lög- og stjórnarskrárvarin réttindi almennings séu virt.

Við munum að sjálfsögðu halda áfram að berjast fyrir afnámi verðtryggingar á lánum heimilanna. Það er ótrúlegt en satt að ein stærsta barátta Hagsmunasamtakanna hefur verið fyrir því að lögbundinn réttur neytenda á fjármálamarkaði sé virtur af stjórnvöldum og dómurum og henni verður að sjálfsögðu haldið áfram.

Andstaðan gegn réttindum neytenda er sterk innan „kerfisins“ en Hagsmunasamtökin hafa ítrekað neyðst til að leita á náðir dómstóla og eru núna með tvö stór dómsmál í gangi.

Í desember lögðu Hagsmunasamtök heimilanna fram kæru til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna þess hvernig lög og réttur voru ítrekað brotin í meðferð stjórnvalda og dómstóla á ólögmætum gengistryggðum lánum eftir hrun. Þann 30. janúar verður jafnframt dómtekið mál á vegum Hagsmunasamtakanna vegna verðtryggðra neytendalána.

Dropinn holar steininn og Hagsmunasamtökin líta með bjartsýni fram á nýtt ár enda finnum við sífellt aukinn meðbyr með málstað okkar.

Núverandi stjórn Hagsmunasamtakanna vill nota þessi tímamót til að þakka þeim fjölmörgu sem lagt hafa Hagsmunasamtökunum lið á þessum árum. Fyrrverandi formenn og stjórnarmenn eiga þakkir skildar, auk allra þeirra einstaklinga sem með sinni eigin baráttu hafa lagt sameiginlegri baráttu okkar allra lið. Sérstakar þakkir eru til félagsmanna okkar sem hafa gert okkur kleift að vinna að baráttumálum okkar með því að greiða félagsgjöld og einnig þeim sem hafa verið styrktarmeðlimir okkar og greitt sérstakar mánaðarlegar greiðslur inn á styrktarsjóð okkar. Þessar greiðslur hafa gert okkur mögulegt að greiða laun til starfsmanna okkar sem eru ómetanlegir og vinna mikið meira en launahlutfall þeirra segir til um og einnig til að standa í þeim málaferlum sem við höfum ráðist í.

Þeir sem vilja sýna Hagsmunasamtökunum stuðning sinn í verki í baráttu sinni við ofurefli fjármálafyrirtækja og stjórnvalda, geta lagt framlög inn á nær tóman málskostnaðarreikning samtakanna. Öll framlög eru vel þegin og verða vel nýtt.

Reikningsnúmer málskostnaðarsjóðs:
1110-05-250427 kt. 520209-2120

Íslendingar þurfa Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Read more...

Kæra til Mannréttindadómstóls Evrópu

Hagsmunasamtök heimilanna leita nú réttlætisins á vettvangi Mannréttindadómstóls Evrópu. Kæra hefur verið verið send til dómstólsins vegna úrlausnar mála er varða gengistryggð lán af hálfu íslenskra stjórnvalda og dómstóla.

Með því að víkja sérstökum lögum um neytendalán til hliðar í trássi við skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt EES samningnum og leggja margfalt hærri vexti en um var samið á lán sem voru með ólöglegri gengistryggingu, hafa íslenskir neytendur verið sviptir mikilvægum grundvallarréttindum sínum. Kæran byggist á því að með þeim hætti hafi verið brotið gegn þeirri friðhelgi sem eignarréttur skal njóta samkvæmt 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við Mannréttindasáttmála Evrópu sbr. lög nr. 62/1994 og 72 gr. stjórnarskrárinnar, auk þess sem ekki hafi verið gætt jafnræðis við úrlausn slíkra mála.

Áður en hægt er að skjóta máli til Mannréttindadómstóls Evrópu þarf að vera búið að láta reyna á öll möguleg úrræði innan lands. Margoft hefur verið látið reyna á sérstök réttindi neytenda í málum sem þessum fyrir íslenskum dómstólum, en að mati samtakanna var það fullreynt með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 636/2017. Þar sem það hafði verið metið sem ákjósanlegt fordæmismál var ákveðið að skjóta málinu til Mannréttindadómstóls Evrópu. Kæran var send í vikunni fyrir jól og afhent til dómstólsins í dag, aðfangadag 24. desember 2018. Með því að koma slíku máli fyrir erlendan fjölþjóðlegan dómstól, hafa samtökin náð mikilvægum áfanga í baráttu sinni fyrir réttindum íslenskra neytenda á fjármálamarkaði.

Fyrsta skrefið í málsmeðferð dómstólsins er að kanna hvort málið uppfylli nauðsynleg skilyrði til að hljóta efnislega úrlausn. Erfitt er að segja til um hvenær ákvörðun um það muni liggja fyrir, en vonast er til að það skýrist nánar snemma á nýju ári 2019. Nánari upplýsingar munu Hagsmunasamtök heimilanna veita á heimasíðu samtakanna www.heimilin.is eftir því sem framvinda málsins gefur tilefni til.

ATH! Málarekstur sem þessi er kostnaðarsamur og verður enn kostnaðarsamari ef til efnislegrar málsmeðferðar kemur, eins og vonir standa til. Við minnum því á að beina má frjálsum framlögum í málskostnaðarsjóð Hagsmunasamtaka heimilanna með því að leggja inn á reikning nr. 1110-05-250427, kt. 520209-2120. Öll framlög stór sem smá nýtast til að leita réttlætis fyrir neytendur á íslenskum fjármálamarkaði.

Read more...

Jóla- og áramóta hugleiðingar frá formanni

Eftirfarandi ávarp frá formanni HH er úr fréttabréfi sem sent var til félagsmanna í desember. Athygli er vakinn á því að fréttabréf eru send reglulega til skráðra félagsmanna en hægt er að skrá sig í samtökin HÉR til að komast á póstlista félagsmanna.

Jóla- og áramóta hugleiðingar frá formanni
 
Von um réttlæti
Það eru að koma jól og jólunum fylgir alltaf von, um betri heim, frið og réttlæti.
Eftir að hafa staðið í þessari baráttu með beinum og óbeinum hætti í 10 ár, er ég sannfærð um að vonin sé eitt það dýrmætasta sem við eigum. Það er fyrst þegar við glötum henni sem við töpum baráttunni.
Þess vegna berst ég við að halda henni vakandi í mér sjálfri og þeim sem eru í kringum mig og þess vegna bregst ég stundum „reið við“ þegar lítið er gert úr „litlum sigrum”, því til að halda voninni lifandi verðum við að leyfa þeim að virka sem olía á þann eld sem eftir er, því annars deyr hann.
Hafandi sagt þetta þá skil ég samt vel þá sem hafa glatað voninni því ofureflið sem við stöndum frammi fyrir er gríðarlegt og svo skelfilega óréttlátt.
Það á enginn að þurfi að ganga í gegnum það sem mörg okkar höfum gengið í gegnum og það á ekki að vera hægt að fara svona með LÍF fólks.
Í haust voru 10 ár frá hruni og í gær, 18. desember, voru 8 ár frá setningu hinna skelfilegu Árna Páls laga. Ég var að vona að þetta yrði haustið þar sem stjórnmálamenn myndu rísa upp fyrir almenning í landinu og að 10 árum eftir hrun yrði hægt að fagna jólum vitandi að réttlæti kæmi á nýju ári. Svo fór þó ekki, baráttan þarf enn að halda áfram en það er samt von í lofti. Uppáhaldsmálsháttur okkar hjá HH er „Dropinn holar steininn“ og að undanförnu hefur okkur fundist „jarðvegurinn“ vera að breytast og við vera að fá aukinn hljómgrunn – að vatnið sé farið að vætla og molna undan fúastoðum spillingarinnar.
Þar kemur margt til, sumt stærra og annað minna, sumt getum við rakið til okkar vinnu að einhverju eða öllu leyti, annað kemur úr öðrum áttum en styður málstað okkar engu að síður. Það eru engar einfaldar skilgreiningar í þessum málum og margir hafa lagt sitt af mörkum.
Tíminn vinnur með okkur og í hvert sinn sem hulunni er svipt af einhverju, er málflutningur Hagsmunasamtakanna staðfestur á einhvern hátt.
Hingað til hefur engum enn tekist að hrekja málflutning okkar.
Við skulum því mæta nýju ári með von í hjarta – réttlætið mun sigra að lokum og það er nær en við höldum. Förum því aðeins yfir nokkuð af því sem er jákvætt og vinnur með okkur með beinum eða óbeinum hætti.
 
Rannsóknarskýrsla heimilanna og „vorið í verkó“
Það hafa orðið miklar breytingar innan verkalýðshreyfingarinnar og ég vænti þess að von bráðar muni ASÍ lýsa yfir stuðningi við Rannsóknarskýrslu heimilanna. Það verður að rannsaka þær aðgerðir sem stjórnvöld réðust í eftir hrun og afleiðingar þeirra fyrir heimili landsins og er algjörlega óhugsandi annað en að „vorið í verkó“ fylki sér á bak við þá kröfu.
Meðal þess sem þyrfti að rannsaka er:
  • Stofnun nýju bankanna og yfirfærsla lánasafna gömlu bankanna til þeirra
  • Afhending stórra eignarhluta í bönkunum til þrotabúa föllnu bankanna
  • Úrlausnir mála vegna ólöglegra lánaskilmála og framferðis kröfuhafa
  • Hversu margar fjölskyldur hafa verið sviptar heimilum sínum frá hruninu?
  • Hversu margar þeirra voru hraktar út á vonlausan leigumarkað?
  • Hver væri staða húsnæðismála núna ef þetta hefði ekki verið gert?
  • Greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara sem hefur reynst mörgum illa
  • Ólöglegar vörslusviptingar heimilisbíla og ökutækja einstaklinga
  • Skortur á samráði við fulltrúa neytenda og samtaka þeirra
Þó við viljum flest eitthvað meira afgerandi en „enn eina skýrsluna“ þá er það sannfæring og niðurstaða okkar í stjórn Hagsmunasamtakanna að réttlæti fáist ekki fyrr en það hefur verið viðurkennt, og það er ljóst að viðurkenning fæst ekki nema niðurstöður rannsóknar liggi fyrir.
 
„Gulu vestin“
Það eiga sér stað hræringar víða um heim. Almenningur er að rísa upp gegn þessum „nýja aðal“ sem bankar og fjármálafyrirtæki eru. Það er farið að molna undan þessu fólki sem hefur farið með almenning sem fóður fyrir bankana. Réttlæti mun ná fram að ganga!
Á stjórnarfundi HH í síðustu viku ræddum við að sjálfsögðu „gulu vestin“ og hvernig við gætum nýtt okkur þau, t.d. í sambandi við 10 ára afmæli HH í janúar. Hvort við gætum selt þau til fjáröflunar og gert okkur, þessi „þöglu fórnarlömb hrunsins“ sýnileg með þeim hætti, og hvort við ættum að láta merkja þau.
Fleiri hafa greinilega fengið svipaðar hugmyndir og það verður að koma í ljós hvað við gerum. En hvernig svo sem það fer, þá er alveg ljóst að það er e.k. „vakning“ í gangi út í heimi sem allar líkur eru að að berist hingað til lands.
 
Umfjöllun fjölmiðla og ábyrgð okkar sjálfra
Umfjöllun fjölmiðla um málefni Hagsmunasamtakanna er skammarlega lítil, en þá kann maður betur að meta það sem vel er gert. Frá því í vor hefur Styrmir Gunnarsson fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins tekið undir málflutning Hagsmunasamtakanna í a.m.k. fjórum greinum og einu sjónvarpsviðtali. Styrmir er maður sem hefur áunnið sér virðingu þvert á flokka og á hann er hlustað. Stuðningur hans er því mikils virði og við kunnum honum hinar bestu þakkir fyrir.
Það verður ekki hjá því litið að þegar það er jafn erfitt og raun ber vitni að ná eyrum og athygli fjölmiðla, þá þurfum við sjálf að taka ábyrgðina á því að láta í okkur heyra. Það er ekki öllum gefið að skrifa og alls ekki raunhæft að ætlast til að við séum öll að láta í okkur heyra. Sem ein af þeim sem læt í mér heyra og skrifa greinar, get ég þó fullyrt að við sem það gerum, erum ekki að því að gamni okkar eða af því að við höfum ekkert annað við tíma okkar að gera.
Við gerum þetta af illri nauðsyn og við verðum að geta treyst á félagsmenn að taka boltann þaðan og dreifa skrifum okkar áfram. Greinar um málefni okkar ættu alltaf að fá deilingar og like í þúsunda tali en í staðinn hlaupa þau á örfáum hundruðum þegar best lætur. Við getum gert betur þarna og ég bið hvern og einn um að leggja sitt af mörkum í baráttunni með þessum einfalda hætti sem kostar ekki neitt.
 
Skýrsla félagsmálaráðherra
Einn stærsti áfangi baráttunnar frá upphafi er beiðni um skýrslu frá félags- og jafnréttismálaráðherra um úttekt á stöðu ólíkra hópa fólks með tilliti til eigna-, tekju- og atvinnustöðu tíu árum eftir hrun.
Enn ein skýrslan, segja sumir en þetta er ekki bara „enn ein skýrslan“. Vissulega hafa verið gerðar margar skýrslur en það hefur ekki verið gerð ein einasta skýrsla um afdrif heimilanna eftir hrun.
Það skal tekið fram að hér er ekki um Rannsóknarskýrslu heimilanna að ræða. Sú skýrsla þyrfti að verða mun víðtækari en þessi sem aðeins er beint að einu ráðuneyti. Hins vegar er ekki erfitt að sjá fyrir sér að þessi skýrsla gæti verið undanfari annarrar og viðameiri skýrslu enda tel ég nokkuð víst að niðurstöður hennar munu kalla eftir nánari rannsókn.
Það er því miður þannig að við hjá HH berum ekki mikið traust til „kerfisins“ og þegar skýrslubeiðnin var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum á Alþingi, þá heyrðust raddir um að þetta yrðir aldrei neitt og yrði bara þaggað niður.
Það er því ánægjulegt að geta sagt frá því að verið er að hrinda þessu af stað í góðu samstarfi við okkur í Hagsmunasamtökunum, en ráðherra hefur frá upphafi óskað eftir aðkomu HH og tekið fullt tillit til óska og athugasemda okkar í undirbúningnum.
Nokkrir mjög hæfir aðilar hafa komið til greina til að leiða þessa vinnu en á næstu dögum verður tilkynnt hver það verði og erum við í stjórn HH mjög ánægð með það val.
Það var einnig mjög ánægjulegt að sjá þá þverpólitísku samstöðu sem var um skýrslubeiðnina, en að henni stóðu þingmenn úr fimm flokkum.
Vonandi er þetta merki um að þingmenn séu farnir að setja hagsmuni heimilanna ofar pólitík og því að fela gjörðir eigin flokka. Það er löngu tímabært.
 
Fyrirspurnir á Alþingi
Töluvert margar fyrirspurnir hafa verið lagðar fram á Alþingi undanfarið ár að beiðni eða í samstarfi við Hagsmunasamtökin, auk tveggja frumvarpa og einnar þingsályktunartillögu.
Að öðrum þingmönnum sem hafa aðstoðað okkur ólöstuðum, er Ólafur Ísleifsson sá þingmaður sem hefur reynst okkur einna best á þingi í vetur. Hann hefur í samstarfi við Hagsmunasamtökin lagt fram margar fyrirspurnir á þessu ári og á m.a. heiðurinn að þeirri sem staðfesti málflutning okkar um að a.m.k. 10.000 fjölskyldur hefðu misst heimili sín frá hruni auk þess sem hann hefur lagt fram lyklafrumvarp og frumvarp með tillögum um verulegar takmarkanir á verðtryggingu.
Maður hvorki gleymir né vanþakkar það sem vel er gert hvað svo sem síðar gerist. Hver svo sem framtíð Ólafs verður á Alþingi eða í stjórnmálum þá hefur hann á sínum stutta tíma á Alþingi verið einn sterkasti talsmaður hagsmuna heimilanna frá hruni og við kunnum honum miklar þakkir fyrir það. Staðan væri verri ef hans hefði ekki notið við og persónulega vona ég að við fáum að njóta krafta hans áfram.
 
Á bak við tjöldin
Við í stjórn HH höfum mætt á marga fundi í vetur til að tala fyrir málstað heimilanna. Við hittum alla sem við okkur vilja tala og sem við teljum að geti hjálpað málstað okkar, hvar í flokki sem þeir standa. Við höfum þannig hitt marga ráðherra, alþingismenn, þingflokka, embættismenn úr mörgum ráðuneytum, og forystufólk úr verkalýðshreyfingunni svo eitthvað sé nefnt.
Við getum ekki talað um alla þessa fundi. Eins og aðrir ávinnum við okkur traust og orðspor og til að skemma það ekki þurfum við að sýna trúnað hvort sem fundurinn hefur verið „góður“ eða „vondur“. Við getum t.d. ekki opinberað það ef einhver stjórnmálamaður tekur undir allt sem við segjum því það gæti hreinlega skemmt fyrir honum, og þar með baráttu okkar, í hans flokki.
Í samtölum við ráðamenn merkjum við ákveðinn hljómgrunn sem við höfum ekki fundið áður. „Jarðvegurinn“ fyrir málflutning okkar er allt annar og betri en hann var fyrir, svo sem, tveimur árum síðan.
Auk þessa höfum við mætt á ýmsa viðburði þar sem fjallað er um húsnæðismál eða málefni sem við teljum snerta hagsmuni heimilanna. Það háir okkur að slíkir viðburðir eru oft haldnir á tímum þar sem við, ásamt flestu vinnandi fólki, erum föst í vinnu og getum ekki mætt. Ef við mögulega getum, þá mætir samt eitthvert okkar.
Við mættum t.d. nokkur á „Hrunið þið munið“ í Háskóla Íslands og vorum ekki vinsælasta fólkið á svæðinu þegar við spurðum spurninga sem köstuðu skugga á dýrðarljóma þessa „skemmtilega rannsóknarefnis“ sem hrunið var í augum Háskólafólks, og sýndum fram á að það hefði hreint ekki tekist jafn vel til í endurreisn landsins og fyrirlesarar Háskólans vildu margir vera láta.
Dropinn holar steininn og þar sem Styrmir Gunnarsson hefur bæði talað og skrifað um þessi „inngrip“ okkar, vöktu þau meiri athygli en okkur hafði órað fyrir.
 
Að lokum…
Ég bið ykkur um að halda í vonina og leggja ykkar af mörkum í baráttunni með því að líka og deila á facebook og mæta, ef við skyldum nú blása til einhverskonar viðburðar á nýju ári.
Ef eitthvert ykkar gæti séð af nokkrum krónum til að styrkja samtökin til góðra verka væri það mjög vel þegið – vegna kostnaðarsamra málaferla er frekar lítið í sjóðum okkar þessa stundina.
 
Fyrir hönd Hagsmunasamtakanna óska ég ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári!
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formaður HH
 
Reikningsnúmer málskostnaðarsjóðs:
1110-05-250427 kt. 520209-2120
Read more...

Málflutningur í skaðabótamáli vegna verðtryggðra neytendalána

ATH. Fréttin hefur verið uppfærð: Þann 15. nóvember tilkynnti Héraðsdómur Reykjavíkur að fyrirhugaðri aðalmeðferð málsins nr. E-514/2018 yrði að fresta af óviðráðanlegum orsökum.

Síðan framangreind breyting var gerð hafa borist þær upplýsingar í millitíðinni að ný tímasetning aðalmeðferðar sé komin á dagskrá héraðsdóms þann 30. janúar 2019 kl. 13:15.

Málflutningur í skaðabótamáli á vegum Hagsmunasamtaka heimilanna vegna verðtryggðra neytendalána og vanrækslu á upplýsingaskyldu fjármálastofnana um kostnað vegna verðtryggingar, fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur föstudaginn 16. nóvember.

Sérstaða málsins felst í því að á hvorn veginn sem málið fer verður niðurstaðan Hagsmunasamtökum heimilanna í vil. Aðeins þarf að fá úr því skorið hvort innleiðing Alþingis á þeim neytendarétti sem um ræðir í málinu hafi verið röng sem gerir Alþingi ábyrgt eða þá að dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 243/2015 hafi verið rangur sem gerir Hæstarétt og dómskerfið ábyrgt.

Málið er höfðað vegna hins fyrrnefnda dóms Hæstaréttar Íslands þar sem reyndi á afleiðingar þess að við lántöku höfðu ekki verið veittar fullnægjandi upplýsingar um áhrif verðtryggingar á lánskostnað og árlega hlutfallstölu kostnaðar samkvæmt lögum um neytendalán. Þrátt fyrir að EFTA-dómstólinn teldi að taka yrði mið af áhrifum verðtryggingar við útreikning lánskostnaðar, ákvað Hæstiréttur Íslands hins vegar að túlka íslensk lög þveröfugt þannig að ekki hefði þurft að veita neinar upplýsingar um kostnað af völdum verðtryggingar.

Hvort sem um er að ræða ranga túlkun Hæstaréttar eða að íslensk lög hafi verið í beinni andstöðu við tilskipun EES um neytendalán, eru slík brot gegn EES reglum almennt skaðabótaskyld. Hefðu þær reglur sem um ræðir komist rétt til framkvæmda hefði átt að vera óheimilt að innheimta þann kostnað sem ekki var réttilega upplýst um. Tjón lántakenda er bein afleiðing þess að þeir hafi ekki notið þeirrar verndar sem í þessu átti að felast þegar á reyndi. Fyrir dómi er því krafist skaðabóta sem nema öllum aukakostnaði sem greiddur hefur verið vegna verðtryggingar viðkomandi láns.

Málarekstur þessi er beint framhald af dómsmáli sem var fyrst höfðað árið 2012 og hefur nú leiðst í þennan farveg. Markmið Hagsmunasamtaka heimilanna með þessum málarekstri hefur verið að ná fram fordæmisgefandi dómi um fulla leiðréttingu ólögmætrar verðtryggingar. Allar líkur eru á því að fordæmisgefandi dómur um þetta úrlausnarefni geti haft verulega þýðingu fyrir neytendur sem tóku almenn neytendalán frá og með árinu 1994 og þar með talin húsnæðislán frá og með 2001.

Málarekstur sem þessi er dýr og öll framlög eru vel þegin til að styðja Hagsmunasamtökin hagsmunabaráttu heimilanna frammi fyrir dómstólum. Tekið er við framlögum í málskostnaðarsjóð Hagsmunasamtaka heimilanna með millifærslum á reikningsnúmer 1110-05-250427 kt. 520209-2120.

Málflutningur í málinu nr. E-514/2018, fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur föstudaginn 16. nóvember kl. 13:15 – 16:00 í dómsal 201.

Read more...

Opinn spjallfundur um málefni heimilanna

Ágætu félagsmenn og áhugafólk um málefni heimilanna.

Nú er komið að fyrsta opna spjallfundi Hagsmunasamtaka heimilanna þetta haustið. Fundurinn verður haldinn næstkomandi þriðjudag, 4. september, kl. 20-22, á Café Meskí, Fákafeni 9 (í innri sal kaffihússins).

Að þessu sinni mun inntak fundarins snúast um stöðu neytendaverndar á fjármálamarkaði og hvert við stefnum í neytendavernd á Íslandi.

Við hvetjum félagsmenn sem og aðra til að nýta sér þetta tækifæri og mæta til að taka þátt í umræðum um málefni heimilanna!

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna.

Read more...

Erindi til Alþingismanna: Fyrir hvern og hverja situr þú á Alþingi?

[Svohljóðandi erindi hefur verið sent öllum sitjandi Alþingismönnum.]

Ágæti alþingismaður,

Meðfylgjandi er yfirlýsing frá Hagsmunasamtökum heimilanna sem send var nýlega á fjölmiðla. Við förum fram á að þú lesir hana.

Eins og þú sérð koma þarna fram staðfestar tölur um fjölda þeirra heimila sem seld hafa verið nauðungaruppboðum á árunum frá hruni.

Málflutningur Hagsmunasamtaka heimilanna hefur ekki hlotið mikinn hljómgrunn en hér er hann algjörlega staðfestur. Margir hafa beðið um “tölur um fjölda” en þær hafa ekki legið fyrir skjalfestar fyrr en núna.

Á bakvið hverja einustu tölu eru að meðaltali 3 – 4 einstaklingar. Grundvallarréttindi hafa verið brotin með grófum hætti á  þessum mönnum, konum og börnum!

Því spyrjum við þig, ágæti alþingismaður, fyrir hvern eða hverja ert þú á Alþingi?

Ert þú til í að leggja okkur hjá Hagsmunasamtökum heimilanna lið í þessari ójöfnu baráttu okkar fyrir því að lögum sé fylgt og stjórnarskrárbundin réttindi almennings sér virt?

Já, barátta okkar snýst einfaldlega um að lögum sé fylgt og réttindi okkar virt!

Af hverju hefur tekið 10 ár að berjast fyrir sjálfsögðum, lögbundnum réttindum?!

Staðfestar tölur um 10.000 heimili og 117.000 árangurslaus fjárnám eru sláandi og ljóst að bankamenn eru búnir að „hreinsa upp“ heimili sem jafngilda öllum heimilum í Kópavogi, svo ekki sé minnst á öll fjárnámin. Þarna eru tugþúsundir einstaklinga að baki og skaði sem aldrei verður mældur.

En þó þarna væri bara um „einn“ að ræða, eina fjölskyldu sem lent hefði í þessum hremmingum, bæri ykkur skylda til að bregðast við.

Margfaldið þá skyldu með 10.000 og GERIÐ EITTHVAÐ!!

Það eina sem ekki er í boði er að gera ekki neitt!

Viljir þú leggja okkur lið biðjum við þig um að gefa þig fram með því að svara þessum pósti.

Óskir þú frekari upplýsinga áður en þú gefur okkur svar, skaltu svara þessum pósti og óska eftir frekari upplýsingum því við erum tilbúin til að hitta þig og setja þig inn í þessi mál.

Það eina sem ekki er í boði er að hunsa okkur og gera ekkert. Með því ertu í raun að lýsa því yfir að þér finnist í lagi að réttindi og lög séu brotin á varnarlausu fólki í þágu sterkra hagsmunaaðila.

Við vonumst til að heyra frá þér sem allra fyrst,

Kær kveðja
fyrir hönd Hagsmunasamtaka heimilanna,

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
formaður

Read more...

Staðfest: 10 þúsund fjölskyldur sviptar heimilum sínum á 10 árum

Í síðustu viku svaraði dómsmálaráðherra fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um nauðungarsölur og gjaldþrotaskipti. Svar hennar staðfesti þann málflutning Hagsmunasamtaka heimilanna að heimilum landsins hafi verið fórnað á altari fjármálafyrirtækjanna í kjölfar hrunsins 2008.

Samanlagðar heildartölur fyrir einstaklinga á árunum 2008-2017 eru sem hér segir:

Nauðungarsölur: 8.846

Gjaldþrotaskipti: 2.973

Árangurslaus fjárnám: 116.939

Að auki hafði áður komið fram í svari félagsmálaráðherra í júní síðastliðnum að 349 fasteignir skuldara hefðu verið seldar til kröfuhafa í tengslum við greiðsluaðlögun.

Við getum því staðfest alls 9.195 tilvik um nauðungarsölu eða sölu vegna greiðsluaðlögunar á tíu ára tímabili eða að jafnaði um 920 á ári sem þýðir að allar líkur eru á því að heildarfjöldinn verði komin vel yfir 10.000 í lok þessa árs.

Málflutningur Hagsmunasamtaka heimilanna sem hefur ítrekað verið véfengdur og enn oftar hunsaður af yfirvöldum, er hér með opinberlega staðfestur.

Fjármálafyrirtæki hafa einnig leyst til sín heimili vegna gjaldþrotaskipta, nauðasamninga, nauðasamninga til greiðsluaðlögunar eða á annan hátt samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti. Í svari dómsmálaráðherra kom fram að engar tölur eru til yfir fjölda þessara heimila. Einnig kom fram í svari fjármálaráðherra í júní síðastliðnum að engar slíkar tölur lægju fyrir varðandi sértæka skuldaaðlögun einstaklinga.

Hagsmunasamtök heimilanna telja óviðunandi að engar tæmandi opinberar upplýsingar liggi fyrir um fjölda þessarra heimila. Þær tölur vantar því í sundurliðun á fjölda þeirra sem hafa misst heimili sín frá hruni. Þar sem fólk leitar yfirleitt allra leiða til að forðast nauðungarsöluferli, er varlegt er að áætla að þar sé a.m.k. um jafn mörg heimili að ræða og þau sem voru seld nauðungarsölu.

Það má því gera ráð fyrir að heimilin sem hafa verið afhent fjármálafyrirtækjum á silfurfati séu á bilinu 15-20.000. Til að setja þennan fjölda í samhengi eru heimili landsins u.þ.b. 137.000 en í Kópavogi búa 36.000 manns þannig að þar eru heimili í mesta lagi 17.000. Þetta eru 11 - 14,5% heimila landsins eða líkt og Kópavogur hefði verið þurrkaður út og jafnvel Garðabær líka!

117.000 árangurslaus fjárnám

Fjöldi árangurslausra fjárnáma er sérstaklega sláandi og mun meiri en við hjá Hagsmunasamtökunum gerðum okkur grein fyrir.

Staða þeirra sem lent hafa í árangurslausu fjárnámi er skelfileg. Þetta er stór hópur fólks sem er ekki gjaldþrota en er haldið í endalausu skuldafangelsi án allra réttinda. Árangurslaust fjárnám er aðferð bankamanna til að halda fólki „í snörunni“ og herða stöðugt að til að mjólka síðustu blóðdropana.

Flest hefur þetta fólk misst húsnæði sitt en það getur ekki tekið lán og á erfitt með að fá leigt, það á ekki rétt á neinni fyrirgreiðslu hjá bönkum þar sem það sætir oft mikilli niðurlægingu, það fær ekki kreditkort og getur ekki eignast neitt. Það getur ekki einu sinni leigt sér vinnutæki  í einn dag fyrir kr. 5000 nema einhver skrifi upp á leiguna fyrir það eins og við höfum nýlegt dæmi um.

116.939! Við hljótum að staldra við þessa tölu. Þó ekki sé ljóst hversu margir einstaklingarnir eru á bakvið hana er  ljóst að þeir skipta þúsundum. Þetta samsvarar því að einn af hverjum þremur Íslendingum hafi lent í árangurslausu fjárnámi. Þetta eru 45 árangurlaus fjárnám á hverjum virkum degi í 10 ár! Já það er nóg að gera hjá bankamönnum.

Fæst ber þetta fólk sök á stöðu sinni, sökin liggur hjá þeim sem beita refsivendinum af miskunnarleysi, bankamönnunum sjálfum!

Ábyrgð alþingismanna – Rannsóknarskýrsla heimilanna

Það eru 10 ár frá hruni og löngu tímabært að fara í saumana á þessum málum og leiðrétta óréttlætið sem tugþúsundir hafa orðið fyrir. Þetta eru ekki „gömul mál“, þau eru enn þá í gangi og afleiðingar þeirra hafa verið og eru enn, hræðilegar fyrir tugþúsundir.

Við krefjumst þess að gerð verði óháð rannsóknarskýrsla um aðgerðir stjórnvalda eftir hrun, Rannsóknarskýrsla heimilanna, því á bak við hvert heimili sem fjármálafyrirtækin leystu til sín eru þjáningar nokkurra einstaklinga, manna, kvenna og barna. Hvert og eitt þeirra á rétt á skýringum, leiðréttingum og RÉTTLÆTI!

Hagsmunasamtök heimilanna kunna Ólafi Ísleifssyni alþingismanni bestu þakkir fyrir samstarfið og elju hans við að leita svara. Án hans lægju þessar upplýsingar ekki fyrir.

Nú er komið að ykkur hinum sem sitjið á Alþingi. Það er ykkar hlutverk að sjá til þess að ekki séu brotin mannréttindi á þegnum þessa lands. Hver ykkar eru tilbúin að rísa yfir flokkadrætti og krefjast rannsóknar og réttlætis fyrir þær þúsundir sem brotið hefur verið á?

Það er erfitt að ímynda sér verri afglöp í starfi en að hunsa brotin sem framin hafa verið á tugþúsundum á 10 ára tímabili. Alþingi veitti bönkunum skjólið til að fara gegn heimilunum með þessum hætti og það er Alþingis að leiðrétta eigin mistök.

Alþingismenn og konur það er löngu kominn tími til aðgerða, boltinn er hjá ykkur!

Almenningur er ekki fóður fyrir fjármálakerfið – við krefjumst Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Read more...

Ekki þarf lengur að framvísa frumriti við innheimtu skuldabréfs

Hagsmunasamtök heimilanna vekja athygli á því að samkvæmt nýföllnum dómi Landsréttar virðist mega krefja skuldara um greiðslu skuldar þó kröfuhafi geti ekki framvísað frumriti skuldabréfsins. Samkvæmt dómnum er nóg að hafa afrit skuldabréfs og að líkur séu á því að kröfuhafinn hafi einhvern tímann haft frumrit skuldabréfsins undir höndum, jafnvel þegar svipta á fólk lífsstarfi sínu.

Dómurinn er ávísun á stórfellda réttaróvissu þegar tekist er á um réttmæti skulda og hver sé eigandi skuldarinnar ef frumrit finnast ekki, því afrit skuldabréfa geta legið víða. Farið verður fram á áfrýjun til Hæstaréttar og við verðum öll að vona að þar geri Hæstiréttur það eina rétta í stöðunni og snúi dómi Landsréttar við.

Eins alvarlegt fordæmi og þessi dómur skapar, þá er hitt alvarlegra að hann er einungis einn dómurinn enn, í langri röð dóma á öllum dómstigum, þar sem málum er snúið á hvolf til að verja hagsmuni fjármálafyrirtækja og/eða hins svo kallaða „kerfis“. Þessi dómur er gott dæmi um það því með honum er allri sönnunarbyrði snúið við.

Meginreglan er sú að sá sem heldur einhverju fram verður að sanna staðhæfingu sína með óyggjandi hætti. Bankinn hélt því fram að hann hefði eignast skuldabréfið en gat ekki fært fram óyggjandi sannanir fyrir þeirri staðhæfingu. Það kom því í hlut skuldarans að reyna að afsanna þá staðhæfingu. Þar með var meginreglunni um sönnunarbyrði snúið við, skuldara í óhag.

Það má líkja þessu við að einstaklingur sem er sakaður um afbrot þurfi að sanna sakleysi sitt í stað þess að ákærandinn þurfi að sanna sök. Það væri í andstöðu við þá meginreglu að maður skuli teljast saklaus uns sekt er sönnuð.

Málið um „týnda skuldabréfið“ er dæmi um mál sem aldrei hefði átt að þurfa að fara fyrir dómstóla. Bankinn getur ekki framvísað skuldabréfinu og þar hefði málið átt að enda.

Fjármálafyrirtækin, sem hafa heilu lögfræðideildirnar í vinnu, taka litla áhættu með því að fara með mál sem þessi fyrir hliðholla dómstóla. Fyrir einstakling sem ekki vill láta traðka á réttindum sínum er áhættan aftur á móti mikil og kostnaðurinn meiri en venjulegt fólk ræður við.

Það á ekki að vera á „gráu svæði“ og „opið fyrir túlkun“ hvort fjármálafyrirtæki þurfi að framvísa frumriti við lok uppboðs. Leiki minnsti vafi á rétti kröfuhafa á skuldari/neytandi að njóta vafans. Þegar þar að auki er tekist á um lífsstarf og heimili skuldara ríður enn meira á því að lög- og stjórnarskrárvarin réttindi hans séu virt.

Skuldarinn hefði aldrei átt að þurfa að fara með svona „skýrt mál“ fyrir dóm og það að dæmt hafi verið gegn skýrum réttindum hans er vægast sagt ámælisvert og segir meira en mörg orð um veika stöðu skuldara gagnvart sterku og miskunnarlausu „kerfi“ samspillingar og fjármagns.

Fórnarlömbin í þessum „leikjum“ valdahafanna eru einstaklingar sem brotið er á af fjársterkum aðilum, menn, konur og börn, heimili landsins.

Hver kemur þeim til varnar?

Read more...

Aðvörun til fjárfesta: kaupið ekki köttinn í sekknum!

Um þessar mundir stendur yfir útboð á hlutafjáreign Kaupþings í Arion banka. Að undanförnu hafa einnig komið fram hugmyndir um sölu á eignarhlutum ríkisins í stóru viðskiptabönkunum. Af þessu tilefni er rétt að vara fjárfesta við því að kaupa ekki köttinn í sekknum þegar hlutafé íslenskra banka er annars vegar. Margt bendir til þess að eignasöfn þeirra séu stórlega ofmetin og þar innan um leynist ýmsar gallaðar vörur. Eftirfarandi eru nokkur staðfest dæmi um slíkt.

Á síðasta ári þurfti Arion banki að niðurfæra tæpa 5 milljarða af lánum sínum til kísilmálmverksmiðju Sameinaðs sílikons í Helguvík. Virðist ekki allt hafa verið með felldu í rekstri félagsins og er það nú til rannsóknar vegna gruns um margvíslegt misferli, þar á meðal fjársvik. Óvíst er hve margar fleiri slíkar beinagrindur kunna að leynast í skápum stóru viðskiptabankanna.

Þann 8. mars síðastliðinn kvað Hæstiréttur Íslands upp fordæmisgefandi dóm í máli Arion banka þess efnis að bankanum hefði verið óheimilt að krefjast dráttarvaxta af skuldum einstaklinga á meðan þeir nutu svokallaðs greiðsluskjóls vegna umsóknar um greiðsluaðlögun. Komið hefur fram að það sama hafi tíðkast af hálfu Landsbankans og mögulega fleiri lánveitenda. Vegna dómsins munu þeir þurfa að endurgreiða umtalsverðar fjárhæðir oftekinna vaxta. Samkvæmt árshlutareikningum þeirra hefur ekki verið lagt endanlegt mat á heildaráhrif dómsins, en Hagsmunasamtökum heimilanna er kunnugt um einstök tilvik þar sem slíkar fjárhæðir hlaupa á milljónum króna.

Þann 12. október 2017 kvað Hæstiréttur Íslands upp dóm í máli Íslandsbanka þar sem bankanum var talið óheimilt að hækka vexti húsnæðislána á grundvelli endurskoðunarákvæðis sem braut gegn lögum um neytendalán. Samkvæmt ársreikningi bankans hefur hann skuldfært 800 milljónir króna vegna dómsins en hefur þó ekki lokið við endurgreiðslu til allra hlutaðeigandi lántakenda. Alls óvíst er hversu raunhæft mat bankans er á umfanginu en Hagsmunasamtök heimilanna vita um tilvik þar sem þurft hefur að endurgreiða hundruðir þúsunda króna af venjulega húsnæðisláni. Einnig hafa samtökin staðfestar heimildir fyrir því að lán með samskonar skilmálum sé að finna í lánasöfnum Arion banka og Landsbankans, en upplýsingar um mögulegt umfang þeirra liggja ekki fyrir.

Eins og framangreind staðfest dæmi bera vott um eru enn ástæða til efasemda um lögmæti og þar með gæði lánasafna bankanna. Auk þess má nefna að ekki eru öll kurl komin til grafar um vexti lána sem voru með ólögmætri gengistryggingu, fyrningu vaxta og verðbóta auk ýmissa fleiri álitaefna sem eru nú þegar til úrlausnar eða á leiðinni fyrir dómstóla. Er því ljóst að umtalsverð óvissa ríkir enn um raunverulega stöðu bankakerfisins. Að svo stöddu eru því kaup á eignarhlutum í bönkum ekki aðeins áhættusöm, heldur fela þau beinlínis í sér veðmál gegn íslenskum almenningi og heimilum.

Þeirri óvissu sem ríkir um raunverulega stöðu bankanna verður ekki útrýmt nema fram fari rannsókn á þeim aðgerðum sem ráðist var í gagnvart neytendum í kjölfar hruns bankakerfisins og hvernig það var í raun endurreist á herðum heimila landsins.

Almenningur er ekki fóður fyrir bankana!

Read more...

Opinn spjallfundur um málefni heimilanna

Ágætu félagsmenn og áhugafólk um málefni heimilanna.

Nú er komið að mánaðarlegum opnum spjallfundi Hagsmunasamtaka heimilanna. Fundurinn verður haldinn næstkomandi þriðjudag, 15. maí, kl. 20-22, á Café Meskí, Fákafeni 9 (í innri sal kaffihússins).

Við hvetjum félagsmenn sem og aðra til að nýta sér þetta tækifæri og mæta til að taka þátt í umræðum um málefni heimilanna!

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna.

Read more...
Subscribe to this RSS feed

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna