Menu
RSS

Hagsmunasamtök heimilanna 6 ára

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð þann 15. janúar 2009 og eiga því 6 ára afmæli í dag. Á þeim tíma sem liðinn er frá stofnun samtakanna hefur starfsemi þeirra vaxið og eflst, en félagsmenn eru orðnir 8.768 talsins. Á þessum tímamótum hyllir jafnframt undir að á þessu ári kunni línur loksins að fara að skýrast um niðurstöður í stærstu baráttumálum heimilanna. Stjórn og starfsmenn samtakanna óska félagsmönnum til hamingju með afmælið, og velfarnaðar á nýju ári.

Read more...

Dagskrá og fundargögn aðalfundar 15. maí 2014

 Aðalfundur Hagsmunasamtaka heimilanna 2014 verður haldinn fimmtudaginn 15. maí kl. 20:00 í sal Stýrimannaskólans við Háteigsveg (2. hæð).

Dagskrá:

 1. Fundarsetning, skipun fundarstjóra og ritara.
 2. Skýrsla stjórnar 2013-2014: Vilhjálmur Bjarnason, formaður stjórnar.
 3. Reikningar samtakanna: Guðrún Harðardóttir, gjaldkeri stjórnar.
 4. Tillaga stjórnar um félagsgjöld.
 5. Tillögur að breytingum á samþykktum.
  1. Tillaga að breytingu á fjölda stjórnarmanna.
  2. Tillaga að breytingu á hámarkslengd stjórnarsetu.
  3. Tillaga að breytingu um boðun funda að ósk stjórnarmanna.
  4. Tillaga að breytingu um forföll og fjarveru stjórnarmanna.
 6. Kosning sjö manna stjórnar.
 7. Kosning sjö varamanna í stjórn
 8. Kosning skoðunarmanna reikninga.
 9. Önnur mál

Framboðsfrestur er til 15. maí kl. 20:00 á fundarstað.

Framboðskynningar og tillögur að breytingum á samþykktum HH má senda á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða afhenda fundarstjóra skriflega á fundarstað við byrjun fundar.

Félagsmenn eru hvattir til að gefa sér tíma til að mæta á aðalfundinn og hafa þannig áhrif á starf samtakanna, meðal annars með vali á nýrri stjórn!

Fráfarandi stjórn hyggst leggja til að stjórn HH fái heimild aðalfundar til að ákvarða félagsgjöld næsta árs á bilinu 2.400-3.000 kr., eftir því sem þurfa þykir með hliðsjón af fjárhag samtakanna og fyrirliggjandi verkefnum.

Auk þess hyggst fráfarandi stjórn leggja fyrir fundinn eftirfarandi tillögur að breytingum á samþykktum HH.

Núgildandi 1. mgr. 9. gr.: "Stjórn samtakanna skal skipuð sjö mönnum og sjö varamönnum sem kjörnir skulu á aðalfundi samtakanna. Stjórnin kýs sér formann, varaformann, ritara og gjaldkera á fyrsta stjórnarfundi að loknum aðalfundi." - orðist svo: "Stjórn samtakanna skal skipuð minnst 10 en mest 14 manns, þar af 7 aðalmönnum og 3-7 varamönnum, sem kosnir skulu á aðalfundi samtakanna. Stjórnin kýs sér formann, varaformann, ritara og gjaldkera á fyrsta stjórnarfundi að loknum aðalfundi."

Núgildandi 2. mgr. 9. gr.: "Stjórnarmaður sem setið hefur full fimm kjörtímabil telst hafa lokið stjórnarsetu sinni fyrir samtökin og getur ekki verið kjörinn aftur í stjórn. Ákvæðið gildir ekki um kjörtímabil varamanna." - orðist svo: "Stjórnarmaður sem setið hefur full fimm kjörtímabil skal taka hlé á stjórnarsetu í það minnsta eitt kjörtímabil. Að því loknu getur viðkomandi boðið sig fram til stjórnarsetu á ný. Ákvæðið gildir ekki um kjörtímabil varamanna."

Núgildandi 4. mgr. 9. gr.: "Stjórnin skal koma saman til fundar að minnsta kosti mánaðarlega og skal hún halda fundargerðir. Að öðru leyti kveður stjórnarformaður stjórnina til fundar, þegar honum þykir þörf og skylt er honum að boða til fundar í stjórninni þegar einn stjórnarmaður óskar þess." - orðist svo: "Stjórnin skal koma saman til fundar að minnsta kosti mánaðarlega og skal hún halda fundargerðir. Að öðru leyti kveður stjórnarformaður stjórnina til fundar, þegar honum þykir þörf og skylt er honum að boða til fundar í stjórninni þegar tveir stjórnarmenn óska þess."

Núgildandi 5. mgr. 9. gr.: "Stjórnarmenn skulu boða forföll, komist þeir ekki á stjórnarfund. Nú sækir aðalmaður ekki stjórnarfundi um þriggja mánaða skeið. Afsali hann sér þá sæti sínu í stjórn, nema um lögmæta ástæðu sé að ræða, taki sæti í varastjórn og fyrsti varamaður taki sæti í stjórn í hans stað." - orðist svo: "Stjórnarmenn skulu boða forföll, komist þeir ekki á stjórnarfund. Nú sækir aðalmaður ekki stjórnarfundi um sex vikna skeið. Afsali hann sér þá sæti sínu í stjórn, nema um lögmæta ástæðu sé að ræða, taki sæti síðasta manns í varastjórn og fyrsti varamaður taki sæti í stjórn í hans stað."

Read more...

Áskorun á Eygló Harðardóttur húsnæðismálaráðherra

Félagsfundur Hagsmunasamtaka heimilanna sem haldinn var hinn 27. mars 2014 samþykkti að senda húsnæðismálaráðherra áskorun í ljósi nýjust upplýsinga um framgang máls félagsmanna í Hagsmunasamtökum heimilanna nr. E-4521/2013 hjá Héraðsdómi Reykjavíkur.

Samtökin skora á Eygló Harðardóttur, húsnæðismálaráðherra og æðsta yfirmann Íbúðalánasjóðs að leggja það fyrir stjórnendur sjóðsins að falla frá kröfu um frávísun málsins, svo að fást megi efnileg niðurstaða um hvort útfærsla verðtryggingar neytendalána og þar með talið húsnæðislána frá janúar 2001 hafi brotið í bága við lög um neytendalán nr. 121/1994 og teljist til óréttmætra viðskiptahátta skv. lögum nr. 57/2005 líkt og er niðurstaða ákvörðunar Neytendastofu nr. 8/2014.

Íbúðalánasjóður hefur nú þegar tafið dómsmálið um rúmt ár með frávísunarkröfum sem hafa ekki þjónað neinum öðrum tilgangi en að aftra því að málið hljóti efnislega meðferð. Eitt brýnasta hagsmunamál heimilanna er að fá skorið úr um ólögmæti verðtryggðra neytendalána. Ekki er boðlegt að ala á óvissu um hvort heimilt hafi verið að innheimta verðbætur eða annan lánskostnað umfram þær greiðsluáætlanir sem neytendur hafa samþykkt og undirgengist.

Þá er minnt á að í samræmi við 5. tölulið þingsályktunar nr. 1/142 um aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi hefur verið lögfest flýtimeðferð dómsmála vegna vísitölutengdra lána er varða skuldavanda heimilanna, samkvæmt frumvarpi innanríkisráðherra til laga nr. 80 frá 2. júlí 2013.

Fyrir hönd félagsfundar og stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna.

Vilhjálmur Bjarnason ekki fjárfestir, formaður stjórnar HH.

Read more...

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna