Menu
RSS

Kynning á niðurstöðum dóms um verðtryggð neytendalán

Á félagsfundi Hagsmunasamtaka heimilanna þann 25. febrúar síðastliðinn var fjallað um niðurstöður dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 243/2015 um verðtryggð neytendalán sem samtökin stóðu að. Dómurinn féll því miður ekki neytendum í hag og er því ástæða til að kynna þá niðurstöðu sérstaklega ásamt greiningu á rökstuðningi Hæstaréttar, sem fór þvert gegn ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins um þau álitaefni sem reyndi aðallega á í málinu. Meðfylgjandi eru kynningarglærur frá fundinum en í þeim er einnig fjallað um möguleg viðbrögð við dómnum og þau skref sem í framhaldinu koma til geina í því skyni að leitta réttar neytenda vegna þeirra óréttmætu byrða sem verðtryggingin hefur lagt á langsflest heimili landsins.

Read more...

Dagar verðtryggðra neytendalána taldir

Eitt stærsta verkefni Hagsmunasamtaka heimilanna undanfarin ár hefur verið málarekstur fyrir dómstólum, þar sem hefur verið látið reyna á lögmæti verðtryggðra neytendalána. Nú eru liðin þrjú ár síðan mál var höfðað í því skyni gegn Íbúðalánasjóði. Upphaflega var gert ráð fyrir að málið gæti fengið flýtimeðferð og voru jafnvel sett lög í því skyni, en engu að síður hefur það undið margvíslega upp á sig og tafist svo mikið sem raun ber vitni. Það er því nokkuð ánægjuefni að málið hefur loksins komist á dagskrá Hæstaréttar Íslands til efnislegrar meðferðar, þann 20. nóvember næstkomandi. Á þessum tímamótum er kannski við hæfi að líta yfir farinn veg og rifja upp framgang málsins frá upphafi.

15. mars 2012 - Málskostnaðarsjóður HH stofnaður
18. október 2012 - Mál höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur
18. desember 2012 - Íbúðalánasjóður krefst frávísunar
4. apríl 2013 - Málflutningur um frávísunarkröfu í héraði
30. apríl - Héraðsdómur úrskurðar og vísar málinu frá dómi
14. maí 2013 - Frávísun kærð til Hæstaréttar Íslands
29. maí 2013 - Hæstiréttur staðfestir frávísunarúrskurð
22. október 2013 - Mál höfðað að nýju fyrir héraðsdómi
16. janúar 2014 - Íbúðalánasjóður krefst frávísunar
28. mars 2014 - Héraðsdómari úrskurðar sig vanhæfan í málinu
9. apríl 2014 - Úrskurður um hæfi dómara kærður til Hæstaréttar
30. apríl 2014 - Hæstiréttur úrskurðar héraðsdómara hæfan
16. maí 2014 - Málflutningur um frávísunarkröfu í héraði
19. maí 2014 - Héraðsdómur úrskurðar og hafnar frávísun
3. september 2014 - Ákveðið að aðalmeðferð í héraði verði 23. október
21. október 2014 - Aðalmeðferð í héraði frestað til 13. nóvember
24. október 2014 - Aðalmeðferð í héraði frestað til 8. desember
28. nóvember 2014 - Dómstjóri ákveður að héraðsdómur verði fjölskipaður
28. nóvember 2014 - Aðalmeðferð í héraði frestað til 5. janúar 2015
5. janúar 2015 - Málflutningur og mál dómtekið í héraði
6. febrúar 2015 - Dómsuppkvaðning í héraði og Íbúðalánasjóður sýknaður
27. mars 2015 - Héraðsdómi áfrýjað til Hæstaréttar Íslands
13. maí 2015 - Greinargerð áfrýjenda lögð fram
11. júní 2015 - Greinargerð Íbúðalánasjóðs lögð fram
20. nóvember - Aðalmeðferð fyrir Hæstarétti Íslands

Dagar verðtryggðra neytendalána verða taldir niður hér hægra megin á síðunni fram að málflutningi. Einnig er rétt að minna á að tekið er við frjálsum framlögum til að standa straum af kostnaði við málaferlin í sérstakan málsóknarsjóð á reikning nr. 1110-05-250427, kt. 520209-2120.

Read more...

Telur Hæstiréttur íslenska ríkið bera ábyrgð á óréttmæti verðtryggingar?

Hæstiréttur Íslands kvað þann 13. maí síðastliðinn upp dóm í máli 160/2015 þar sem tekist var á um fjárnám á grundvelli verðtryggðs fasteignaláns. Þá um kvöldið var svo fullyrt í umfjöllun fjölmiðla, þar á meðal RÚV, að með dómnum hefði verðtryggingin staðist áhlaup af hendi Hagsmunasamtaka heimilanna. Daginn eftir var nánast fullyrt, og aftur af hálfu RÚV, að málið væri fordæmisgefandi fyrir ōll ōnnur dómsmál gegn verðtryggingunni. Eftir að hafa kynnt okkur dóminn telja Hagsmunasamtök heimilanna hinsvegar að fullyrðingar í þá átt séu ótímabærar, og þvert á móti sé mörgum spurningum enn ósvarað. Rétt er að taka fram að Hagsmunasamtök heimilanna hafa enga aðkomu að því máli sem dæmt var um, heldur mun mál sem félagsmenn í samtökunum eiga aðild að líklega verða flutt fyrir Hæstarétti með haustinu.

Það mál sem hér um ræðir sneri að miklu leyti að því hvort verðtrygging sem slík gæti talist óréttmætur skilmáli samkvæmt reglum á sviði neytendaverndar sem innleiddar hafa verið í íslenskan rétt á grundvelli EES-samningsins. Niðurstaðan er að svo sé ekki sem kemur í sjálfu sér ekki mikið á óvart. Hagsmunasamtök heimilanna hafa ávallt lagt áherslu að þó að heimilað sé með lögum að veita verðtryggð lán sé þó ekki þar með sjálfgefið að öll slík lán hljóti að vera lögleg.

Málatilbúnaður samtakanna hefur fyrst og fremst beinst að útfærslu verðtryggingar neytendalána og þeirri upplýsingaskyldu um kostnað vegna hennar sem EES-reglur um neytendalán og lög sem innleiða þær reglur hér á landi kveða á um. Hæstiréttur tekur undir það í dómi sínum að lögmæti slíkra lána sé einmitt háð þessum sömu skilyrðum, en beygir hinsvegar af leið með því að skýra ákvæði 1. mgr. 12. gr. laga nr. 121/1994 á þá leið að í því hafi falist það skilyrði að miða skyldi greiðsluáætlun við 0% verðbólgu. Þetta er hinsvegar í andstöðu við Tilskipun 87/102/EBE um neytendalán eins og hún varð skýrð með ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins í máli E-27/13.

Þessi niðurstaða skýtur skökku við, því ákvæðið sem um ræðir kveður skýrt á um að veita skuli greinargóðar upplýsingar um allan kostnað og gjöld sem neytandi muni þurfa að greiða vegna lántöku. Þar með taldar hljóta að vera verðbætur, sem eru ávallt þekktar á lántökudegi því lögum samkvæmt skal miða við vísitölu síðasta mánaðar og auk þess eru breytingar á henni undanliðna 12 mánuði ávallt þekktar, þ.e. ársverðbólga. Þannig hefðu upplýsingar um kostnaðinn með réttu átt að endurspegla slíkan veruleika, en á hinn bóginn er tæpast raunhæft að miða við 0% verðbólgu, enda var það varla ætlan löggjafans á sínum tíma miðað við fyrirliggjandi gögn þar að lútandi.

Enn fremur telja Hagsmunasamtök heimilanna það áhyggjuefni að í dómi Hæstaréttar skuli ekki gerður skýrari greinarmunur en raun ber vitni á annars vegar vísitölu neysluverðs sem mælikvarða, og hinsvegar þeim fjárhæðum sem neytendur þurfa að greiða í verðbætur af verðtryggðum lánum vegna breytinga á þeim mælikvarða, sem til langs tíma hefur nánast alltaf verið til hækkunar og verið íþyngjandi fyrir neytendur. Loks er það varhugavert að í dómnum er því beinlínis haldið fram að óréttmæti verðtryggðra neytendalána hér á landi sé rangri innleiðingu EES-tilskipunar um að kenna, sem getur mögulega leitt til skaðabótaskyldu ríkisins. Hagsmunasamtök heimilanna líta svo á að lánveitendur hefðu mátt vita betur um hvernig þeim væri skylt að haga upplýsingagjöf til neytenda um kostnað í formi verðbóta, og verði því að axla ábyrgð á því að hafa brotið gegn þeim skyldum. Það geti því ekki talist sanngjörn útkoma að leggja þá ábyrgð á herðar íslenska ríkisins.

Read more...
Subscribe to this RSS feed

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna