Menu
RSS

Leiðrétting stjórnvalda eykur flækjustig og sniðgengur neytendarétt

Nú þegar niðurstöður leiðréttinga stjórnvalda á verðtryggðum húsnæðislánum hafa verið birtar, er rétt að hvetja umsækjendur til að kynna sér útkomur þeirra rækilega áður en þeir staðfesta þær og veita samþykki sitt fyrir þeim. Fyrstu athuganir gefa til kynna að niðurstöður séu í mörgum tilvikum langt frá þeim væntingum sem skapaðar hafa verið. Eins og Hagsmunasamtök heimilanna hafa margoft bent á taka leiðréttingar stjórnvalda á engan hátt mið af lögum um neytendalán.

Þann 24. nóvember síðastliðinn birti EFTA-dómstóllinn ráðgefandi álit sitt þess efnis að það bryti í bága við tilskipun um neytendalán að miða útreikning lánskostnaðar við 0% verðbólgu. Þetta atriði er meðal annars tekist á um í máli sem Hagsmunasamtök heimilanna reka fyrir félagsmenn, en það verður flutt þann 5. janúar næstkomandi í Héraðsdómi Reykjavíkur. Fram til þessa hafa íslenskir dómstólar aldrei farið þvert gegn ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins í neinu máli.

Sú leiðrétting sem fengist með dómi sem félli neytendum í hag myndi ganga mun lengra en sú leiðrétting sem stjórnvöld hafa nú boðið upp á. Þessu hafa stjórnvöld brugðist við með nýrri eftiráforsendu fyrir leiðréttingunni í reglugerð nr. 1160/2014 frá 22. desember, sem kveður á um að ríkissjóður taki yfir endurkröfur neytenda að því marki sem nemur fjárhæð hinnar opinberu leiðréttingar, verði niðurstöður dómstóla neytendum í hag. Þannig virðist framkvæmdavaldið ætla að blanda sér í úrlausn dómstóla á einkaréttarlegum ágreiningi, en slík afskipti brjóta í bága við stjórnarskrárbundna þrískiptingu ríkisvaldsins.

Opnað var fyrir þann möguleika að samþykkja niðurstöður leiðréttingar stjórnvalda eftir hádegi 23. desember síðastliðinn og er frestur til að samþykkja niðurstöður 90 dagar eða til og með 23. mars 2015. Er því óþarfi að gera það í flýti, heldur er miklu frekar ástæða til að fara vandlega yfir niðurstöðurnar áður en tekin er afstaða til þeirra. Einnig er rétt að benda umsækjendum á að yfirfara útreikninga á niðurstöðum leiðréttingarinnar vandlega, og hvort þær séu réttar, ekki síst í ljósi þeirra margbrotnu frádráttarliða sem lögin um leiðréttinguna kveða á um. Auk þess má benda á að með skiptingu lána í frum- og leiðréttingarlán áður en dómar falla um ólögmæti kynningar verðtryggingarinnar fyrir neytendum, eykst flækjustig leiðréttingarinnar, sem var þó nóg fyrir.

Vegna hinnar lagalegu óvissu getur mögulega verið við hæfi að samþykkja ekki leiðréttinguna undir eins heldur frekar að bíða átekta um sinn, en frestur til samþykkis er fram í marsmánuð 2015. Þetta er þó einstaklingsbundið og séu umsækjendur í vafa um hvort skuli samþykkja leiðréttingu, ráðleggja Hagsmunasamtök heimilanna þeim að leita sér óháðrar ráðgjafar um það álitaefni. Komi í ljós að fjárhæð leiðréttingar hafi í einhverjum tilvikum verið rangt reiknuð eða ráðstöfun hennar byggst á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum, er hægt að gera athugasemdir eða beina kæru til úrskurðarnefndar um leiðréttingu fasteignaveðlána á vefsíðunni leidretting.is.

Loks er því mótmælt að leiðréttingin sé notuð til þess að þvinga fram innleiðingu rafrænna skilríkja sem eru útgefin af, og í þágu, fjármálafyrirtækjanna sjálfra. Það samrýmist ekki sjónarmiðum um einstaklingsfrelsi og persónuvernd, að stjórnvöld þvingi neytendur til viðskipta við einkafyrirtæki með þessum hætti. Skorað er á stjórnvöld að endurskoða þá ákvörðun, enda ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að nota veflykil, eða venjulega undirskrift til þess að samþykkja leiðréttinguna.

Read more...

Lög um frestun nauðungarsalna

Alþingi samþykkti síðdegis í gær frumvarp innanríkisráðherra um frestun nauðungarsölu, og voru lög samkvæmt frumvarpinu birt á vef Stjórnartíðinda í gærkvöldi. Frá og með deginum í dag geta einstaklingar sem eiga yfir höfði sér nauðungarsölu á heimili sínu, óskað eftir frestun sölu fram yfir 1. mars 2015.

Skilyrði fyrir beiðni um frestun nauðungarsölu eru tvíþætt. Annars vegar að um sé að ræða íbúðarhúsnæði sem er lögheimili gerðarþola. Hinsvegar að gerðarþoli hafi sótt um leiðréttingu samkvæmt lögum um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Staðfestingu slíkrar umsóknar má nálgast í rafskjali á þjónstuvef leiðréttingarinnar hjá Ríkisskattstjóra.

Rétt er benda á að í þeim tilvikum sem uppboði er lokið en samþykkisfrestur tilboða ekki liðinn, er einnig hægt að fresta frekari aðgerðum fram yfir 1. mars 2015, en aðeins að fengu samþykki gerðarbeiðenda og hæstbjóðanda.

Lögin sem um ræðir setja tímabundið bráðabirgðaákvæði við lög nr. 90/1991 um nauðungarsölu, sem er svohljóðandi:

Nú er leitað nauðungarsölu á grundvelli 6. gr. á fasteign þar sem gerðarþoli heldur heimili og hefur skráð lögheimili og um er að ræða húsnæði sem ætlað er til búsetu samkvæmt ákvörðun skipulags- og byggingaryfirvalda og ber þá sýslumanni að verða við ósk gerðarþola sem sótt hefur um leiðréttingu fasteignaveðlána samkvæmt lögum um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána um að fresta fram yfir 1. mars 2015 töku ákvörðunar um framhald uppboðs eða ráðstöfun eignar á almennum markaði. Hafi þegar verið ákveðin ráðstöfun slíkrar fasteignar til fullnustu kröfu skv. 6. gr. við framhald uppboðs eða á almennum markaði en uppboði hefur ekki verið lokið eða boð á almennum markaði samþykkt skal sýslumaður að fullnægðum sömu skilyrðum verða við ósk gerðarþola um að fresta þeim aðgerðum fram yfir 1. mars 2015. Hafi uppboði lokið en sá tími sem hæstbjóðandi er bundinn við boð sitt er ekki liðinn er sýslumanni heimilt að beiðni gerðarþola og að fengnu samþykki gerðarbeiðenda og hæstbjóðanda að fresta frekari vinnslu málsins fram yfir 1. mars 2015.
Read more...

HH gagnrýna harðlega þvingunaraðgerðir stjórnvalda gagnvart almenningi varðandi rafræn skilríki

Hagsmunasamtök heimilanna taka undir með Neytendasamtökunum og mótmæla þeirri kröfu stjórnvalda að umsækjendur skuldaleiðréttingar geti ekki samþykkt ráðstöfunina nema með rafrænum skilríkjum. Veflykill sá sem notaður hefur verið til að sækja um skuldaleiðréttingu ætti að sjálfsögðu að vera nothæfur til að staðfesta aðgerðina, enda hefur veflykillinn þótt nægilega öruggur og verið notaður um árabil við gerð skattframtala. Einnig hvetja Hagsmunasamtök heimilanna umsækjendur um skuldaleiðréttingu til að mæta einfaldlega til ríkisskattstjóra með penna í hönd og undirrita samþykki fyrir skuldaleiðréttingu með bleki.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsfjármála, og Steinþór Pálsson, stjórnarformaður Samtaka fjármálafyrirtækja, undirrituðu viljayfirlýsingu þann 12. júní um að “stórauka [eigi] notkun rafrænna skilríkja á næstu árum og stefna að því að þau verði megin auðkenningarleið fólks vegna ýmiss konar rafrænnar þjónustu og viðskipta á netinu”. Það er að mati Hagsmunasamtaka heimilanna óþolandi að stjórnvöld skuli nota skuldaleiðréttinguna sem tækifæri til að neyða stóran hluta þjóðarinnar til að taka upp rafræn skilríki. Sú aðgerð mun þó vissulega tryggja fjárhagslega afkomu fyrirtækisins Auðkenni ehf. sem er í meirihlutaeigu bankanna þriggja. Auðkenni ehf. hefur hingað til rukkað 10.990 kr. fyrir rafræn einkaskilríki en býður nú upp á “tilboð” að upphæð 1.500 kr. sem aðeins gildir í eitt ár. Að þeim tíma liðnum þarf því að endurnýja skilríkin, en engar upplýsingar um hugsanlegan kostnað við endurnýjun koma fram í verðskrá Auðkennis ehf.

Hagsmunasamtök heimilanna telja rökstuðning fjármála- og efnahagsráðuneytisins um að rafræn skilríki muni “auka öryggi og þægindi” almennings ekki standast nánari skoðun. Hins vegar kemur fram á heimasíðu ráðuneytisins að “talið er að kostnaður stofnana og fyrirtækja vegna samskipta við viðskiptavini muni lækka mikið í kjölfar rafrænna skilríkja.” Þetta er líklega hin raunverulega ástæða fyrir þvingunaraðgerðum stjórnvalda gagnvart almenningi um að taka upp rafræn skilríki.

Read more...

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna