Menu
RSS

Hagsmunasamtök heimilanna gagnrýna harðlega vaxtahækkanir bankanna

Eftir nýlegar vaxtahækkanir Seðlabanka Íslands hafa stóru viðskiptabankarnir ákveðið að hækka útlánsvexti sína um hálft prósentustig, eða að jafnaði um tæp 8%. Hagsmunasamtök heimilanna gagnrýndu síðustu tvær hækkanir seðlabankans harðlega og vöruðu við því að þær myndu einungis leiða til hærri kostnaðar fyrir heimilin og atvinnulífið, sem hefur nú ræst. Seðlabankinn hefur þannig raunverulega hellt eldsneyti á glæður verðbólgubálsins, sem hafði fram að því verið í rénun.

Samkvæmt nýbirtum uppgjörum hafa bankarnir þrír hagnast um samtals 42,5 milljarða króna á fyrri helmingi ársins. Frá stofnun þeirra á grundvelli brunarústa föllnu bankanna, hafa þeir jafnframt getað hagnast um samtals 422,5 milljarða, sem er fullkomlega óeðlilegt í ljósi þeirrar efnahagskreppu sem staðið hefur yfir stærstan hluta tímabilsins. Ætla mætti því að þeir hefðu nægjanlegt svigrúm til að lækka vexti og létta þar með greiðslubyrði og draga úr hvata til hækkunar á vörum og þjónustu.

Einnig taka samtökin undir þau sjónarmið sem komu fram í grein Þráins Halldórssonar, sérfræðings á eftirlitssviði FME í nýjasta vefriti stofnunarinnar, um verðskrár banka og áhrif þeirra á verðvitund neytenda. Þar segir að stóru bankarnir þrír gefi samtals út 12 verðskrár og vaxtatöflur, alls um 45 síður, í mörg hundruð liðum. Slíkt flækjustig er ógegnsætt og hindrar neytendur í að bera saman verð, sem hamlar samkeppni á fjármálamarkaði.

Read more...

Hagsmunasamtök heimilanna fordæma aðför Seðlabankans að heimilum og atvinnulífi

Hagsmunasamtök heimilanna fordæma harðlega vaxtahækkanir Seðlabankans sem algjörlega gagnslausa og úrelta aðferð við að draga úr verðbólgu. Það er löngu orðið tímabært að Seðlabankinn hætti að beita handónýtum hagstjórnartækjum sem hafa einfaldlega þveröfug áhrif við það sem ætlað er, enda augljóst að aukinn vaxtakostnaður fer út í verðlag ekki síður en launahækkanir.

Hagsmunasamtök heimilanna skora á Seðlabankann að gefa aðilum vinnumarkaðarins frið til þess að semja um eðlilegar kjarabætur og eyðileggja ekki það viðkvæma ferli með vaxtahækkunum og frekari hótunum um hækkanir sem kollvarpa forsendum kjaraviðræðna.

Það er algjörlega ólíðandi að Seðlabankinn haldi til streitu afneitun sinni gagnvart þeirri staðreynd að vaxtahækkanir hans valda í raun verðbólgu í stað þess að draga úr henni. Seðlabankinn ætti fremur að beita öðrum leiðum til þess að draga úr verðbólgu og þá sérstaklega með því að meina bönkunum að þenja út peningamagn í umferð eins og þeir hafa fengið að gera afskiptalaust hingað til.

Hagsmunasamtök heimilanna skora jafnframt á stjórnvöld og aðila vinnumarkaðsins að fordæma úreltar hagstjórnaraðgerðir Seðlabankans og þrýsta á um að hann breyti þeim og taki framvegis mið af þeim raunveruleika sem við búum við hér á landi.

Read more...

Hagsmunasamtök heimilanna ítreka gagnrýni á vaxtastefnu Seðlabankans

Hagsmunasamtök heimilanna ítreka gagnrýni sína á vaxtahækkanir Seðlabankans, sem algjörlega gagnslausa og úrelta aðferð við að draga úr verðbólgu. Löngu er orðið tímabært að Seðlabankinn hætti að beita handónýtum hagstjórnartækjum sem hafa einfaldlega þveröfug áhrif við það sem ætlað er. Undanfarnar tvær vaxtahækkanir Seðlabankans jafngilda 22,22% hækkun vaxtakostnaðar sem getur hæglega haft áhrif til hækkunar verðlags, ekki síður en launahækkanir.

Hagsmunasamtök heimilanna skora jafnframt á stjórnvöld og aðila vinnumarkaðsins að fordæma úreltar hagstjórnaraðgerðir Seðlabankans og þrýsta á um að hann breyti þeim og taki framvegis mið af þeim raunveruleika sem við búum við hér á landi.

Loks hvetja Hagsmunasamtök heimilanna verslunar- og þjónustufyrirtæki í landinu að taka sér til fyrirmyndar þau fyrirtæki sem að undanförnu hafa tekið afgerandi forystu í baráttunni við verðbólgu með því að lækka hjá sér verð í ljósi þess stöðugleika sem nú ríkir í efnahagsmálum. Fastlega má gera ráð fyrir að svigrúm sé til lækkana hjá flestum innflutningsaðilum vegna hagstæðrar gengisþróunar að undanförnu, sem ætti að geta haft jákvæð keðjuverkandi áhrif á verslun og framleiðslu í landinu.

Til þess að hægt sé að sigrast á verðbólgu þarf að afnema þær víxlverkandi breytingar verðlags á vörum og þjónustu sem hafa viðgengist hingað til. Verðákvarðanir og vaxtabreytingar eru í raun orsakavaldar fremur en sjálfvirkar afleiðingar. Seðlabankinn og atvinnulífið geta með breyttu hugarfari náð mun betri tökum á verðlagi með því að horfast í augu við þessar staðreyndir.

Read more...

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna