Menu
RSS

Úrskurðarnefnd lögmanna telur innheimtuhætti vegna smálána aðfinnsluverða

Hagsmunasamtök heimilanna vekja athygli á nýlegum úrskurði úrskurðarnefndar lögmanna í máli nr. 3/2019.

Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að háttsemi Almennrar innheimtu ehf. við innheimtu vegna smáláns væri aðfinnsluverð, en fyrirtækið byggir starfsheimildir sínar á lögmannsréttindum Gísla Kr. Björnssonar, forsvarsmanns þess, sem fellur undir eftirlit Lögmannafélags Íslands.

Málið á rætur að rekja til smáláns sem var tekið hjá fyrirtækinu Múla árið 2013 og endurgreitt síðar sama ár, eða svo taldi neytandinn. Honum byrjuðu svo í desember 2018 að berast fjöldi auglýsinga með SMS skilaboðum frá Múla, sem er nú rekið af fyrirtækinu Ecommerce2020 í Danmörku. Hann hafði því samband við fyrirtækið og bað um að vera afskráður úr kerfum þess, en fékk þau svör að það væri ekki hægt þar sem í kerfinu væri skráð lán sem ekki hefði fengist greitt. Þessu mótmælti neytandinn og sagðist ekki skulda fyrirtækinu neitt.

Smálánafyrirtækið brást við þessu með því að “bjóða” neytandanum að “greiða aðeins höfuðstólinn til baka”. Samdægurs var stofnuð krafa í heimabanka hans, í nafni Almennrar innheimtu ehf., fyrir meintum höfuðstól lánsins auk dráttarvaxta og annars kostnaðar. Með fylgdi sú skýring að krafan væri samkvæmt “greiðslusamkomulagi” þrátt fyrir að ekkert slíkt samkomulag hefði verið gert.

Þessa háttsemi taldi úrskurðarnefndin aðfinnsluverða. Sú niðurstaða hefur þó að svo stöddu engar frekari afleiðingar í för með sér fyrir hið brotlega fyrirtæki eða forsvarsmenn þess, sem er mjög lýsandi fyrir erfiða stöðu neytenda á fjármálamarkaði. Neytendur í þessum sporum eiga oft mjög erfitt með að leita réttar síns en jafnvel þá eru afleiðingarnar litlar og ekki gripið til neinna aðgerða til að hindra áframhaldandi brot gegn öðrum neytendum í sambærilegri stöðu.

Hagsmunasamtök heimilanna hvetja til þess að innheimtulög verði endurskoðuð og þeim breytt þannig að starfsemi innheimtufyrirtækja verði gerð leyfisskyld í öllum tilvikum, burtséð frá því hvort eigendur þeirra séu lögmenn eða ekki.

Fjármálastarfsemi af þessum toga verður að lúta opinberu eftirliti og nauðsynlegt er að brot gegn réttindum neytenda á fjármálamarkaði hafi einhverjar afleiðingar fyrir brotlega aðila. Jafnframt er nauðsynlegt að eignarhald slíkra fyrirtækja verði rannsakað með tilliti til leyfisskyldu, þar á meðal hverjir séu raunverulegir eigendur þeirra með hliðsjón af lögum um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, enda verður slík starfsemi að standast ítrustu kröfur þar að lútandi.

Read more...

Neytendaréttur og ólöglegar vaxtabreytingar

Hagsmunasamtök heimilanna vekja athygli á:

ákvörðun Neytendastofu um ólöglegar vaxtabreytingar
stuðningi samtakanna við aðgerðir formanns VR vegna Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna
ólöglegum lánaskilmálum og vaxtabreytingum Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna
kvörtun Hagsmunasamtakanna til Neytendastofu vegna Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna
erindi Hagsmunasamtakanna til Fjármálaeftirlitsins vegna ákvörðunar Neytendastofu

Ákvörðun Neytendastofu um ólöglegar vaxtabreytingar

Hagsmunasamtök heimilanna vilja vekja athygli á að Neytendastofa úrskurðaði nýlega að lánaskilmálar í lánum Frjálsa fjárfestingarbankans (nú Arion banka) væru ólöglegir. Þessir skilmálar áskilja lánveitanda einhliða heimild til geðþóttaákvarðana um vaxtabreytingar en slík ákvæði eru skýrt brot á neytendarétti eins og Neytendastofa staðfesti með ákvörðun sinni.

Nú ættu neytendur að geta fagnað og treyst því að bankar þurfi að leiðrétta ólöglegar aðgerðir sínar og að það muni gerast sjálfkrafa. Ekki væri heldur óeðlilegt að vænta þess að þeir þyrftu að bæta þann skaða sem hlotist hefði að ólöglegum aðgerðum þeirra, svona eins og gengur og gerist í siðmenntuðum réttarríkjum.

En það er því miður ekki svo á Íslandi. Engar leiðréttingar munu eiga sér stað nema lánþegar sæki þær sjálfir, jafnvel í gegnum dómstóla. Það fellur nefnilega utan valdsviðs Neytendastofu að skera úr um einstakar uppgjörskröfur, þannig að í stað þess að neytendur njóti vafans þá er hann, eins og alltaf, metinn bankanum í vil. Bankinn fær þannig að halda áfram lögbrotum sínum nema lánþeginn átti sig á brotunum og leiti réttar síns. En sé bankinn ekki tilbúin til samninga þarf hver og einn að draga hann fyrir dómstóla með tilheyrandi kostnaði og fyrirhöfn. Þetta er víst kallað að leita réttar síns á “jafnræðisgrundvelli”.

Hagsmunasamtök heimilanna hvetja lántakendur til að leita réttar síns. Nánari upplýsingum, leiðbeiningum og aðstoð má óska eftir með tölvupósti á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..">This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

Hagsmunasamtök heimilanna styðja forystu VR

Hagsmunasamtök heimilanna lýsa yfir fullum stuðningi við forystu VR og formann þess Ragnar Þór Ingólfsson í aðgerðum þeirra vegna vaxtahækkana stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, sem ganga þvert gegn hagsmunum neytenda og munu hækka kostnað hlutaðeigandi heimila umtalsvert, eða um 2.000 krónur af hverri milljón fyrir utan verðbætur.

Hagsmunasamtökin fagna því að verkalýðsforystan sé loksins farin að standa í fæturna og taka undir þá sjálfsögðu kröfu að lífeyrissjóðirnir starfi með hag almennings (allra sjóðsfélaga) að leiðarljósi og taki hag þeirra fram yfir þá taumlausu græðgi og siðleysi sem þessi þjónkun sjóðsins við fjármálakerfið ber með sér.

Lánaskilmálar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna ólöglegir

Það er ekki nóg með að boðuð vaxtahækkun Lífeyrissjóðs verzlunarmanna brjóti í bága við nýgerða lífskjarasamninga eins og formaður VR hefur bent á, heldur brjóta skilmálar lánasamninga lífeyrissjóðsins hreinlega í bága við lög að mati Hagsmunasamtaka heimilanna.
 
Samkvæmt 34. gr. laga um fasteignalán til neytenda nr. 118/2016 verður að koma fram í samningi um lán með breytilegum vöxtum, hvaða viðmiðum breytingarnar taki mið af eða hvaða skilyrði séu fyrir vaxtabreytingum. Lánveitanda er því óheimilt að ákveða einhliða af geðþótta að breyta slíkum skilmálum eða viðmiði vaxta eftir að lánssamningur er gerður.
 
Í skilmálum lána Lífeyrissjóðs verzlunarmanna með breytilegum vöxtum áskilur stjórn sjóðsins sér ekki aðeins rétt til að breyta vöxtum að eigin geðþótta heldur er beinlínis gert ráð fyrir því að stjórnin geti einhliða skipt um vaxtaviðmið og tekið upp önnur viðmið en þau sem hefur verið samið um.
 
Hagsmunasamtök heimilanna telja slíka skilmála ekki aðeins ósanngjarna heldur einnig ólögmæta og óskuldbindandi.

Kvörtun til Neytendastofu vegna Lífeyrissjóðs verzlunarmanna

Hagsmunasamtök heimilanna hafa sent kvörtun til Neytendastofu vegna skilmála Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og einhliða breytingar á viðmiði breytilegra vaxta.

Af yfirlýsingum stjórnar sjóðsins hefur mátt ráða að nýboðuð vaxtahækkun hafi ekki einungis átt að ná til nýrra lána, heldur eigi hún að hafa áhrif á 3.700 útistandandi lán neytenda sem gátu engan veginn gert sér í hugarlund að síðar kynni lánveitandinn að ákveða einhliða að skipta í einni svipan um vaxtaviðmiðun. Aukin kostnaður þessara 3.700 heimila mun hlaupa á hundruðum milljóna króna auk þess sem ofan á það munu leggjast verðbætur.

Hagsmunasamtök heimilanna telja að ákvörðun sjóðsins um breytingu vaxtaviðmiða feli í sér óréttmæta viðskiptahætti og samræmist ekki ákvæðum laga um fasteignalán til neytenda. Samtökin fara þess því á leit við Neytendastofu að hún taki þessi álitaefni til meðferðar og veiti þeim úrlausn með rökstuddri ákvörðun.

Erindi til Fjármálaeftirlitsins vegna ákvörðunar Neytendastofu

Hagsmunasamtökin hafa einnig sent erindi til Fjármálaeftirlitsins þar sem stofnunin er minnt á að í verkahring hennar sé að fylgja eftir niðurstöðum dómstóla. Hagsmunasamtök heimilanna telja það sama hljóta að gilda um niðurstöður eftirlitsstjórnvalda og beina því þess vegna til Fjármálaeftirlitsins að fylgja eftir ákvörðun Neytendastofu nr. 27/2019 með því að sjá til þess að Arion banki leiðrétti vexti allra lána með hinum ólöglegu skilmálum og endurgreiði hlutaðeigandi neytendum oftekna vexti með vaxtavöxtum.


 

Meðfylgjandi er afrit af erindi Hagsmunasamtakanna til Fjármálaeftirlitsins.

Erindi vegna ólöglegra skilmála um breytilega vexti

Í tilefni frétta um að Fjármálaeftirlitið hafi til skoðunar málefni Lífeyrissjóðs verzlunarmanna vilja Hagsmunasamtök heimilanna minna á þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt lögum til starfsemi lánveitenda.

Hlutverk lífeyrissjóða lýtur að móttöku, varðveislu og ávöxtun iðgjalda til greiðslu lífeyris. Til að ávaxta fjármuni sjóðfélaga geta þeir meðal annars veitt fasteignalán til neytenda sem endurgreiðast með vöxtum samkvæmt umsömdum kjörum. Samkvæmt 34. gr. laga um fasteignalán til neytenda nr. 118/2016 verður að koma fram í samningi um lán með breytilegum vöxtum, hvaða viðmiðum þeir taki mið af eða hvaða skilyrði séu fyrir breytingum á þeim. Lánveitanda er því óheimilt að ákveða einhliða af geðþótta að breyta slíkum skilmálum eða viðmiði vaxta eftir að lánssamningur er gerður.

Komið hefur í ljós að í skilmálum lána Lífeyrissjóðs verzlunarmanna með breytilegum vöxtum áskilur stjórn sjóðsins sér ekki aðeins rétt til að breyta vöxtum að eigin geðþótta heldur er beinlínis gert ráð fyrir því að stjórnin geti einhliða skipt um vaxtaviðmið og tekið upp önnur viðmið en þau sem var samið um. Slíkir skilmálar eru ekki aðeins ósanngjarnir heldur ólögmætir og óskuldbindandi. Hætta er á því að sjóðfélagar verði fyrir tjóni fari sjóðurinn á mis við vænta ávöxtun af eignum sínum.

Samkvæmt 4. mgr. 44. gr. laga nr. 129/1997 skal Fjármálaeftirlitið hafa eftirlit með því hvort starfsemi lífeyrissjóðs sé að einhverju leyti óeðlileg, óheilbrigð eða ótraust. Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga um fasteignalán til neytenda nr. 118/2016 hefur Neytendastofa hins vegar eftirlit með því að ákvæðum þeirra laga sé fylgt. Hagsmunasamtök heimilanna hafa því ákveðið að beina kvörtun til Neytendastofu yfir skilmálum Lífeyrissjóðs verslunarmanna og einhliða breytingum á vaxtaviðmiði.

Neytendastofa hefur ítrekað staðfest með ákvörðunum sínum að skilmálar sem áskilja lánveitanda einhliða rétt til geðþóttaákvarðana um vaxtabreytingar séu ólöglegir, nú síðast í liðinni viku þegar birt var ákvörðun þess efnis að slíkir skilmálar í lánum Frjálsa fjárfestingarbankans sem nú tilheyra Arion banka, væru sama marki brenndir. Samkvæmt ákvörðuninni fellur þó utan valdsviðs Neytendastofu að skera úr um uppgjörskröfur einstaklinga vegna ofgreiddra vaxta og þarf því hver og einn að sækja rétt sinn sérstaklega, sem er óásættanlegt að mati Hagsmunasamtaka heimilanna.

Samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu sem komu fram í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn um eftirlit stofnunarinnar (þskj. 687 - 148. löggj.) er meðal annars í verkahring hennar að fylgja eftir niðurstöðum dómstóla. Hagsmunasamtök heimilanna telja það sama hljóta að gilda um niðurstöður eftirlitsstjórnvalda og beina því þess vegna til Fjármálaeftirlitsins að fylgja eftir ákvörðun Neytendastofu nr. 27/2019 með því að sjá til þess að Arion banki leiðrétti vexti allra lána með hinum ólöglegu skilmálum og endurgreiði hlutaðeigandi neytendum oftekna vexti með vaxtavöxtum.

Read more...

Stærsta skaðabótamál Íslandssögunnar

Málflutningur í skaðabótamáli gegn Íslenska ríkinu, í máli nr. E-514/2018, fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur miðvikudaginn 30. janúar kl. 13:15 í dómsal 201.

Nú er loksins komið að málflutningi í skaðabótamáli á vegum Hagsmunasamtaka heimilanna vegna verðtryggðra neytendalána gegn íslenska ríkinu. Það er óumdeilt og var staðfest af EFTA dómstólnum árið 2014, að reglur um upplýsingagjöf til neytenda sem tóku verðtryggð lán, voru þverbrotnar á árunum 1994-2013, þar á meðal í húsnæðislánum frá 2001. Öll verðtryggð neytendalán sem voru veitt á þessu tímabili eru því undir í málinu, en ljóst er að þau skipta tugum þúsunda.

Eftir dóm EFTA dómstólsins árið 2014 um að brotið hefði verið á neytendum, kom Hæstiréttur Íslands sér undan því að úrskurða neytendum í vil með því að vísa ábyrgðinni yfir á Alþingi. Sá dómur gerði þó ekki annað en að tefja málið því hvort sem Hæstiréttur er ábyrgur fyrir brotinu eða Alþingi, hlýtur niðurstaðan að vera sú sama: Brotið var á neytendum og ríkið er ábyrgt á hvorn veginn sem er.

Að ríkið sé orðið skaðabótaskylt í staðinn fyrir bankana er ekki það sem stefnt var að í byrjun, fyrir allt of mörgum árum síðan, þegar málið var höfðað gegn lánveitanda, en fyrst svo er komið má ekki selja bankana frá ríkinu fyrr en búið er að gera þetta mál upp við lántakendur.

Þegar niðurstaða er komin í þetta stærsta hagsmunamál íslenskra heimila, gerum við ráð fyrir að verðtrygging á lánum heimilanna verði afnumin á Íslandi þannig að láns- og vaxtakjör verði hér sambærileg og í þeim löndum sem við miðum okkur almennt við. Enda þekkist verðtrygging ekki á lánum heimilanna sem megin lánakostur í þessum löndum. Annars vegar vita stjórnvöld þeirra landa að ef verðtrygging yrði sett almennt á lán heimilanna myndu hagkerfi þeirra hrynja og aðalstjórntæki seðlabanka þeirra ekki virka. Hins vegar myndi almenningur í þessum löndum ALDREI láta bjóða sér verðtryggð lán til heimila með okurvöxtum þar ofan á.

Þetta er kjarni málsins, eins og var nánar rakið í fréttatilkynningu sem var upphaflega send fjölmiðlum 14. nóvember sl. áður en aðalmeðferð málsins var frestað af dómskerfinu.

Read more...

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna