Menu
RSS

Alþingi fékk rangar upplýsingar um nauðungarsölur

Svar dómsmálaráðherra við fyrirspurn Ólafs Ísleifssonar þingmanns, um nauðungarsölur, fjárnám og gjaldþrot hjá einstaklingum árið 2018, var birt á vef Alþingis 31. maí síðastliðinn.

Í svarinu sem unnið er af Þjóðskrá, eru birtar tölur yfir árin 2008 - 2018 sem eru því miður rangar hvað varðar nauðungarsölur og koma alls ekki heim og saman við upplýsingar sem aflað var beint frá embættum sýslumanna samkvæmt svari við sambærilegri fyrirspurn 15. ágúst 2018.

Því hefur nú verið slegið upp í fjölmiðlum að nauðungarsölur hjá einstaklingum hafi einungis verið 69 árið 2018 samkvæmt þessum nýju tölum, sem er algjörlega fráleitt. Einföld talning á vef sýslumanna leiðir í ljós að 446 framhaldsuppboð voru auglýst árið 2018. Það er því ljóst að eitthvað hefur farið verulega úrskeiðis við úrvinnslu Þjóðskrár.

Samanburður á þessum tveimur svörum dómsmálaráðherra sýnir að í tölum þessara ára eru yfir 6.500 nauðungarsölur vantaldar í gögnum Þjóðskrár. Svo dæmi sé tekið voru nauðungarsölur flestar árið 2010 eða 1.574 talsins samkvæmt upplýsingum frá sýslumannsembættunum sjálfum, en samkvæmt tölum Þjóðskrár eru þær sagðar hafa verið einungis 13 það ár.

Aðrar tölur í umræddu svari samræmast þó fyrri upplýsingum. Samkvæmt þeim hefur lítið dregið úr fjárnámum hjá einstaklingum sem voru yfir tólf þúsund árið 2018 og þar af hátt í tíu þúsund árangurslaus. Á tímabilinu 2008-2018 voru því samtals gerð um 164.000 fjárnám og þar af um 127.000 árangurlaus. Jafnframt er ekkert lát á gjaldþrotum einstaklinga sem voru 312 árið 2018 og fjölgaði um 22 frá fyrra ári, en samtals hafa 3.284 einstaklingar orðið gjaldþrota á tímabilinu.

Þessar tölur ættu að fá alla til að staldra við. Það er ekkert eðlilegt við tölur af þessari stærðargráðu í 350.000 manna samfélagi. Hér hefur eitthvað farið stórkostlega úrskeiðis!

Hagsmunasamtök heimilanna harma þau mistök sem hljóta af hafa orðið við samantekt Þjóðskrár varðandi nauðungarsölur og hafa farið fram á leiðréttingu frá stofnuninni auk þess sem þau beina því til dómsmálaráðherra að sjá til þess að Alþingi fái réttar upplýsingar sem fyrst.


 

 

Samanburður á tölum frá sýslumannsembættum og Þjóðskrá um nauðungarsölur hjá einstaklingum 2008-2018:

 

Ártal

Sýslumenn

Þjóðskrá

Mismunur

2008

549

9

540

2009

778

9

769

2010

1.574

13

1.561

2011

1.306

11

1.295

2012

1.273

9

1.264

2013

1.349

1.008

341

2014

568

449

119

2015

675

590

85

2016

547

438

109

2017

227

168

59

2018

446

69

377

Samtals *

9.292

2.773

6.519

* Auk þess hafa a.m.k. 349 fasteignir verið seldar vegna greiðsluaðlögunar.

 

Read more...

Staðfest: 10 þúsund fjölskyldur sviptar heimilum sínum á 10 árum

Í síðustu viku svaraði dómsmálaráðherra fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um nauðungarsölur og gjaldþrotaskipti. Svar hennar staðfesti þann málflutning Hagsmunasamtaka heimilanna að heimilum landsins hafi verið fórnað á altari fjármálafyrirtækjanna í kjölfar hrunsins 2008.

Samanlagðar heildartölur fyrir einstaklinga á árunum 2008-2017 eru sem hér segir:

Nauðungarsölur: 8.846

Gjaldþrotaskipti: 2.973

Árangurslaus fjárnám: 116.939

Að auki hafði áður komið fram í svari félagsmálaráðherra í júní síðastliðnum að 349 fasteignir skuldara hefðu verið seldar til kröfuhafa í tengslum við greiðsluaðlögun.

Við getum því staðfest alls 9.195 tilvik um nauðungarsölu eða sölu vegna greiðsluaðlögunar á tíu ára tímabili eða að jafnaði um 920 á ári sem þýðir að allar líkur eru á því að heildarfjöldinn verði komin vel yfir 10.000 í lok þessa árs.

Málflutningur Hagsmunasamtaka heimilanna sem hefur ítrekað verið véfengdur og enn oftar hunsaður af yfirvöldum, er hér með opinberlega staðfestur.

Fjármálafyrirtæki hafa einnig leyst til sín heimili vegna gjaldþrotaskipta, nauðasamninga, nauðasamninga til greiðsluaðlögunar eða á annan hátt samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti. Í svari dómsmálaráðherra kom fram að engar tölur eru til yfir fjölda þessara heimila. Einnig kom fram í svari fjármálaráðherra í júní síðastliðnum að engar slíkar tölur lægju fyrir varðandi sértæka skuldaaðlögun einstaklinga.

Hagsmunasamtök heimilanna telja óviðunandi að engar tæmandi opinberar upplýsingar liggi fyrir um fjölda þessarra heimila. Þær tölur vantar því í sundurliðun á fjölda þeirra sem hafa misst heimili sín frá hruni. Þar sem fólk leitar yfirleitt allra leiða til að forðast nauðungarsöluferli, er varlegt er að áætla að þar sé a.m.k. um jafn mörg heimili að ræða og þau sem voru seld nauðungarsölu.

Það má því gera ráð fyrir að heimilin sem hafa verið afhent fjármálafyrirtækjum á silfurfati séu á bilinu 15-20.000. Til að setja þennan fjölda í samhengi eru heimili landsins u.þ.b. 137.000 en í Kópavogi búa 36.000 manns þannig að þar eru heimili í mesta lagi 17.000. Þetta eru 11 - 14,5% heimila landsins eða líkt og Kópavogur hefði verið þurrkaður út og jafnvel Garðabær líka!

117.000 árangurslaus fjárnám

Fjöldi árangurslausra fjárnáma er sérstaklega sláandi og mun meiri en við hjá Hagsmunasamtökunum gerðum okkur grein fyrir.

Staða þeirra sem lent hafa í árangurslausu fjárnámi er skelfileg. Þetta er stór hópur fólks sem er ekki gjaldþrota en er haldið í endalausu skuldafangelsi án allra réttinda. Árangurslaust fjárnám er aðferð bankamanna til að halda fólki „í snörunni“ og herða stöðugt að til að mjólka síðustu blóðdropana.

Flest hefur þetta fólk misst húsnæði sitt en það getur ekki tekið lán og á erfitt með að fá leigt, það á ekki rétt á neinni fyrirgreiðslu hjá bönkum þar sem það sætir oft mikilli niðurlægingu, það fær ekki kreditkort og getur ekki eignast neitt. Það getur ekki einu sinni leigt sér vinnutæki  í einn dag fyrir kr. 5000 nema einhver skrifi upp á leiguna fyrir það eins og við höfum nýlegt dæmi um.

116.939! Við hljótum að staldra við þessa tölu. Þó ekki sé ljóst hversu margir einstaklingarnir eru á bakvið hana er  ljóst að þeir skipta þúsundum. Þetta samsvarar því að einn af hverjum þremur Íslendingum hafi lent í árangurslausu fjárnámi. Þetta eru 45 árangurlaus fjárnám á hverjum virkum degi í 10 ár! Já það er nóg að gera hjá bankamönnum.

Fæst ber þetta fólk sök á stöðu sinni, sökin liggur hjá þeim sem beita refsivendinum af miskunnarleysi, bankamönnunum sjálfum!

Ábyrgð alþingismanna – Rannsóknarskýrsla heimilanna

Það eru 10 ár frá hruni og löngu tímabært að fara í saumana á þessum málum og leiðrétta óréttlætið sem tugþúsundir hafa orðið fyrir. Þetta eru ekki „gömul mál“, þau eru enn þá í gangi og afleiðingar þeirra hafa verið og eru enn, hræðilegar fyrir tugþúsundir.

Við krefjumst þess að gerð verði óháð rannsóknarskýrsla um aðgerðir stjórnvalda eftir hrun, Rannsóknarskýrsla heimilanna, því á bak við hvert heimili sem fjármálafyrirtækin leystu til sín eru þjáningar nokkurra einstaklinga, manna, kvenna og barna. Hvert og eitt þeirra á rétt á skýringum, leiðréttingum og RÉTTLÆTI!

Hagsmunasamtök heimilanna kunna Ólafi Ísleifssyni alþingismanni bestu þakkir fyrir samstarfið og elju hans við að leita svara. Án hans lægju þessar upplýsingar ekki fyrir.

Nú er komið að ykkur hinum sem sitjið á Alþingi. Það er ykkar hlutverk að sjá til þess að ekki séu brotin mannréttindi á þegnum þessa lands. Hver ykkar eru tilbúin að rísa yfir flokkadrætti og krefjast rannsóknar og réttlætis fyrir þær þúsundir sem brotið hefur verið á?

Það er erfitt að ímynda sér verri afglöp í starfi en að hunsa brotin sem framin hafa verið á tugþúsundum á 10 ára tímabili. Alþingi veitti bönkunum skjólið til að fara gegn heimilunum með þessum hætti og það er Alþingis að leiðrétta eigin mistök.

Alþingismenn og konur það er löngu kominn tími til aðgerða, boltinn er hjá ykkur!

Almenningur er ekki fóður fyrir fjármálakerfið – við krefjumst Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Read more...

Enn einn Evrópudómur um óréttmætar nauðungarsölur

Hagsmunasamtök heimilanna hafa látið gera löggildar íslenskar þýðingar af ýmsum dómum Evrópudómstólsins sem fjalla um nánari skýringar á þeim reglum um neytendavernd og neytendalán sem gilda hér á landi vegna aðildar Íslands að EES. Þessar þýðingar hafa svo jafnframt verið birtar á vefsíðu samtakanna og er markmið þess að sem flestir geti nýtt sér þá í málaferlum vegna neytendalána. Þar á meðal eru dómar í málum C-415/11 (Aziz) og C-169/14 varðandi málsmeðferð við nauðungarsölur á grundvelli neytendalána.

Samtökin hafa nú fengið löggilda þýðingu á enn einum dómi er varðar málsmeðferð við nauðungarsölu, í sameinuðum málum C-537/12 og C‐116/13. Dómurinn ítrekar þær niðurstöður sem komist var að í fyrrnefndu máli C-415/11 og voru enn ítrekaðar í máli C-169/14, að málsmeðferð við nauðungarsölu á heimili neytanda þar sem ekki er gætt jafnræðis milli aðila og ekki hægt að byggja mótbárur á því að um óréttmæta skilmála sé að ræða, brjóti gegn Tilskipun 93/13/EBE um óréttmæta skilmála í neytendasamningum. Jafnframt veitir dómurinn leiðbeiningar um mat á því hvort skilmálar um einhliða gjaldfellingu og fullnustu án undangengins dóms séu óréttmætir, og segir að landsdómstóll eigi að framkvæma það mat í slíkum tilvikum.

Hér má skoða og sækja umrædda þýðingu dómsins:

Niðurstaða dómsins er svohljóðandi:

1. Tilskipun ráðsins 93/13/EBE frá 5. apríl 1993 um óréttmæta skilmála í neytendasamningum ber að túlka svo að hún girði fyrir löggjöf í aðildarríki, eins og þá sem um er deilt í aðalmálinu, sem leyfir ekki að dómstóll sá sem meðferð gerðar til fullnustu veðréttar í fasteign heyrir undir geti að eigin frumkvæði eða að beiðni neytanda lagt mat á það, hvort skilmáli í samningi þeim sem umkrafin skuld er risin af og er grundvöllur að réttinum til fullnustu sé óréttmætur, ellegar mælt fyrir um hliðrunarráðstafanir til bráðabirgða sem leitt geti til frestunar eða stöðvunar á fullnustugerðinni, þegar nauðsyn er á slíkri hliðrun til að tryggja fulla skilvirkni hinnar endanlegu niðurstöðu dómstóls þess er fái til meðferðar viðurkenningarmál þar sem neytandinn heldur því fram að skilmálinn sé óréttmætur.  

2. Ákvæði 1. málsgr. 3. greinar tilskipunar 93/13 og liða 1(e) og (g) ásamt lið 2(a) í viðauka hennar ber að skilja svo að þau merki að við mat á því, hvort samningsskilmáli sem varðar flýtingu á endurgreiðslu fasteignaveðláns eins og um ræðir í aðalmálinu sé óréttmætur, geti eftirfarandi haft úrslitaþýðingu:

- hvort réttur seljanda eða veitanda til að segja samningi upp einhliða sé háður því að vanefnd verði af hálfu neytanda á skuldbindingu sem hafi grundvallarþýðingu í samningssambandi því sem um er að ræða,

- hvort þessi réttur sé áskilinn í tilvikum þar sem vanefnd þessi sé nægilega alvarleg í ljósi gildistíma samningsins og fjárhæðar lánsins til neytanda,  

- hvort þessi réttur feli í sér frávik frá þeim reglum sem við myndu eiga ef ekki væri um atriðið samið milli aðila, þannig að erfiðara verði fyrir neytandann, miðað við þau réttarúrræði sem honum eru tiltæk, að leita til dómstóla og neyta réttar síns til varnar, og

- hvort reglur landslaga veiti kost á viðeigandi og skilvirkum úrræðum er geri neytandanum, sem háður sé slíkum samningsskilmála, kleift að ráða bót á áhrifum hinnar einhliða uppsagnar lánssamningsins.

Það er landsdómstólsins að framkvæma þetta mat með hliðsjón af öllum atvikum hins tiltekna máls sem fyrir honum liggur.

Þessar niðurstöður dómsins styðja enn frekar þær niðurstöður sem komist var að í greinargerð Hagsmunasamtaka heimilanna um fullnustur neytendalána án undangengins dómsúrskurðar sem var birt í nóvember 2013. Greinargerðin var uppfærð í september síðastliðnum og send Alþingi sem fylgiskjal með umsögn samtakanna við frumvarp til laga um tímabundna frestun á nauðungarsölum sem nú eru í gildi, en greinargerðina má einnig sjá hér fyrir neðan.

Read more...

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna