Menu
RSS

Bein útsending frá borgarafundi þriðjudagskvöldið 24. febrúar

Annað kvöld eða þriðjudagskvöldið 24. febrúar 2015 kl. 20:00-22:00, hafa Hagsmunasamtök heimilanna boðað til borgarafundar í Háskólabíói. Allir sem vettlingi geta valdið eru hvattir til þess að mæta og taka þátt í fundinum.

Að loknum framsöguræðum munu verða umræður og tekið við spurningum úr sal, en þá gildir almennt að fyrstur kemur fyrstur fær. Nánar verður tilkynnt um fyrirkomulag þess á fundinum sjálfum.

Fundurinn verður einnig sendur út beint hér á vefnum og mun streymið hefjast skömmu fyrir kl. 20:00, og verður hægt að horfa á endursýningu fundarins næsta sólarhringinn. Fundurinn hefst þegar um það bil 12 mínútur eru liðnar af upptökunni.

Read more...

Borgarafundur 24. febrúar - Verðtryggingin bíður dóms

Hagsmunasamtök heimilanna boða til opins borgarafundar í Háskólabíó þriðjudagskvöldið 24. febrúar 2015 kl. 20:00-22:00. Kvöldið hefst með tónlistarflutningi Magnúsar Þórs Sigmundssonar, en svo taka við framsöguræður og pallborðsumræður. Frummælendur og í pallborði verða: Vilhjálmur Bjarnason ekki fjárfestir og formaður HH, Jacky Mallett frá Vitvélastofnun Íslands, Marinó G. Njálsson tölvunarfræðingur, Þórður Heimir Sveinsson lögmaður HH, Aðalsteinn Sigurðsson lögfræðingur, Vilhjálmur Birgisson formaður VLFA og Ólafur Ísleifsson hagfræðingur.

Fundarefnið er verðtrygging neytendalána, en samtökin hafa frá upphafi barist fyrir afnámi hennar. Árið 2012 var svo höfðað til dómsmáls fyrir tilstilli samtakanna í því skyni að láta reyna á lögmæti kynningar heildarlántökukostnaðar verðtryggðra neytendalána. Eftir að hafa þurft að feta langar krókaleiðir gegnum dómskerfið fékkst mál þetta loks flutt fyrir fjölskipuðum Héraðsdómi Reykjavíkur þann 5. janúar 2015 og dómur kveðinn upp 6. febrúar.

Þrátt fyrir að héraðsdómur hafi fallist á það meginsjónarmið í málinu að lög um neytendalán hafi verið brotin við lánveitinguna, voru ekki dæmd nein viðurlög við því. Málinu verður nú áfrýjað til Hæstaréttar Íslands, og má búast við að nokkrir mánuðir líði áður en endanlega niðurstaða fæst. Rétt er þó að benda á þá sigra sem unnist hafa nú þegar, svo sem álit EFTA-dómstólsins og ákvörðun Neytendastofu um sama álitaefni. Viðurkenning héraðsdóms þann 6. febrúar á brotum gegn lögum um neytendalán er jafnframt stórsigur fyrir neytendur.

Á þessum tímamótum er við hæfi að kynna stöðu málsins og framvindu þess fyrir almenningi og er því boðað til þessa borgarafundar. Fundurinn er öllum opinn, jafnt félagsmönnum HH sem öðrum, en við viljum minna á að sameinuð erum við ósigrandi. Við hvetjum því alla til að skrá sig í Hagsmunasamtök heimilanna á fundinum sjálfum eða á heimasíðu HH www.heimilin.is.

Meðal baráttumála HH gegnum tíðina hefur verið að fá dóma um ólögmæti gengislánanna svokölluðu sem nú er að hluta búið af klára og við teljum að ganga þurfi ennþá lengra og verður áfram unnið að því.

Baráttan gegn verðtryggingunni hefur tekið mikinn tíma og afl frá okkur en það mun koma endanlegur sigur fyrir heimilin í landinu, ef ekki fyrir Hæstarétti þá fyrir erlendum dómstólum. Því miður mun það þýða að þá verður íslenska ríkið orðið skaðabótaskylt. HH hafa alltaf barist fyrir því að það sem fjármálafyrirtækin hafa tekið ólöglega af fólki endurgreiðist úr uppgjörinu á milli gömlu og nýju bankanna. Sýnt hefur verið fram á að þeir hafi fengið lánasöfnin með afslætti en hafa hingað til rukkað heimilin að fullum þunga þrátt fyrir það.

Að auki þarf að stöðva allar nauðungarsölur á heimilum fólks og gjaldþrot einstaklinga á grundvelli verðtryggðra lána meðan beðið er dóms Hæstaréttar. Einnig þarf í framhaldinu að setja ný lög um endurupptöku gjaldþrota- og nauðungarsölumála sem farið hafa fram á grundvelli ólögmætra lánasamninga.

Félagsmenn, sem og aðrir, eru hvattir til að mæta.

2015-02-24 Borgarafundur - auglysing

2015-02-24 Borgarafundur HH - dreifirit.pdf

Read more...

Húsfyllir á borgarafundi HH í Stapanum, Reykjanesbæ

Húsfyllir var á borgarafundi HH í Stapanum, Reykjanesbæ í gærkvöldi, undir yfirskriftinni "Fast er sótt á Suðurnesjamenn", þar sem fjallað var um stöðu heimila á Suðurnesjum.

Ólafur Arnarson, hagfræðingur stýrði fundinum. Frummælendur voru Árni Sigfússon bæjarstjóri í Reykjanesbæ, Þórólfur Halldórsson sýslumaður í Keflavík, Oddný Harðardóttir þingmaður Samfylkingar í suðurkjördæmi, og Ólafur Garðarsson formaður Hagsmunasamtaka heimilanna. Árni hóf fundinn og lagði í erindi sínu áherslu á að hið mikla atvinnuleysi á svæðinu væri undirrót vandans sem taka yrði á með því að efla atvinnulífið. Þórólfur Halldórsson fór yfir helstu niðurstöður skýrslu sem unnin var á vegum embættis sýslumannsins í Keflavík fyrir velferðarráðuneytið: Nauðungarsala íbúðarhúsnæðis á Suðurnesjum 2001–2011. Þórólfur vakti athygli á því að stór hluti þeirra sem misst hefðu húsnæði sitt á nauðungarsölum á þessu tímabili hefðu gert það aðeins 2-4 árum eftir kaup, sem vekti upp ýmsar spurningar m.a. varðandi lánveitingar. Oddný Harðardóttir talaði því næst um aðgerðir núverandi ríkisstjórnar vegna skuldavanda heimilanna. Oddný sagði það vera hlutverk þeirra sem kosnir yrðu á þing í vor að nýta það svigrúm sem núverandi ríkisttjórn hefði skapað með endurreisn efnahagslífsins eftir hrun, til frekari aðgerða fyrir heimilin. Síðastur frummælenda var Ólafur Garðarsson sem fjallaði í erindi sínu um skjaldborgina um fjármálakerfið. Hægt er að lesa erindi Ólafs í heild sinni hér.

Að loknum þessum erindum var komið að þátttakendum í pallborði að kynna hugmyndir framboða sinna til lausna á skuldavanda heimilanna, en í pallborði sátu fulltrúar allra framboða til Alþingiskosninganna í vor. Alls tólf framboð áttu þar fulltrúa; Samfylkingin, VG, Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Hægri grænir, Björt framtíð, Dögun, Píratar, Alþýðufylkingin, Framfaraflokkurinn, Regnboginn og Flokkur heimilanna. Loks talaði sérstakur gestur fundarins, Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness. Vilhjálmur sagði það sem ólíkindum að menn kæmust upp með umræðu eins og þá sem einkennt hefur verðtryggingarumræðuna. Þar er því blákalt haldið fram að ekkert sé hægt að gera fyrir heimilin sem tóku á sig gríðarlegar álögur í formi verðbóta sem bæst hafa við höfuðstól verðtryggðra lána frá hruni. Hundruðum milljarða var dælt í bankakerfið af stjórnvöldum eftir hrun, þeim hinum sömu og sáu ekkert því til fyrirstöðu að skattgreiðendur greiddu fyrir innstæður í Hollandi og Bretlandi þegar leita átti samninga vegna Icesave. Þegar hins vegar fram kemur krafa almennings um leiðréttingu lána er viðkvæðið alltaf það sama: "Peningarnir eru ekki til".

Að loknu erindi Vilhjálms tóku við fyrirspurnir fundarmanna, sem flestar beindust til frummælenda fundarins og fjölluðu m.a. um aðgerðarleysi stjórnvalda gagnvart skuldugum heimilum og framgöngu sýslumanna við framkvæmd fullnustugerða. Fundinum lauk með því að borin var upp tillaga stjórnar HH að ályktun fundarins:

"Borgarafundur HH í Stapa Reykjanesbæ fimmtudagskvöldið 21. mars tekur undir áskorun félagsfundar HH 7. mars 2013 til sýslumanna og annarra opinberra embættismanna sem hafa slík mál með höndum, að stöðva nú þegar allar fullnustugerðir á grundvelli ólöglegra lána. Á þeim hvílir sú skylda að rannsaka ávallt gaumgæfilega lögmæti þeirra lánasamninga og annarra gagna sem lögð eru fram vegna slíkra gjörninga. Allan vafa um lögmæti ber að túlka neytendum í hag og sökum þess aðstöðumunar sem er fyrir hendi hlýtur að teljast eðlilegt að sönnunarbyrði um lögmæti krafna hvíli á þeim sem halda þeim kröfum í frammi."

Ályktunin var samþykkt með lófataki.

Upptaka Hjara veraldar af fundinum mun birtast á vefnum um leið og eftirvinnslu lýkur.

Read more...

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna