Menu
RSS

Kreppan ekki nógu djúp fyrir Seðlabankann

Hagsmunasamtökum heimilanna hafa borist svör við formlegri beiðni þeirra um, að Seðlabanki Íslands leggi faglegt mat, eða efni til óháðrar rannsóknar í samvinnu við fræðasamfélagið á skiptigengisleið sem stjórnvaldsúrræði í glímunni við afleiðingar kreppunnar – baráttu sem er orðin bæði of löng og þungbær þjóðinni að mati sífellt fleirri málsmetandi aðila.

Ef marka má svör bankans, er kreppan hvorki nógu djúp né alvarleg fyrir heimili og fyrirtæki í landinu til þess að hafast þurfi að. Eignatilfærslan sem átt hefur sér stað undanfarin ár frá skuldurum til fjármagnseigenda sé í fínu lagi. Það sé á hinn bóginn alls ekki í lagi að sú eignatilfærsla gangi til baka í formi almennra leiðréttinga.

Sé afstaða Seðlabankans í raun þessi, átelja Hagsmunasamtök heimilanna vinnubrögð bankans sem ófagleg og hrokakennd. Þá lýsa samtökin furðu sinni á aðgerðarleysi stjórnvalda og Seðlabankans í peningastefnu-, gjaldmiðils- og verðtryggingarmálum, sem gengur þvert á stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna.

Reynsla í öðrum ríkjum sýnir, að skiptigengileiðin getur í senn verið árifarík og skjótvirk aðferð til að rjúfa vítahring samdráttar og aukinnar kreppu, verðbólgu og vaxandi samfélagslega misskiptingu.

Nú síðast beittu Þjóðverjar þessari leið til að greiða fyrir sameiningu Austur- og Vestur-Þýskalands. Þó að aðstæður séu ekki algerlega sambærilegar, þá er vissulega þörf hér á landi sem aldrei fyrr að hugsa í nýjum lausnum til endurreisnar landsins eftir efnahagshrunið.

Skiptigengisaðferðin felur í sér upptöku nýs gjaldmiðils á breytilegu gengi, allt eftir því hvaða eignir eiga í hlut. Laun mætti þannig reikna yfir í nýja gjaldmiðilinn á jöfnu gengi en verðtryggð eða gengistryggð lán á lægra gengi, svo að dæmi sé nefnt. Í því tilviki mætti yfirfæra lán m.v. stuðullinn 0,6-0,7 sem myndi t.a.m. vega upp á móti uppsafnaðri verðbólgu (nemur nálægt 40% frá 2008).

Með þessu móti má því á einfaldan og skjótvirkan hátt ná fram almennri skuldaleiðréttingu, vega upp á móti gríðarlegri eignatilfærslu frá lántakendum til fjármagnseigenda, hreinsa út eitraðar og verðlausar froðukrónur úr hagkerfinu, afnema gjaldeyrishöftin og afnema verðtrygginguna.

Í sjálfu sér skiptir ekki öllu máli hvaða gjaldmiðill verður fyrir valinu. Nú íslensk króna (NISK), evra, bankríkjadalur, kanadískur dalur eða norsk króna gæti orðið fyrir valinu. Í hlut stjórnvalda kæmi að taka þær pólitísku ákvarðanir sem þarf við útfærslu leiðarinnar m.t.t. núverandi aðstæðna hér á landi.

Með hliðsjón af ofansögðu er í raun með ólíkindum að Seðlabanki Íslands skuli í skjóli stjórnvalda láta önnur eins svör frá sér og bárust Hagsmunasamtökunum í tengslum við skiptigengileiðina.

Af þessu tilefni er rétt minna á stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna en þar þar sem segir um þessi efni:

Peningastefnunefnd Seðlabankans verður falið að fara yfir kosti og galla þess að breyta peningastefnunni, meta kosti þjóðarinnar í gjaldmiðilsmálum og gera tillögu til stjórnvalda með hliðsjón af því mati. Jafnframt verður óskað eftir mati Seðlabankans á því hvernig best verði dregið úr vægi verðtryggingar í íslensku efnahagslífi.

Einnig má minna á grein sem efnahags- og viðskiptaráðherra skrifaði  í Fréttablaðið 27. desember þar sem hann boðaði "víðtækt samráð um framtíðarpeningastefnu". Í þessum efnum hafa athafnir því ekki verið í samræmi við yfirlýsingar heldur þvert á móti.

Síðast en ekki síst gerði Seðlabankinn í nýlegu aflandskrónuútboði sínu nokkurnveginn það sama og hann segir í bréfinu til Hagsmunasamtakanna að jafngildi "yfirgripsmiklu greiðslufalli gagnvart erlendum skuldbindingum þjóðarinnar", eins og Guðmundur Ásgeirsson stjórnarmaður HH bendir á í bloggfærslu.

Eftir hverju eru stjórnvöld að bíða?

Sjá svar SÍ til Hagsmunasamtaka heimilanna

Hlusta á viðtal við Andreu J. Ólafsdóttur, formann HH á Bylgjunni 7. júní sl. þar sem m.a. var fjallað um viðbrögð SÍ

Sjá erindi Friðriks Jónssonar um skiptigengileiðina (myntbreytingaleið)

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna