Logo

Gjaldþrot íslensku vísitölufjölskyldunnar

Grein birt í Morgunblaðinu 16. júní.

Ríkisstjórnin og Seðlabankinn keppast  við að reikna út skuldir, tekjur og greiðslubyrði heimilanna þessa dagana. Síðan er leitast við að telja  almenningi í trú um að heimilin geti vel staðið undir skuldabagga bæði þjóðarinnar og heimilanna, sem þyngist dag frá degi vegna óðaverðbólgu og veikingar krónunnar, sem og aðgerða stjórnvalda. Slíkar yfirlýsingar og upplýsingar virðast þó vera algjörlega á skjön við þá mynd sem upplýsingaveitur og hagtölur opinberra aðila gefa af stöðu heimilanna.

Enginn hagfræðingur eða reiknimeistari hjá því opinbera eða hjá launþegahreyfingunni, virðist hins vegar hafa séð ástæðu til eða hefur kannski öllu heldur ekki lagt í, að rýna í þær tölur sem nálgast má hjá opinberum aðilum til að stilla upp rekstrarreikningi vísitölufjölskyldunnar.

Upplýsingar um meðaljóninn og vísitölufjölskylduna eru birtar og uppfærðar reglulega á vef Hagstofunnar. Þar má nálgast upplýsingar á borð við meðallaun, verðbólgu og neysluvísitölu og verðbólguspár. Að auki framreikna reiknivélar lánastofnana, s.s. Íbúðalánasjóðs, greiðslubyrði lána miðað við gefnar forsendur. Með því að nýta markvisst þessar upplýsingaveitur má sjá, hvernig meðaljóninum reiðir af frá einum tíma til annars og jafnvel greina hættumerkin, áður en í verulegt óefni er komið í heimilisrekstri vísitölufjölskyldunnar.

Heimatökin eru því hæg fyrir þá sem vilja reikna út hvort íslenska vísitölufjölskyldan eigi sér viðreisnar von, miðað við þær opinberu forsendur sem henni eru áskipaðar  út frá  meðaltalsútreikningum og útgefnum vísitölum. Þetta eru vel að merkja þær reikningsstærðir  og mælikvarðar sem m.a. hækkanir á höfuðstól lána og afborgunum taka mið af. Fyrst þarna er um nógu áreiðanlega mælikvarða að ræða þegar greiðslur heimilanna af lánum eiga í hlut, þá hljóta þeir einnig að vera nægilega traustir fyrir útreikninga á rekstrargrundvelli heimilanna og greiðslugetu.

Á heimasíðu Hagstofunnar (www.hagstofa.is) eru einnig reiknivélar fyrir vísitölustuðla frá einum tíma til annars. Ætla má að beita megi þeim á meðallaun og neysluútgjöld (án húsaleigu), þar sem þau eru ekki uppfærð jafn reglubundið og vísitölurnar. Síðan má taka meðalíbúðarlán hjá íslenskum fjölskyldum, sem Seðlabankanum reiknast til að nemi um 16 milljónum króna, og beita reiknivél Íbúðalánasjóðs á það lán miðað við að um verðtryggt lán væri að ræða (erfiðara að reikna út gengistryggt lán þar sem gengið sveiflast nú dag frá degi og ekki fyrir nokkurn mann að spá fyrir um hvernig það þróast). Til að gæta hófs miða útreikningar hér við nokkuð lágan verðbólgustaðal, eða það verðbólgumarkmið Seðlabankans sem hærra er og var síðast þegar að var gáð  4% (er þá ekki tekið tillit til þess að verðbólga hafi síðasta árið verið nær 20%.). Einnig er hér miðað við að báðar fyrirvinnur fjölskyldunnar séu með námslán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna og að afborganir séu 3,75% af heildartekjum.

Niðurstaðan er mjög skýr.  Eins og sjá má á meðfylgjandi rekstrarreikningi, þá á íslenska vísitölu¬fjölskyldan, með tvær fyrirvinnur í fullu starfi á meðallaunum (366.0000 kr), tvö börn á framfæri og meðalstórt íbúðalán sér engan veginn viðreisnar von, heldur safnar hún skuldahalla upp á rúmar tvær milljónir á ársgrundvelli.  Ætla má að rekstrarniðurstaða annarra óhagkvæmari heimilisforma s.s. eins og einhleypingsheimila og þar sem fleiri börn eru í heimili, sé jafnvel enn verri .  

 


Rekstrarreikningur íslensku vísitölufjölskyldunnar.
* m.v. meðallaun skv. Hagstofunni og uppfært m.v. þróun launavísitölu til maí 2009
** m.v.neysluútgjöld fjögurra manna fjölskyldu án húsaleigu og þróun neysluvísitölu til maí 2009
***M.v. meðalíbúðalán upp á 16 mkr., 30 ára lánstíma og 4% verðbólgu skv. reiknivél ÍLS

Ljóst er að þessar niðurstöður fela í sér áleitnar spurningar um íslensku vísitölufjölskylduna og möguleika hennar á að sjá sér farborða, hvað sem líður útreikningum og yfirlýsingum stjórnvalda. Með hvaða móti  á vísitölufjölskyldunni að vera fært að minnka útgjöldin um rúmlega tvær milljónir króna á ári? Hvert stefnir skuldasöfnun heimilanna þegar verð á neysluvörum fer stöðugt hækkandi, afborganir af  húsnæðis- og bílalánum hækka jafnt og þétt fyrir tilstuðlan eða samspil verðbólgu og/eða veikingar krónunnar, sem og vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar? Hver verða síðan áhrif viðbótarskerðinga sem stjórnvöld áforma að grípa til? Blasir eitthvað annað við þrautpíndri vísitölufjölskyldu en gjaldþrotaúrskurður? Fela þessar niðurstöður í sér einhverja von um að fjögurra manna vísitölufjölskylda geti yfir höfuð séð sér farboða hér á landi? Eða er eina von hennar um raunhæfan rekstrargrundvöll og bjartari framtíð að hefja nýtt líf í öðru landi, þar sem réttlæti ríkir í neytenda- og lánamálum og betri rekstrargrundvöllur hefur verið skapaður fyrir heimilin?

 


Arney Einarsdóttir
Höfundur er stjórnarkona í Hagsmunasamtökum heimilanna,
framkvæmdastjóri  og ráðgjafi hjá HRM – rannsóknir og ráðgjöf og
lektor við Háskólann í Reykjavík.

Hagsmunasamtök heimilanna / Ármúla 5 / 108 Reykjavík / ICELAND / (+354)-546-1501 / www.heimilin.is / heimilin@heimilin.is