Menu
RSS

Guð blessi heimilin: Borgarafundur í Háskólabíói

Guð blessi heimilin
Okurvextir og verðtrygging, mesta böl þjóðarinnar

Undir þessari yfirskrift og í tilefni þess að 9 ár verða liðin frá bankahruninu, hafa Verslunarmannafélag Reykjavíkur (VR) og Verkalýðsfélag Akraness (VLFA), boðið Hagsmunasamtökum heimilanna (HH) og öllum landsmönnum til opins fundar laugardaginn 7. október milli 14:00 og 16:00 í Háskólabíói.

Fundurinn verður haldinn í aðalsal Háskólabíós og einnig verður sjónvarpsskjám komið fyrir í anddyri þannig að sem flestir komist að. Auk þess verður fundinum streymt á netinu svo enginn ætti að missa af honum sem ekki á heimangengt, er búsettur úti á landi eða erlendis. [Opna í sérglugga hér.]

Ræðumenn og fyrirlesarar kvöldsins verða:

Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR,

Vilhjálmur Birgisson formaður VLFA,

Ásta Lóa Þórsdóttir formaður HH,

Ólafur Margeirsson, doktor í Hagfræði.

Einnig höfum við boðið Seðlabanka Íslands að senda fulltrúa og mun Már Guðmundsson seðlabankastjóri skýra sitt sjónarmið. Auk þess hefur öllum stjórnmálaflokkum sem bjóða fram til Alþingis hinn 28. október næstkomandi verið boðið að senda formenn eða fulltrúa sína til að kynna hvað þeirra flokkur ætlar að gera varðandi okurvextina og verðtrygginguna á lánum heimilanna og fá þeir 3 mínútur hver til þess.

Áður en við förum vongóð út í haustkvöldið munu feðginin, Magnús Þór Sigmundsson og Þórunn Antonía Magnúsdóttir, syngja með okkur lag Magnúsar "Ísland er land þitt" og þá getur ekkert klikkað.

Fundarstjóri verður Vilhjálmur Bjarnason ekki fjárfestir.

Nánari upplýsingar um viðburðinn á facebook, sem við hvetjum alla til að deila með sem flestum.

gudblessiheimilin

Uppfært 8. október 2017

Hér má sjá kynningarglærur Ólafs Margeirssonar frá fundinum þar sem ýmsar algengar mýtur um verðtryggingu eru skoðaðar og útskýrt hvers vegna þær eiga ekki við rök að styðjast.

Hér má finna tvær greinar úr Bændablaðinu um efni fundarins:

Uppfært 2. desember 2017 - Umfjöllun um fundinn og viðtal við Ólaf Margeirsson í 4. tbl. VR blaðsins:

Read more...

Bein útsending frá borgarafundi þriðjudagskvöldið 24. febrúar

Annað kvöld eða þriðjudagskvöldið 24. febrúar 2015 kl. 20:00-22:00, hafa Hagsmunasamtök heimilanna boðað til borgarafundar í Háskólabíói. Allir sem vettlingi geta valdið eru hvattir til þess að mæta og taka þátt í fundinum.

Að loknum framsöguræðum munu verða umræður og tekið við spurningum úr sal, en þá gildir almennt að fyrstur kemur fyrstur fær. Nánar verður tilkynnt um fyrirkomulag þess á fundinum sjálfum.

Fundurinn verður einnig sendur út beint hér á vefnum og mun streymið hefjast skömmu fyrir kl. 20:00, og verður hægt að horfa á endursýningu fundarins næsta sólarhringinn. Fundurinn hefst þegar um það bil 12 mínútur eru liðnar af upptökunni.

Read more...

Borgarafundur 24. febrúar - Verðtryggingin bíður dóms

Hagsmunasamtök heimilanna boða til opins borgarafundar í Háskólabíó þriðjudagskvöldið 24. febrúar 2015 kl. 20:00-22:00. Kvöldið hefst með tónlistarflutningi Magnúsar Þórs Sigmundssonar, en svo taka við framsöguræður og pallborðsumræður. Frummælendur og í pallborði verða: Vilhjálmur Bjarnason ekki fjárfestir og formaður HH, Jacky Mallett frá Vitvélastofnun Íslands, Marinó G. Njálsson tölvunarfræðingur, Þórður Heimir Sveinsson lögmaður HH, Aðalsteinn Sigurðsson lögfræðingur, Vilhjálmur Birgisson formaður VLFA og Ólafur Ísleifsson hagfræðingur.

Fundarefnið er verðtrygging neytendalána, en samtökin hafa frá upphafi barist fyrir afnámi hennar. Árið 2012 var svo höfðað til dómsmáls fyrir tilstilli samtakanna í því skyni að láta reyna á lögmæti kynningar heildarlántökukostnaðar verðtryggðra neytendalána. Eftir að hafa þurft að feta langar krókaleiðir gegnum dómskerfið fékkst mál þetta loks flutt fyrir fjölskipuðum Héraðsdómi Reykjavíkur þann 5. janúar 2015 og dómur kveðinn upp 6. febrúar.

Þrátt fyrir að héraðsdómur hafi fallist á það meginsjónarmið í málinu að lög um neytendalán hafi verið brotin við lánveitinguna, voru ekki dæmd nein viðurlög við því. Málinu verður nú áfrýjað til Hæstaréttar Íslands, og má búast við að nokkrir mánuðir líði áður en endanlega niðurstaða fæst. Rétt er þó að benda á þá sigra sem unnist hafa nú þegar, svo sem álit EFTA-dómstólsins og ákvörðun Neytendastofu um sama álitaefni. Viðurkenning héraðsdóms þann 6. febrúar á brotum gegn lögum um neytendalán er jafnframt stórsigur fyrir neytendur.

Á þessum tímamótum er við hæfi að kynna stöðu málsins og framvindu þess fyrir almenningi og er því boðað til þessa borgarafundar. Fundurinn er öllum opinn, jafnt félagsmönnum HH sem öðrum, en við viljum minna á að sameinuð erum við ósigrandi. Við hvetjum því alla til að skrá sig í Hagsmunasamtök heimilanna á fundinum sjálfum eða á heimasíðu HH www.heimilin.is.

Meðal baráttumála HH gegnum tíðina hefur verið að fá dóma um ólögmæti gengislánanna svokölluðu sem nú er að hluta búið af klára og við teljum að ganga þurfi ennþá lengra og verður áfram unnið að því.

Baráttan gegn verðtryggingunni hefur tekið mikinn tíma og afl frá okkur en það mun koma endanlegur sigur fyrir heimilin í landinu, ef ekki fyrir Hæstarétti þá fyrir erlendum dómstólum. Því miður mun það þýða að þá verður íslenska ríkið orðið skaðabótaskylt. HH hafa alltaf barist fyrir því að það sem fjármálafyrirtækin hafa tekið ólöglega af fólki endurgreiðist úr uppgjörinu á milli gömlu og nýju bankanna. Sýnt hefur verið fram á að þeir hafi fengið lánasöfnin með afslætti en hafa hingað til rukkað heimilin að fullum þunga þrátt fyrir það.

Að auki þarf að stöðva allar nauðungarsölur á heimilum fólks og gjaldþrot einstaklinga á grundvelli verðtryggðra lána meðan beðið er dóms Hæstaréttar. Einnig þarf í framhaldinu að setja ný lög um endurupptöku gjaldþrota- og nauðungarsölumála sem farið hafa fram á grundvelli ólögmætra lánasamninga.

Félagsmenn, sem og aðrir, eru hvattir til að mæta.

2015-02-24 Borgarafundur - auglysing

2015-02-24 Borgarafundur HH - dreifirit.pdf

Read more...
Subscribe to this RSS feed

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna